FS fær 20% minna frá ríkinu en aðrir skólar
-Framlög til þekkingarsetra og símenntunar eru lang lægst á Suðurnesjum
Framlög til margra ríkisstofnana á Suðurnesjum eru mun lægri en margra sambærilegra annars staðar. Þetta birtist ekki síst í framlögum til menntastofnana á svæðinu sem mega sætta sig við mun lægri framlög en sambærilegar stofnanir. Þannig eru framlög til Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1.436 þúsund krónur á hvern nemanda í fjárlagafrumvarpi ársins 2018 á meðan sambærilegir framhaldsskólar annars staðar á landsbyggðinni fá að jafnaði um 1.761 þúsund á hvern nemanda. Þetta er óásættanleg mismunun sem er erfitt að skilja, segir í ályktun aðalfundar SSS sem haldinn var 29.-30. sept. sl.
„Þá er áhyggjuefni að framlög til þekkingarsetra og símenntunar eru lang lægst á Suðurnesjum auk þess sem áætluð fjárframlög til Keilis setja rekstur skólans enn einu sinni í uppnám þrátt fyrir fyrirheit af hálfu ríkisins um annað.
Fjölgun íbúa á Suðurnesjum er meiri heldur en á öðrum landsvæðum og honum fylgja mörg krefjandi verkefni sem kalla á að menntastofnanir geti sinnt hlutverki sínu. Því skorar aðalfundurinn á ríkisvaldið og þingmenn Suðurkjördæmis að tryggja að menntastofnanir á Suðurnesjum sitji við sama borð og stofnanir á öðrum landsvæðum þegar kemur að framlögum úr ríkissjóði.“