Fumkvöðlar í uppeldismálum heiðraðir
Foreldraverðlaunum Heimilis og skóla er úthlutað árlega til þeirra sem hafa unnið góð störf í þágu foreldra og barna. Sérstaklega er litið til verkefna sem efla tengsl heimila og skóla og auka virkni foreldra, kennara og nemenda.
Tilnefnd voru níu verkefni frá Reykjanesbæ. Þau voru Hátíðarmatarboð 10. bekkjar – Njarðvíkurskóli, Hugsað um barn – ÓB ráðgjöf, Dans – Heiðarskóli, Hattur og Fattur/leiksýning – Myllubakkaskóli, Merkispjöld, Sólblóm, Kennaraepli – Myllubakkaskóli, Bekkjarbangsinn Snúður – Myllubakkaskóli, Þrándur úr götu – Myllubakkaskóli, Að breyta uppeldi í heilum landshluta – Gylfi Jón Gylfason sálfræðingur og Lestrarmenning í Reykjanesbæ – Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar. Rætt var við Ölmu Vestmann en hún hlaut foreldraverðlaun Heimilis og skóla, Guðrúnu Jónsdóttur og Ólaf Grétar Gunnarsson sem voru bæði tilnefnd til verðlauna.
Nauðsynlegt að hvetja fólk áfram
Alma Vestmann hlaut á dögunum hvatningarverðlaun Heimilis og skóla fyrir verkefnin Merkispjöld, Sólblóm, páskakveðja og Kennaraeplið. Alma er námsráðgjafi í 50% stöðu og kennir jafnframt íslensku í efstu bekkjum skólans. Hún hefur ávallt haft líðan og velferð nemandans í öndvegi. Hún er ekki bara góð í að finna upp á verkefnum, hún kemur þeim einnig í verk. Jafnframt er hún dugleg að virkja nemendur, kennara og foreldra til samstarfs. Verkefnin sem hún hlaut verðlaun fyrir voru:
Merkispjöld.
Merkispjöldin eru ein af fjáröflunarleiðum 10. bekkinga fyrir ferðasjóð. Spjöldin eru hugsuð sem jólamerkispjöld og voru upphaflega gerð til þess að fjármagna vorferð sem Alma fór með nemendur sína í til Færeyja, en hafa nú hlotið fastan sess í starfi 10. bekkjar. Umsjónarkennar hafa sérstakan útbúnað , pappír, skæri og “krullujárn” o.fl. sem lánað er á milli stofa/kennara á meðan á verkinu stendur. Nokkur vinna felst í að brjóta, klippa, skera, krulla, líma, skreyta og að lokum pakka spjöldunum inn, en þau eru bundin saman í litla pakka 10 mismunandi kort í hverjum pakka. Að lokum sjá nemendur um sölu á merkispjöldunum og hafa fengið mikið hrós og mikla eftirspurn í bænum, eftir merkispjöldunum. Hugmyndin og útfærslan er Ölmu en verkið er undir stjórn umsjónarkennara.
Sólblóm, páskakveðja.
Verkefnið felst í því að þeir kennarar sem sjá um kennslu í námsgreinum til samræmdra prófa, búa til kort þar sem sett eru fram hvatningarorð til nemenda áður en þeir fara í páskafrí. Með þessu telja kennararnir að þeir sýni nemendum að þeir standi með þeim þegar á reynir. Hvatningarorðin eru oft í formi ljóða eða heilræða, mjög vönduð að allri gerð, eru stíluð á hvern nemanda en hafa þó verið valin af handahófi. Með Sólblómakortinu fá börnin páskaegg og klapp á bakið áður en þau leggjast í lestur fyrir prófin.
Kennaraeplið.
Verkefnið er sérstök viðurkenning sem veitt er nemendum, óháð námsárangri og afhent á skólaslitum á vorin. Veit hafa verið verðlaun fyrir, t.d. vinsemd í félagahópnum, ljúfmannlega framkomu eða annað sem vekur athygli í lífi nemenda. Mikil eftirvænting ríkir á ári hverju varðandi þessi verðlaun.
