Fróðlegir fyrirlestrar í Víkinni
Í vetur starfrækir Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis þjóðmálaskóla í samvinnu við Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum. Skóli þessi er í formi fyrirlestra en gestafyrirlesrar verða með framsögu og það því loknu eru umræður um fyrirlestrarefnið.
Séra Björn Sveinn Björnsson er einn aðstandenda þessa verkefnis sem hann segir hugsað til að almenningur geti glöggvað sig á þjóðlífsumræðum sem oft er erfitt að fylgjast með í erli hversdagsins. „Við fáum þarna til okkar fólk úr ýmsum áttum se, skýra hlutina á mannamáli. Einstaklinga úr viðskiptalífinu, þjóðlífi og atvinnulífi, sem lifir og hrærist í hringiðu málanna og getur skýrt málin hvort frá sinni hlið."
Nú þegar hefur ein fyrirlestur verið haldinn, en það var Jón Magnússon, lögfræðingur og þingmaður sem hélt tölu um neytendamál. Séra Björn sagði í samtali við Víkurfréttir að fundurinn hafi verið afar athylgisverður þó fleiri hefðu mátt mæta. „Það spruttu upp skemmtilegar umræður um málið og það var í raun leiðinlegt að þurfa loks að slíta fundinum. Næsti fyrirlestur hjá okkur verður fimmtudaginn 25. október. Þar mun Gylfi Dalmann, lektor í mannauðsstjórnun við HÍ, halda tölu, en hann þykir afar skemmtilegur fyrirlesari."
Fundurinn verður í Víkinni, Hafnargötu 80, og hefst hann kl. 20. Óhætt er að lofa skemmtilegum umræðum sem enginn ætti að missa af og auðvitað verður kaffi og meðlæti í boði. Þess má svo að lokum geta að næsti fyrirlesari verður Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, sem verður í lok nóvember.
Loftmynd/Oddgeir Karlsson: Víkin, þar sem fundirnir fara fram.