Fulltrúi heilbrigðisráðherra fundar með læknum
Í hádeginu mun fulltrúi heilbrigðisráðherra eiga fund með heilsugæslulæknum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en að öllu óbreyttu láta 10 læknar af störfum í dag. María Ólafsdóttir yfirlæknir heilsugæslustöðvar HSS vildi í samtali við Víkurfréttir ekkert tjá sig um málið og sagði að læknar bíði eftir tilboði ráðherra. Eins og áður segir munu 10 læknar hætta störfum í dag og á morgun verður einungis veitt neyðarþjónusta á neyðarmóttöku. Suðurnesjamenn þurfa því eftir daginn í dag að sækja almenna læknisþjónustu til höfuðborgarsvæðisins.