Fundað með ráðherra um heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ
Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa átt fund með heilbrigðisráðherra um heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ.
Minnisblað frá bæjarstjóra um fund með heilbrigðisráðherra og forstjóra HSS var tekið fyrir á síðasta fundi bæjarráðs Suðurnesjabæjar. Þar kemur m.a. fram að bæjarstjóri og forstjóri HSS munu skila ráðherra greinargerð og tillögum um húsnæði og þjónustu heilsugæslu í Suðurnesjabæ.
Afgreiðsla bæjarráðs var að bæjarstjóra er falið að vinna málið áfram eins og lagt er til í minnisblaðinu.
Suðurnesjabær er tæplega 4000 manna sveitarfélag en mörg ár eru síðan síðast voru opnar heilsugæslustöðvar í Sandgerði og Garði. Þessu vilja bæjaryfirvöld snúa við og hafa því fundað með ráðherra um málið.