FS neyðist til að fækka nemendum miðað við fjárveitingu
-„Alvarleg staða,“ segir skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja-
Fjölbrautaskóli Suðurnesja gæti þurft að fækka nemendum um tvöhundruð og jafnframt þurft að segja upp 12-14 starfsmönnum vegna fjárveitingar sem skólinn fær í fjárlögum fyrir næsta skólaár. Í dag eru um 1.100 nemendur við skólann og gætu þeir orðið 900 á næsta skólaári ef fram heldur sem horfir. FS hefur á undanförnum árum reynt að taka við öllum nemendum sem sækjast eftir námi á Suðurnesjum.
„Að öllu óbreyttu þá verðum við að fækka nemendum um 200. Þetta er ekki óskastaða og auðvitað vona ég að stjórnvöld sjái að sér,“ segir Kristján Ásmundsson, skólameistari FS.
„Við getum ekki rekið skólann á næsta ári með öðru móti en að fækka nemendum ef ekki verður aukin fjárveiting til skólans. Við áttum fund í menntamálaráðuneytin þar sem við ræddum þessa stöðu. Við teljum okkur ekki hafa fengið hækkanir í fjárveitingu líkt og aðrir framhaldsskólar. Um það eru ekki allir sammála. Eins og staðan er í dag þá þurfum við á fá 70 milljónir króna í aukafjárveitingu til að geta rekið skólann líkt og við höfum gert undanfarin ár. Við viljum taka við öllum Suðurnesjabúum í nám og stuðla að betri menntun hér á svæðinu.“
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segir í Fréttablaðinu í dag að FS hafi á undanförnum árum ekki nýtt fjárheimilir sínar að fullu og kemur það henni á óvart að FS sé í þessari stöðu. Kristján undrast þessi ummæli Katrínar. „Undanfarin þrjú ár höfum við verið að ganga á rekstrarafgang síðustu ára og nú er sá afgangur uppurinn. Við fengum bréf frá Menntamálaráðuneytinu í vor þar okkur var bent á þessa stöðu og spurðir hvernig við ætluðum að leysa þessa stöðu á næsta ári? Menntamálaráðuneytið veit því vel hver staða okkar er.“
Trúir ekki að ríkisstjórnin ætli að svíkja loforðin
Fyrir tveimur árum hélt ríkisstjórnin fund í Reykjanesbæ þar sem lofað var að rekstur menntastofnanna á svæðinu yrði tryggður og þróa skyldi fjölbreyttara námsframboð á svæðinu til að byggja undir þá sem minnsta menntun höfðu eða voru án atvinnu.
„Ég trúi því hreinlega ekki að ríkisstjórnin ætli nú að svíkja loforðin sem þeir gáfu. Við höfum sýnt mikið aðhald í rekstri á síðustu árum og náð góðum árangri. Við viljum geta rekið góðan framhaldsskóla og ég ætla að vona að þetta verði endurskoðað. Þetta getur haft mjög slæmar afleiðingar fyrir menntun á Suðurnesjum,“ segir Kristján og bætir við að segja þurfi upp starfsfólki til að leiðrétta halla í rekstri. „Eina leiðin til að við getum mætt halla í rekstri er að skera niður á launaliðinn og það þýðir uppsögn á starfsfólki. Ég vona að til þess þurfi ekki að koma.“