Frímúrarar fá hektara í Njarðvíkurskógum
St. Jóhannesarstúkan Sindri, sem starfar innan Frímúrarareglunnar á Íslandi, lagði nýverið fram beiðni um að fá einum hektara lands úthlutað í Njarðvíkurskógum fyrir uppbyggingu skóglendis og græns svæðis.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar tók vel í erindið og samþykkti að stúkan fengi svæði til umráða. Síðan þá hafa farið fram fundir með embættismönnum bæjarins og svæðið skoðað til að finna hentuga staðsetningu, segir í bréfi sem Þorvarður Guðmundsson, stórmeistari Sindra, ritaði til ráðsins. Hefur Þorvarður því fyrir hönd stúkunnar sótt um skilgreint svæði með formlegu erindi dagsettu þann 1. september síðastliðinn.
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að St. Jóhannesarstúkan Sindri fái einn afmarkaðan hektara úthlutað í Njarðvíkur-skógum til umráða með fyrirvara um samþykki landeiganda.