Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Friðjón Einarsson hættir hjá Lífeyrissjóði Suðurlands
Miðvikudagur 4. janúar 2006 kl. 12:17

Friðjón Einarsson hættir hjá Lífeyrissjóði Suðurlands

„Góður tími til að skipta um vettvang"

Friðjón Einarsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Suðurlands, hefur sagt starfi sínu lausu og mun hverfa til annarra starfa með vorinu. Friðjón segir í samtali við Víkurfréttir að ákvörðunin hafi verið í fullu samkomulagi við stjórn lífeyrissjóðsins.

„Það var nokkuð langur aðdragandi að þessari ákvörðun," segir Friðjón. „Ég var farinn að velta því fyrir mér að skipta um vettvang og mér finnst að nú sé tíminn. Ég er búinn að vera hjá LS í rúmlega sex ár og á þeim tíma hefur hann vaxið og breyst gífurlega. Við höfum sameinast tveimur sjóðum og erum langt komin með undirbúning að enn frekari sameiningu þannig að mér fannst tímasetningin henta nú."
Ekki er laust við að mikið hafi mætt á Friðjóni á haustmánuðum þegar lífeyrissjóðurinn lækkaði réttindi félaga sinna um 12-16%. Hann segir þó að sú gagnrýni sem hann og stjórn sjóðsins hafi fengið á sig hafi ekkert haft að gera með ákvörðunina um að hætta. „Það er alltaf erfitt að fylgja eftir erfiðum ákvörðunum en þvert á móti var það einmitt samskiptin við lífeyrisþega og félagsmenn sem mér fannst skemmtilegast við starfið. Það er skiljanlegt að lækkunin hafi vakið viðbrögð og í raun er öll umræða um þessi mál af hinu góða og á fullan rétt á sér. Það eru alls engin sárindi af minni hálfu sem leiddu til ákvörðunarinnar um að hætta."

Kristján Gunnarsson, varaformaður stjórnar LS, tekur undir það og segir starfslokin vera í fullri vinsemd. „Það kom okkur á óvart þegar Friðjón tilkynnti okkur um ákvörðunina og við hefðum viljað hafa hann áfram. Hann hafði hins vegar gert upp hug sinn og við verðum að virða hans ákvörðun þó það sé sárt að missa góðan mann."
Kristján segir að leitin að eftirmanni Friðjóns sé þegar hafin og stjórnin sé viss um að finna góðan einstakling í starfið. „Þó Friðjón hafi staðið sig vel og eigi allt gott skilið frá okkur er enginn ómissandi og það er mikið til af úrvalsfólki í starfið."
Ekki verður um neina starfslokagreiðslu að ræða, að sögn Kristjáns, en Friðjón hafi sinn uppsagnarfrest sem er sex mánuðir.

Framhaldið er óráðið hjá Friðjóni sem hefur komið víða við á starfsferlinum. Meðal annars var hann framkvæmdastjóri Grænlandsflugs um skeið áður en hann tók við Markaðs- og atvinnumálanefnd Reykjanesbæjar þar sem hann var í fimm ár áður en hann hóf störf hjá Lífeyrissjóðnum. „Maður hefur reynt ýmislegt, en ég hef mikinn metnað til að hafa gaman af starfi mínu og prófa eitthvað nýtt. Ég er líka stoltur af því að hafa kjark til þess að breyta og rífa mig upp því það er ekki sjálfgefið að hætta í góðu og öruggu starfi eins og það er hjá lífeyrissjóðnum."

Friðjón, sem er með meistaragráðu í viðskiptafræði og stjórnun, segist ekki vera með neinn sérstakan starfsvettvang í huga eftir að hann gengur út úr LS og segist fara opinn út á markaðinn.

Aðspurður hvort hann hyggi á feril í bæjarstjórnmálum segir hann ekkert ákveðið. „Ég hef alloft verið orðaður við pólitík og er hreykinn af því að vera nefndur í þeim efnum," segir Friðjón og lætur ekki meira í ljósi vaka.

Hann segist að lokum munu sakna samstafsfólks síns í LS sem og stjórnarfólki og kann hann þeim bestu þakkir fyrir tímann sem var skemmtilegur og góður þrátt fyrir að hann hafi líka oft verið erfiður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024