Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fundað um framtíð atvinnumála á Suðurnesjum
Föstudagur 17. mars 2006 kl. 10:37

Fundað um framtíð atvinnumála á Suðurnesjum

Samráðsfundur sveitarstjórna á Suðurnesjum, fulltrúum ríkisvaldsins og stéttarfélaga hefur verið boðaður eftir helgi, en þar verða ræddar lausnir í atvinnumálum Suðurnesja.

Þá kom fram í frétt Morgunblaðsins í dag að forsvarsmenn Norðuráls séu reiðubúnir að flýta undirbúningi að álveri í Helguvík á Reykjanesi í ljósi breyttrar stöðu í atvinnumálum á svæðinu eftir að tilkynnt var að varnarlið Bandaríkjanna væri á förum. Ef hægt sé að flýta afhendingu orku sé Norðurál tilbúið að vinna með samstarfsaðilum sínum að því að flýta undirbúningi.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Víkurfréttir að ekki stæði á þeim að hefja frekari undirbúning á álveri í Helguvík. „Norðurálsmenn telja forsendur fyrir því að flýta undirbúningi og ekki stendur á okkur því landið í Helguvík er tilbúið.“

Árni segir lóðasamninga og hafnarsamninga í undirbúningi auk þess sem Hitaveita Suðurnesja er tilbúin til að leggja sitt af mörkum í orkuöflun.

Gert hefur verið ráð fyrir því að gangsetning fyrsta áfanga álversins gæti orðið árið 2010 en Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs hjá Norðuráli, segir í samtali við Morgunblaðið að erfitt sé að segja til um hvort hægt sé að flýta henni. Það sé undir því komið að orka sé til reiðu.

Einkum hefur verið rætt um orkumál við Hitaveitu Suðurnesja en einnig hafa farið fram viðræður við Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur um framkvæmdirnar.

Heimild: mbl.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024