FS heldur alþjóðlegt þing framhaldsskólanema
- 60 nemendur frá 12 löndum leita lausna við vandamálum Evrópu
Fjölbrautaskóli Suðurnesja stendur í stórræðum þessa dagana en skólinn er gestgjafi á alþjóðlegu þingi framhaldsskólanema frá fjölda Evrópulanda. Alls taka 60 nemendur frá 12 löndum þátt í þinginu hér á Íslandi að þessu sinni og hefur það verið mikil skipulagsvinna fyrir nemendur og starfsfólk FS að undirbúa þingið.
„Helstu verkefni þingsins er að ræða þau vandamál sem steðja að Evrópu og reyna að leggja fram lausnir,“ segir Ægir Karl Ægisson, áfangastjóri í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. „Það er mikil reynsla fyrir bæði nemendur og starfsfólk FS að halda þetta þing. Þetta er mjög gott dæmi um þann kraft sem býr í Suðurnesjamönnum að taka að sér svona stórt verkefni. Sem dæmi var þetta þing haldið í Kaupmannahöfn í síðasta ári og eftirsótt að fá að sækja þingið.“
Ísak Ernir Kristinsson, formaður Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja, tekur í svipaðan streng: „Það er mikil upplifun fyrir okkur að taka þátt í þessu og það er mikil viðurkenning fyrir Fjölbrautaskóla Suðurnesja að fá að vera gestgjafi. Við erum fyrst og fremst að þjálfa okkur í lýðræðislegum vinnubrögðum. Við höfum verið í formlegri nefndarvinnu og erum að ræða um loftslagsmál, málefni Evrópusambandsins, verndun lífríkis og margt fleira. Það hefur verið gríðarlega fróðlegt fyrir okkur að taka þátt í þessu og ekki spurning að við höfum lært mikið,“ segir Ísak.
Ljósmyndari Víkurfrétta leit við í Víkingaheimum í Reykjanesbæ á þriðjudag þar sem erlendu framhaldsskólanemarnir fengu að kynnast íslenskum fornsiðum og menningu. Þinginu lýkur í dag.
Það er stór hópur nemenda sem er staddur í Reykjanesbæ þessa vikuna.
Boðið var upp á áhugaverða kynningu í Víkingaheimum sem erlendu nemunum fannst áhugaverð.