Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Friðjón greiddi einn atkvæði gegn ályktun bæjarráðs Reykjanesbæjar
Laugardagur 18. ágúst 2012 kl. 09:38

Friðjón greiddi einn atkvæði gegn ályktun bæjarráðs Reykjanesbæjar

Þar sem varað er við afleiðingum hækkunar virðisaukaskatts á gistingu

Samþykkt var ályktun á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar á fimmtudag þar sem varað er við afleiðingum hækkunar virðisaukaskatts á gistingu sem áformuð er í drögum að fjárlögum ríkisstjórnar fyrir árið 2013. Bæjarráð telur að hækkunin muni koma niður á allri ferðaþjónustu á Suðurnesjum sem veitir á annað þúsund íbúum Suðurnesja atvinnu. Bæjarráð skoraði á fjármálaráðherra að endurskoða áform sín um aukna skattheimtu á gistingu.

Ályktunin var samþykkt með meirihlutaatkvæða fulltrúa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks eða 4-1. Friðjón Einarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði Reykjanesbæjar greiddi einn atkvæði gegn ályktuninni.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Friðjón, lagði fram eftirfarandi bókun á fundi ráðsins á fimmtudag.

„Með samstilltu átaki ríkisins og aðila í ferðaþjónustu hefur tekist að snúa varnabaráttu þeirri sem greinin rataði í við upphaf kreppunnar og var framlengd með tveimur eldgosum í öflugan sóknarleik,“ segir Friðjón í bókun sinni.

„Árangurs þess starfs sést nú stað í tölum um fjölda ferðamanna og grósku í greininni sem hefur stundum verið lýst með sprengingu. Hlutfall ferðaþjónustu í landsframleiðslu hefur stöðugt vaxið og er hún orðin mun umfangsmeiri en í helstu samanburðarlöndum okkar.“

Friðjón segir að skort hafi fé til nauðsynlegra framkvæmda á innviðum samfélagsins og aðstöðu á helstu ferðamannastöðum svo sómi verði af.

„Mikil umræða hefur verið um það hvernig samfélagið gæti haft meiri tekjur af greininni og hugmyndir um allskyns tollhlið og leyfisgjöld komið fram. Áður en slíkri afdrifaríkri þróun er hleypt af stað er sjálfsagt að við spyrjum okkur hvort greinin sem notið hefur stuðnings ríkisins umfram aðrar greinar m.a. í formi lægri virðisaukaskatts, geti lagt meira af mörkum á þann hátt.“

Friðjón segir ennfremur að samræmi í skattlagningu atvinnugreina og einfaldleiki sé mikilvæg og undanþágur komi þá og því aðeins til greina að fyrir þeim séu færð sterk rök.

Hann sagði einnig að þrátt fyrir mikla hækkun á verði hótelherbergja á undanförnum árum hefur fjöldi gistinátta aukist stórum. „Engin ástæða er til að ætla annað en að sambærileg þróun verði áfram,“ sagði Friðjón að lokum.