FS og Keilir í samstarfi
Nýlega var undirritaður samstarfssamningur milli Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis. Lýtur hann að viðurkenningu FS á sérnámi í flugtengdu námi. Þannig munu nemendur geta fengið viðurkenningu á sérgreinum flugtengdra greina er nemur allt að 20 einingum til stúdentsprófs. Gildir þetta um nám í einkaflugi, flugvirkjun, grunnnámi flugumferðarstjórnar og flugfreyju/þjónanámi.
Skólarnir telja að með samstarfi þessu sé verið að viðurkenna í raun hið mikilvæga nám innan fluggeirans. Segja má að sú mikilvæga atvinnugrein, sem flugið er orðið, hafi ekki notið sannmælis innan skólakerfisins en með samstarfi skólanna tveggja sé verið að viðurkenna formlega mikilvægi þess. Þá opnar samstarfið fyrir möguleika nemenda til frekara náms. Þetta er liður í því að tengja starfsmennt og almennt skólanám saman og opna þannig í raun nýjar námsleiðir fyrir nemendur. Fólk getur nú sótt nám í sérgreinum flugsins hjá Keili en fengið þær einingar svo viðurkenndar hjá FS, vilji fólk halda áfram námi. Þetta þýðir m.a. að ungt fólk getur sótt sér nám til einkaflugs og flugfreyja/þjóna samhliða öðru námi í framhaldsskóla.
Á myndinni skrifa undir samstarfssamninginn þeir Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari FS, og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Samgönguskóla Keilis.