Fullfrískir geta orðið fárveikir
Fullfrískir einstaklingar á Suðurnesjum hafa orðið fárveikir vegna svínaflensunnar. Suðurnesjafólk hefur bæði verið sent á gjörgæsludeild í Reykjavík vegna flensunnar og lagt inn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og haft þar í einangrun.
Sigurjón Kristinsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslu Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, segir í viðtali við Víkurfréttir að hann hvetji foreldra til að panta tíma í bólusetningu fyrir sig og börnin sín. Mikilvægt sé að bólusetja börn og þá standa yfir tímapantanir í dag og á morgun fyrir forgangshópa með undirliggjandi sjúkdóma.
Svínaflensan er nú í rénun, sem þýðir ekki að hún sé yfirstaðin, heldur mun hún blossa upp aftur og getur gert það af miklu meiri krafti en hún hefur gert síðustu vikur. Því sé mikilvægt að nota tímann til að bólusetja sem flesta. Þegar hafa um 3500 einstaklingar á Suðurnesjum verið bólusettir en í forgangshópi eru um 5000 einstaklingar.
- Sjá nánar viðtal við Sigurjón Kristinsson hér!