„Þetta er ekki spurning um að vera frumleg,“ sagði Alma þegar hún var spurð að því hvernig henni hefði dottið í hug hugmyndir eins og kennaraeplið, merkispjöldin og sólblóma páskakveðjan. „Þetta er meira spurning um að hugsa um eitthvað sem gerir lífið skemmtilegt og mér finnst gaman að klippa. Hugmyndin að merkispjöldum vaknaði þegar nemendur í 10. bekk Myllubakkaskóla voru að leita leiða til að fjármagna ferð sína til Færeyja. Ég vildi endilega finna einhverja leið til fjármögnunar sem var ekki í gangi svo ég væri ekki að taka frá hinum“
„Hugmyndina að Kennaraeplinu fékk ég þegar nemandi minn í 10. bekk smíðaði fyrir mig „kortakrækju“ eftir að ég bað nemendur mína ansi oft að hoppa upp til að nálgast landakortin og sýningartjaldið í kennslustofunni. Ég talaði því við skólastjórann, Vilhjálm Ketilsson heitinn, og spurði hvort við gætum ekki gert eitthvað til að verðlauna svona framtakssemi. Úr varð Kennaraeplið enda kennarar þekktir fyrir að borða epli. Það er jú þess vegna sem kennarar eru svona gáfaðir,“ sagði Alma og hló. „Síðan hefur Kennaraeplið fengið aðra mynd á sig, nú verðlaunum við nemendur fyrir ýmsa hluti, eins og þá sem sýna ábyrgð og ljúfa framkomu“
„Það er auðvitað mikilvægt að fá viðurkenningu á störfum sínum, hvort sem maður er kennari eða nemandi,“ sagði Alma þegar hún var spurð hvort viðurkenningar á borð við Foreldraverðlaun Heimilis og skóla væru mikilvæg hvatning fyrir hana. „Þetta er aðallega hvatning fyrir kennara skólans sem og nemendurna, með þessu vær maður staðfestingu á því góða starfi sem er unni hér. Nemendurnir fyllast líka stolti því þau áttu hlut að þessu öllu saman“
Kveðja kennara með söng og dans
Guðrún Jónsdóttir hlaut tilnefningu frá Heimili og skóla fyrir hugmyndina um Hátíðarmatarboð 10. bekkjar. Í tvo áratugi hefur hún haldið utan um, útfært og fengið foreldra og nemendur til liðs við sig. Útkoman hefur verið stórfenglegur þriggja rétta kvöldverður þar sem nemendur kveðja kennara sína. Foreldrarnir sjá svo um að skipuleggja boðið.
Verkefnið hefur verið í gangi síðan 1984 og setur svip sinn á skólastarf 10. bekkjanna. Foreldrarnir skreyta og elda sjálfir, þjóna til borðs fyrir nemendur og kennara skólans sem og standa straum af kostnaði við hátíðina. Nemendur nýta tilefnið til þess að kveðja kennara sína með ljóðum og frumsömdum texta og söng og um leið fá kennarar tækifæri til þess að ávarpa nemendur og rifja upp skemmtilegar minningar, hvetja þá til dáða um leið og þeir þakka fyrir sig.
„Þetta var nú ekki einu sinni mín hugmynd til að byrja með. Gylfi Guðmundsson, þá verandi skólastjóri átti hana en ég fylgdi henni eftir og útfærði,“ sagði Guðrún um hátíðarmatarboðið. „Það gekk svo vel að fá foreldra og nemendur til að vinna að þessu, lítið mál var að virkja foreldra og allt heppnaðist svo vel að við ákváðum að hafa þetta að árlegum viðburði. Ég boða foreldra á fund ár hvert og útskýri þessa hefð fyrir þeim og allir eru tilbúnir að fá að vera með í að halda hefðinni gangandi. Ég er aðallega tengiliður á milli nemenda og foreldra. Það eru svo þau sem taka við og skipuleggja allt saman.“
„Það er mikilvægt að vera frumlegur í starfi og þessi verðlaun eru hvetjandi til þess. Þau vekja athygli annarra á því sem vel er gert. Einnig sjá aðrir hversu mikilvægt það er að hafa foreldra með í skólastarfinu, en það er nauðsynlegt,“ sagði Guðrún
Spreyta sig á foreldrahlutverki
Ólafur Grétar Gunnarsson og Bjarni Þórarinsson hjá ÓB-ráðgjöf fengu einnig tilnefningu í ár fyrir verkefnið Hugsað um barn. Nemendur fá í hendur dúkku sem þeir eiga að annast eina helgi og kynnast þannig þeirri ábyrgð sem því fylgir að annast ungbarn. Markmiðið er að vekja unglinga til umhugsunar um afleiðingar kynlífs.
Verkefnið fer fram í fjórum sveitarfélögum, Kópavogi, Ólafsfirði, Reykjanesbæ og Reykjavík og er markmiðið að vekja unglinga til umhugsunar um afleiðingar kynlífs og leitast við að hafa áhrif á að þeir byrji að stunda kynlíf eldri en nú þekkist og af meiri ábyrgð. Nemendur fá í hendur dúkku sem þeir eiga að annast eina helgi og kynnast þannig þeirri ábyrgð sem því fylgir að annast ungbarn.
„Að fyrirtækið sé tilnefnt til verðlauna er mikilvæg viðurkenning á okkar starfi en ÓB-ráðgjöf réðst út í mikið frumkvöðla starf með verkefninu og hefur nú fengið staðfestingu frá Heimili og skóla um að þörf sé á slíku,“ sagði Ólafur Grétar Gunnarsson. „Verðlaunin eru hvatning til allra sem vinna að einhverju fyrir skólana og er mikilvægt að tekið sé eftir því starfi sem vel er gert. Bragur þessarar hátíðar, Heimilis og skóla, var til að ýta undir það.“ sagði hann ennfremur. „Það er þó aðallega verkefnið sjálft sem er að skila sér til nemendanna, það hjálpar þeim að taka ábyrga ákvörðun um að bíða með að lifa kynlífi. Það á ekki að fara saman að vera í grunnskóla og að lifa kynlífi.“
Vegna óviðráðanlegra ástæðna birtist ekki við talið við Guðrúnu Jónsdóttur í Víkurfréttum í dag en það má finna hér.