Fríhöfnin sankar að sér verðlaunum
Viljum að okkar fólki líði vel í vinnunni, segir Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdstjóri
„Það er mikill heiður að hljóta viðurkenningu sem þessa,“ segir Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar en þetta er önnur nafnbótin sem Fríhöfnin fær nú í febrúarmánuði. Starfsmenntaverðlaun SAF voru veitt 1. febrúar sl. fyrir öflugt menntastarf fyrirtækisins.
Ásta segir að það sé ekki auðvelt að samræma svo vel sé svo stóran vinnustað sem hefur opið 364 daga ársins, nánast allan sólarhringinn við öfluga fjölskyldustefnu. „Meirihluti starfsmanna okkar er í vaktavinnu og því erum við afar stolt af þessari tilnefningu, en hún kemur frá starfsmönnunum sjálfum og þarf meirihluti starfsmanna að skrifa undir hana. Því sýnist mér á öllu að það sé að takast.
Hjá félaginu er í gildi jafnréttisáætlun. Í henni er sérstaklega fjallað um samræmingu fjölskyldu- og vinnu og hvernig skuli tryggja forsendur fyrir slíku jafnvægi, sérstaklega þar sem hátt hlutfall starfsmanna er í vaktavinnu. Því getur oft reynst erfitt að bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma en í boði eru eru hlutastörf þar sem starfsmenn geta unnið fyrir hádegi og eftir hádegi.
Við viljum að okkar fólki líði vel í vinnunni og að það hlakki til að mæta til hennar. Hver vill vakna á milli fjögur og fimm á næturnar til mæta til vinnu? Þetta er erfiður tími en það er gaman að heyra frá viðskiptavinum sem eru að koma til okkar kannski upp úr kl 5.30 á morgnana að þeirra bíði brosandi starfsfólk í Fríhöfninni sem tekur vel á móti þeim. Starfsfólkið kann vel að meta sveigjanleikann sem fylgir slíkri vaktavinnu, annars væri starfsaldurinn ekki svona hár hjá fyrirtækinu en þeir sem hafa unnið lengst eru komnir yfir 40 árin og eiga nóg eftir,“ segir Ásta.
Að sögn Ástu er margt sem hægt er að telja upp sem einkennir frábæran vinnustað. „Hvatning til að stunda heilsurækt og styrkur til þess, aðgangur að heilbrigðisstarfsfólki fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra, markviss fræðsla og þjálfun, Fríhafnarskólinn, niðurgreiddar máltíðir, skóstyrkur, bónuskerfi, akstur til og frá vinnu og svo mætti lengi telja. Vinnustaðagreiningar sýna að ánægja starfsmanna er mikil. Eins og starfsmenn sögðu sjálfir: ,,Fríhöfnin er bara mjög skemmtilegur vinnustaður sem gaman er að vinna á, með hressu og skemmtilegu samstarfsfólki“.
Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar.