Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fulltrúi Samfylkingar varaformaður í atvinnu- og hafnaráði í Reykjanesbæ
Miðvikudagur 7. júlí 2010 kl. 16:13

Fulltrúi Samfylkingar varaformaður í atvinnu- og hafnaráði í Reykjanesbæ

Hjörtur Guðbjartsson var kjörinn varaformaður í atvinnu- og hafnaráði Reykjanesbæjar á fundi í dag. Hann er varabæjarfulltrúi fyrir Samfylkinguna. Einar Magnússon bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks er formaður.

Þetta er nýlunda þar sem sjálfstæðismenn eru með 7 manna meirihluta í bæjarstjórn af 11 bæjarfulltrúum en kjósa fulltrúa úr minnihluta í ábyrgðarstöðu.

„Þrátt fyrir mjög sterkan meirihluta sjálfstæðismanna hér í Reykjanesbæ viljum við efla samstöðuna enn frekar með þessu,“ segir Árni Sigfússon bæjarstjóri og oddviti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ.

„Í tilviki Hjartar Guðbjartssonar treystum við honum mjög vel til þess að sinna varaformannshlutverkinu óháð því að hann er varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar. Við munum skoða þetta í fleiri nefndum þar sem er fólk með hagnýta reynslu. Einnig stefnum við á málefnaþing í haust þar sem við viljum fara yfir málefnaskrár framboðanna eins og þær birtust fyrir nýafstaðnar kosningar og leitum leiða til að nýta hugmyndir allra og samræma okkur betur. Þetta er í samræmi við það sem við sjálfstæðismenn sögðum fyrir kosningar,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024