Fríhöfnin fær ekki að reka verslun í FLE
Umsókn um verslunarrými var hafnað af móðurfélaginu Isavia.
Versluninni DutyFree Fashion í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður lokað. Umsókn Fríhafnarinnar um verslunarrými var hafnað af móðurfélaginu Isavia. Fyrrum framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, Ásta Dís Óladóttir, hætti nokkrum dögum síðar. Markaðurinn greinir frá.
Fríhöfnin var á meðal umsækjenda í forvali ríkisfyrirtækisins um aðstöðu til veitinga- og verslunarreksturs í flugstöðinni. Stjórnendum félagsins var tilkynnt í ágúst að Isavia ætlaði ekki í samningaviðræður við þá vegna reksturs DutyFree Fashion.
Samkvæmt heimildum Markaðarins kom ákvörðunin stjórnendum Fríhafnarinnar mjög á óvart en félagið hefur rekið DutyFree Fashion, áður Saga Shop, í brottfararsal flugstöðvarinnar frá júlí 2010. Félagið tók við rekstrinum af Icelandair, vöruúrval var aukið og verslunin stækkuð. Til sölu voru m.a. föt frá vörumerkjum Boss og Burberry auk íslenskra hönnunarvara frá Farmers Market og KronKron.
Í samtali við Markaðinn vill Friðþór Eydal, talsamaður Isavia, ekki staðfesta að fyrirtækið hafi hafnað umsókn Fríhafnarinnar og segir fyrirtækið ekki veita upplýsingar um hvaða fyrirtæki sóttu um aðstöðu í FLE og ekki hvort ákveðin fyrirtæki hafi komist áfram í samningaviðræðurnar. „Forvalið er samkvæmt ítarlegu og fastmótuðu ferli sem var kynnt í upphafi og allir þátttakendur samþykktu það með undirskrift sinni,“ segir Friðþór.