Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fullfjármögnuð heilsugæsla í Innri Njarðvík en tafir á bráðabirgðastöð
Laugardagur 23. apríl 2022 kl. 09:59

Fullfjármögnuð heilsugæsla í Innri Njarðvík en tafir á bráðabirgðastöð

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur nú fengið fullfjármagnaða ríflega 1600 fermetra sérhannaða heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík sem mun bjóða upp á nútímalega aðstöðu fyrir skjólstæðinga og starfsfólk. Til samanburðar er núverandi húsnæði heilsugæslunnar í Reykjanesbæ aðeins rúmir 700 fermetrar. Sökum þrengsla hefur ekki verið unnt að fjölga starfsfólki. Til að brúa bilið fram að opnun nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri Njarðvík þá boðaði Svandís Svararsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, að sett yrði upp heilsugæslustöð til bráðabirgða. Víkurfréttir spurðu Markús forstjóra HSS hvað væri að frétta af bráðabirgðaheilsugæslu?

„Framkvæmdasýsla ríkisins heldur utan um það mál og er í ferli. Það urðu tafir því það voru gerðar breytingar. Geðheilsuteymið verður tekið þar inn og þær breytingar kölluðu á ákveðnar tafir.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mun bráðabirgðaheislugæsla sem stýrt er af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ekki bæta þjónustuna og er ekki akkur fyrir samfélagið að fá hana í gang sem fyrst?

„Það þarf að fá aukið rými undir heilsugæslu, það liggur fyrir. Það þarf líka að manna það og fjármagna. Þetta þarf allt að haldast í hendur. Eins og við sjáum hérna núna þá er aukið rými forsenda þess að það sé hægt að fjölga starfsfólki. Auðvitað þarf fjármagn líka og að byggja upp aðlaðandi vinnuumhverfi.“

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra heimsótti HSS nýlega og var þá spurður út í bráðabirgðarheilsugæslu á Suðurnesjum.

„Við þurfum hér með öllum þeim sem standa að pólitíkinni á svæðinu og ekki síst stofnuninni, hún þarf alltaf að vera í fyrirrúmi í þjónustu við fólkið, hvernig við getum hraðar hjálpað heilsugæslunni hér og komið á bráðabigrðastöð. Hin mun alltaf opna. Sama gildir um heilsugæslusel í Garði og Sandgerði, það er full ástæða til að taka það. Ef okkur tekst að taka sameiginlega ákvörðun um þetta hvar hún á að vera og hvernig við byggjum hana hraðar, kannski bara á tveimur árum, þá getum við tekið álagið af hér. Við þurfum um leið að tryggja mönnunina.“

Þegar ráðherra er spurður hvort Suðurnesjamenn þurfi virkilega að bíða í tvö ár eftir bráðabirgða heilsugæslustöð, segir hann að það sé betra að hafa tímann fyrir sér og skapa ekki of miklar væntingar þó hugurinn sé mikill. Vonandi sé hægt að opna fyrr því þetta sé málefni sem brennur á heimafólki.