Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Frummatsskýrsla lögð fram vegna álvers í Helguvík:  Heildaráhrif jákvæð
Miðvikudagur 16. maí 2007 kl. 12:53

Frummatsskýrsla lögð fram vegna álvers í Helguvík: Heildaráhrif jákvæð

Skipulagsstofnun hefur auglýst frummatsskýrslu um áhrif fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Í skýrslunni, sem birt er á heimasíðu ráðgjafafyrirtækisins HRV, www.hrv.is, segir að bygging og rekstur álvers við Helguvík muni hafa talsverð jákvæð áhrif á samfélag á Suðurnesjum. Álverið verði á vindasömu svæði og loftdreifing því mikil. Tillaga, sem lögð er fram um þynningarsvæði, er ekki talin hafa áhrif á landnotkun né framtíðarstefnu sveitarfélaganna Garðs og Reykjanesbæjar. Áhrif á aðra umhverfisþætti eru í flestum tilvikum talin óveruleg nema á afmörkuðum svæðum sem fara undir mannvirki. Það er niðurstaða mats á umhverfisáhrifum að heildaráhrif byggingar og reksturs álvers í Helguvík með allt að 250 þúsund tonna ársframleiðslu muni verða jákvæð og því er mælt með að fallist verði á framkvæmdina.

Frummatsskýrslan var unnin hjá ráðgjafarfyrirtækinu HRV í samræmi við matsáætlun sem samþykkt var af Skipulagsstofnun 8. júni 2006. Samhliða hefur verið unnið að nauðsynlegum breytingum á gildandi aðalskipulagsáætlunum Reykjanesbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Keflavíkurflugvallar, og vann HRV einnig umhverfismat þessara áætlana. Fyrirhuguð áform Norðuráls Helguvíkur sf. hafa verið kynnt á opnum fundum, bæði í Reykjanesbæ og Garði, og verður frummatsskýrslan kynnt á opnum fundum í samráði við Skipulagsstofnun.

Álverið er fyrirhugað á nýrri iðnaðarlóð við Berghóla í Sveitarfélaginu Garði og á iðnaðarsvæðinu við Helguvík, Reykjanesbæ. Staðsetningin býður upp á nálægð við góða höfn og stutt er í öflug þjónustu-, byggingar- og þekkingarfyrirtæki. Um er að ræða stórt vinnumarkaðssvæði og gert er ráð fyrir að flutningur á raforku til svæðisins verði um jarðstrengi síðasta spölinn frá Fitjum að Helguvík.

Öll tækni og tæki álversins verða ný, byggð á nýjustu tækni og af bestu fáanlegu gerð.

Gert er ráð fyrir að draga verulega úr sjónrænum áhrifum fyrirhugaðs álvers með gerð jarðvegsmana og með gróðursetningu. Ennfremur verða byggingarnar og umhverfið útfært þannig að sem mest dragi úr ásýndaráhrifum.

Fyrirhugað álver mun losa 365.000 t/ári af CO2 og um 35.000 t/ári af CO2 ígildum (flúorkolefnum). Álverið fellur undir íslenska ákvæði Kyoto-bókunarinnar og samræmist stefnu íslenskra stjórnvalda um útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Gert er ráð fyrir að farga kerbrotum í flæðigryfju, en góð reynsla er af slíkri förgun hér á landi. Fyrirhuguð staðsetning er í Selvík, sem mun breyta ásýnd strandarinnar. Einnig hefur komið fram hugmynd um staðsetningu gryfju og grjótgarðs vegna förgunar kerbrota við golfvöllinn í Leiru til þess að verja golfbrautir næst sjónum ágangi landbrots. Þennan kost á eftir að skoða nánar í samráði við forsvarsaðila golfklúbbsins.

Mestallir flutningar til og frá álverinu verða um höfnina í Helguvík og mun skipaumferð um hana því aukast verulega. Strangar reglur um umhverfismál og öryggi  verða í gildi við höfnina.

Bestu fáanlegum mengunarvörnum verður beitt í hvívetna og Norðurál mun stuðla að vísindarannsóknum á mögulegum leiðum til kolefnisbindingar og endurvinnslu.  Í skýrslunni er gerð úttekt á vothreinsun til viðbótar þurrhreinsun. Hún leiðir í ljós að þynningarsvæði á landi væri hið sama og ef eingöngu væri beitt þurrhreinsun og þar að auki þyrfti að skilgreina um 10 ferkílómetra þynningarsvæði í sjó. Því er mælt með að eingöngu verði notuð þurrhreinsun.

Áætlað er að um 1800 ársverk þurfi við byggingu fyrirhugaðs álvers á 6-8 ára framkvæmdatíma. Gert er ráð fyrir að byggja álverið upp í áföngum. Undirbúningsframkvæmdir við fyrsta áfanga álversins gætu hafist árið 2007 og stefnt er að því að ná allt að 250.000 tonna framleiðslu árið 2015. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að gangsetja fyrsta áfanga árið 2010 en áfangaskipting og byggingartími mun taka mið af orkuöflun til álversins auk annarra aðstæðna.

Á rekstrartíma er gert ráð fyrir að 300-400 ný störf verði til í álverinu og 600-700 afleidd störf í samfélaginu, samtals um 1000 ný störf.  Álver við Helguvík kæmi til með að skapa starfsfólki sínu starfsöryggi og greiða nokkru hærri laun en sambærilegar atvinnugreinar. Langur framkvæmdatími, sem stafar af áfangaskiptingu fyrirhugaðs álvers, slær á möguleg þensluáhrif á vinnumarkaði. Svæðið er vel undir það búið að taka á móti áfangaskiptri framkvæmd sem þessari þar sem atvinnumhverfi er nokkuð fjölbreytt, margvísleg verslun og þjónusta er í boði og tiltölulega stutt er að sækja þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Margfeldisáhrif verða því töluverð, skattgreiðslur starfsmanna og fyrirtækja aukast og sveitarfélög geta nýtt auknar tekjur sínar af sköttum og þjónustugjöldum til uppbyggingar á þjónustu í þágu íbúa sinna.

Í frummatsskýrslu HRV er sett fram ítarleg áætlun um bakgrunns- og vöktunarmælingar í þeim tilgangi að fylgjast náið með ætluðum áhrifum fyrirhugaðs álvers. Áætlunin verður hluti af starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út en drög að tillögu um það fylgja skýrslunni.

Frummatsskýrsla HRV verður nú til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun og ýmsum umsagnaraðilum auk þess sem almenningi gefst kostur á að senda inn skriflegar athugasemdir til Skipulagsstofnunar eigi síðar en 28. júní næstkomandi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024