Fundað um varnargarða við Grindavík og Svartsengi
Bæjaryfirvöld í Grindavík funda í vikunni með jarðvísindamönnum, verkfræðingum, ríkislögreglustjóra og almannavörnum um varnir við Grindavík og Svartsengi ef kæmi til eldgoss í ljósi jarðskjálftavirkni og landriss við Þorbjörn. Land hefur risið við Þorbjörn og í Svartsengi um 60 millimetra frá því í apríl. Hægt hefur á landrisi og aflögun síðustu daga.
Hægt hefur á landrisi og aflögun við Þorbjörn og Svartsengi undanfarna daga, en stöðugt landris hafði mælst þar síðustu vikur og Þorbjörn lyfst um allt að 60 millimetra síðan í apríl.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir nauðsynlegt að vera viðbúinn. Í samtali við RÚV sagði hann að bæjaryfirvöld hafi verið að skoða þessi varnarmannvirki.
„Það þarf að vera til tækjalisti, tengiliðalisti þeirra aðila sem geta komið með tól og tæki, öflugustu vélar á svæðið og það þarf að vera til hönnun á þessum mannvirkjum. Þannig það er eitt af því sem við verðum að skoða,“ sagði Fannar við RÚV sl. föstudag.
Til skoðunar er hönnun leiðigarða fyrir ofan byggðina í Grindavík og í Svartsengi. Þeim er ætlað að beina hrauninu, komi til eldgoss, á ákveðna braut í stað þess að stöðva hraunrennslið. Leiðigarður var m.a. reistur upp af Nátthagakrika síðasta sumar þegar gaus í Fagradalsfjalli. Hann varnaði því að hraun myndi renna í Nátthagakrika og beindi rennslinu niður í Nátthaga.
Eins og greint var frá í Víkurfréttum í síðustu viku er nú til skoðunar að koma upp varavatnsbóli til að auka öryggi á svæðinu, hvort sem eldgos eða mengunarslys myndi ógna núverandi vatnsbóli í Lágum.
Í fréttum RÚV á föstudaginn talaði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um að mikla uppbyggingu þyrfti á Reykjanesskaganum vegna mögulegra eldsumbrota til að tryggja innviði eins og vatnsból. Til þess gæti regluverk þurft að víkja.