Frumskógarlögmál ríkir í strætó
„Það er okkur ljóst að frumskógarlögmál virðist ríkja um borð í strætó,“ segir Sævar Baldursson, framkvæmdastjóri Bus4u Iceland, á Facebook-síðunni „Reykjanesbær- Gerum góðan bæ betri“ en uppákomur í strætó hafa vakið gríðarlega athygli bæjarbúa síðustu mánuði.
„Það eru nokkur grundvallaratriði sem notendur strætókerfisins þurfa að kunna skil á og fara eftir og það væri gott ef foreldrar geta farið yfir þessi mál með sínum börnum. Kynningarefni verður gefið út fljótlega og dreift í skólana,“ segir Sævar.
Sem dæmi um grundvallaratriði nefnir Sævar að farþegar skuli fara inn í vaginn að framan og út að aftan, þeir hafi greiðslu eða kort tilbúin áður en gengið sé inn, þeir hraði sér í sæti eða tryggi öryggi sitt með því að halda í þar til gerð handrið og noti stopphnatta til að láta vita að þeir ætli út úr vagninum. Þá bendir hann einnig á að neysla matar og drykkja sé stranglega bönnuð í vögnunum og að bannað sé að tala við vagnstjórann í akstri.
„Það er alveg á hreinu að okkar markmið er að strætókerfið okkar verði eins og hjá siðmenntuðu fólki. Fólk á bara að geta tekið strætó frá A-B án þess að verða fyrir einhverri sérstakri upplifun eða skrifa um það sögu til næsta bæjar. Strætó á bara að vera þarna og virka og til þess þurfa notendur að kunna að nota kerfið og þekkja reglur þess og fara eftir þeim.“