Fullkomið raf- og öryggiskerfi og tölvustýrð lýsing í Reykjaneshöllinni
Lýsingin ein af mikilvægustu þáttum hússins Verkfræðistofan Rafteikning hannaði lýsingu og rafkerfi Reykjaneshallar-innar og Guðjón L. Sigurðsson rafmagnsiðnfræðingur hafði yfirumsjón með verkinu. Menn frá Íslenskum aðalverktökum sáu síðan um uppsetningu kerfanna. „Ég er mjög ánægður með útkomuna og verktakarnir sem unnu verkið stóðu sig frábærlega vel. Þeir hafa þegar fengið mikið lof frá úttektaraðilum fyrir gott handbragð“, segir Guðjón.Rafteikning er stærsta stofan á þessu sviði í dag en þar vinna þrjátíu og fimm manns. „Við unnum verkið í góðri samvinnu við ÍAV og komum að verkinu strax í byrjun síðasta árs. Reykjanesbær gerði ákveðnar kröfur um lýsingu í salnum og í sambandi við rafkerfið. Við þurftum að sjá til þess að kröfum þeirra væri fullnægt“, segir Guðjón. Guðjón segir að lögð hafi verið áhersla á tvö megin-atriði varðandi lýsingu í salnum, annars vegar æfingalýsingu og hins vegar keppnislýsingu. „Lýsingin var talin vera ein af mikilvægustu þáttum hússins svo að vel tækist til. Við vildum finna ódýrustu og bestu lausnina og sendum útboðsgögn um hönnun lýsingar til fjölda aðila. Við fengum 17 tilboð og sá aðili sem var lægst bjóðandi var ítalskur og heitir Disano. Disano var einnig með hentugasta kerfið að okkar mati þar sem þeir voru með fæst ljós, þ.e.108 stykki eingöngu fyrir völlinn. Vallarlýsingin ein er 80 Kw því þetta er gríðarlega stórt hús“, segir Guðjón.Hægt er að breyta lýsingunni á vellinum eftir því sem við á og hún er tölvustýrð. „Við hugsuðum lýsinguna einnig fyrir aðra viðburði en fótbolta, s.s. körfuboltaleiki, handbolta, danssýningar o.þ.h. Lýsingunni er skipt upp í keppnis- og æfinga-lýsingu á öllum vellinum og það er líka hægt að hafa hana öðru hvoru megin. Síðan er hægt að vera með keppnis-lýsingu fyrir miðju vallarins og þá er slökkt á hliðunum. Í framtíðinni verða jafnvel reistir áhorfendapallar inn að miðju og lýsingin gerir ráð fyrir því“, segir Guðjón.Gott hljóðkerfi og fullkomið brunaviðvörunarkerfi er í húsinu og Rafteikning sá einnig um hönnun þeirra. „Hluti öryggiskerfisins eru fimmtán lúgur í loftinu sem skjótast upp ef það kemur upp eldur eða reykur í salnum“, segir Guðjón og bætir við að hljóðkerfið sé hins vegar eingöngu hannað fyrir talað mál. „Hugmyndin er að leigja hljóðkerfi þegar þess háttar viðburðir verða í húsinu“, segir Guðjón að lokum.