Fundað um HSS í dag
Forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) munu í dag funda með þingmönnum Suðurkjördæmis, heilbrigðisráðherra og embættismönnum heilbrigðisráðuneytis vegna málefna HSS.
Starfsmannafundur hafði verið boðaður í gær á HSS þar sem greina átti frá fyrirhuguðum niðurskurði og uppsögnum en honum var frestað vegna fundarins í dag í þeirri von að málin skýrðust betur eftir hann.
Eins og fram hefur komið lítur út fyrir að HSS hafi verið afgangsstærð hjá ríkisvaldinu þegar kemur að fjárveitingum til heilbrigðisstofnana. Heilbrigðisyfirvöld hafa fjársvelt stofnunina um árabil enda hafa fjárveitingar til hennar verið mun lægri en til annarra sambærilegra stofnana í landinu. Engu að síður er henni gert að skera niður um ríflega 80 milljónir króna á þessu ári.