Fuglaspjöld sett upp í Fræðasetrinu
Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Sandgerði fékk á þessu ári 500 þús kr styrk frá Menningarráði Suðurnesja til að útbúa og setja upp upplýsingaspjöld að Garðvegi 1. Nú hafa 15 spjöld með upplýsingum um fugla verið sett upp á útisvölum við sýninguna Heimskautin heilla en þau voru formlega vígð á Sandgerðisdögum laugardaginn 27. ágúst. Svalirnar snúa til vesturs og er afar gott útsýni þaðan til sjávar og yfir hafnarsvæðið í Sandgerði.
Á spjöldunum, sem voru að öllu leyti unnin á Suðurnesjum, er megin áhersla lögð á upplýsingar um þá fugla sem halda til í næsta nágrenni Sandgerðis. Fuglalíf á svæðinu er merkilegt fyrir margra hluta sakir, hvort sem er í fræðilegu eða sögulegu tilliti. Sem dæmi má nefna að skipulegar ferðir í leit að flækingsfuglum hófust í Sandgerði og nágrenni árið 1976 og að jafnaði finnast flestir amerískir flækingsfuglar á þessu svæði. Fyrir utan mikinn fjölda fuglategunda sem sjá má allan ársins hring hafa umfangsmiklar fuglarannsóknir staðið yfir undanfarin ár að Garðvegi 1. Á spjöldunum er einkennistegundum svæðisins gerð góð skil og helstu rannsóknaniðurstöðum miðlað á aðgengilegan hátt sem er ótvírætt sérstaða spjaldanna.
Spjöldin eru hönnuð þannig að þau er auðveldlega hægt að taka inn og láta standa á borðum. Þannig má t.d. hafa upplýsingar um þá fugla sem sjást á svæðinu á hverjum árstíma og jafnframt bæta við nýjum niðurstöðum eða öðru sem henta þykir hverju sinni. Í tengslum við ákveðna viðburði er þannig hægt að setja upp annað efni fólki til fróðleiks.
Efri myndin: Reynir Sveinsson forstöðumaður Fræðasetursins og Halldór Pálmar Halldórsson forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurnesjum við spjöldin. Reynir og Halldór sáu um tæknilega hönnun og undirstöður spjaldanna.