Frumherji opnar skoðunarstöð í Grindavík
Ný skoðunarstöð Frumherja var í morgun opnuð hjá Vélsmiðju Grindavíkur að Seljabót 3 í Grindavík. Skoðunarstöðin er sú þrítugasta og fyrsta sem Frumherji opnar á landinu en Frumherji rekur einnig skoðunarstöð við Njarðarbraut í Reykjanesbæ.
Það var Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, sem fékk það hlutverk að opna stöðina formlega og naut aðstoðar Orra Vignis Hlöðverssonar, framkvæmdastjóra Fumherja. Áður hafði Orri tekið formlega við lykli af stöðinn frá Ómari Davíð Ólafssyni, verkstjóra hjá Vélsmiðju Grindavíkur.
Nýja skoðunarstöðin er í viðbyggingu við vélsmiðjuna og hefur bygging hússins tekið fimm mánuði. Aðstandendur stöðvarinnar vænta mikils af stöðinni og að hún komi til með að veita Grindvíkingum góða þjónustu en nú þurfa Grindvíkingar ekki að leita út fyrir bæjarmörkin með bíla sína í skoðun.
Mynd: Róbert Ragnarsson bæjarstjóri og Orri Vignir Hlöðversson framkvæmdastjóri Frumherja við opnun stöðvarinnar í morgun. VF-mynd: Hilmar Bragi