Frumkvöðull á Ásbrú vinnur samkeppni
Valorku hverfillinn, uppfinning á sviði sjávarfallaorku, hlaut á dögunum fyrstu verðlaun í hinni alþjóðlegu uppfinningasamkeppni International Inventors Awards (IIA) sem sænska hugvitsmannafélagið gengst fyrir árlega. Valorka er staðsett í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú. Sjóðurinn er stofnaður af sænska hugvitsmanninum Agne Magnusson.
Að sögn Valdimars Össurasonar, framkvæmdastjóra Valorku þá eru þessi verðlaun góð viðurkenning fyrir hverfilinn sjálfan og framgang þróunar hans, auk þess sem þeim fylgir ágætur fjárstyrkur. Hinsvegar er ekki síður þýðingarmikil sú viðurkenning sem hér er veitt íslensku hugviti og framlagi til umhverfisvænna lausna á nýjum sviðum orkumála. Þetta er tækifæri sem Íslendingar ættu að geta nýtt sér til að stíga einu skrefi nær því að taka forystu í tækniþróun nýrra orkusviða; hvatning til að nýta íslenskt hugvit til framleiðsluaukningar og atvinnusköpunar. Óhætt er að fullyrða að á því sviði umhverfisvænnar orku sem snýr að virkjun sjávarfallastrauma utan fjarða sé ekkert fyrirtæki komið lengra í þróunarvinnu en Valorka ehf.
Verðlaunasamkeppnin er hluti af 125 ára afmælisdagskrá sænska hugvitsmannafélagsins, SUF. Í tilefni afmælisins stendur yfir stórsýning hugvitsmanna frá öllum heimshornum í Stokkhólmi. Ísland er með tvo bása á sýningunni þar sem sex frumkvöðlar kynna sín verkefni og má þess geta að Íslensku básarnir fengu bronsverðlaun fyrir góða kynningu.
Nánar um sýninguna: www.suf125.se
Nánar um valorku: www.valorka.is
Myndin: Agne Johansson afhendir Valdimari verðlaun fyrir fyrsta sætið
Mynd: Júlíus Valsson