Fríðindi starfsmanna Sparisjóðsins í Keflavík ekki gefin upp til skatts
Fríðindi sem starfsmenn Sparisjóðsins í Keflavík nutu voru ekki gefin upp til skatts. Meðal annars er þar um að ræða greiðslu sjóðsins fyrir tryggingar handa starfsmönnum og afnot sparisjóðsstjórans af fasteign sjóðsins á Akureyri. RÚV greinir frá þessu í kvöld.
Í skýrslu Price Waterhouse Coopers um sparisjóðinn, sem var gerð fyrir Fjármálaeftirlitið og RÚV hefur undir höndum, kemur fram að Sparisjóðurinn í Keflavík afskrifaði ríflega sjö milljarða króna síðustu tvö árin fyrir fall hans og færði niður útlán fyrir ríflega 18 milljarða. Eigið fé sjóðsins minnkaði á þessum tíma um 50 milljarða króna.
Á sama tíma nutu valdir starfsmenn fríðinda umfram hefðbundin starfsmannakjör sem þá tíðkuðust. Sjö starfsmenn voru með bíl til umráða og nokkrir til viðbótar voru með ökutækjastyrk. Þá fengu sumir farsíma og ADSL-tengingar en engar reglur giltu um hvernig þeim fríðindum var úthlutað. Níu háttsettir starfsmenn fengu líf- og sjúkdómatryggingar greiddar og fjórir til viðbótar slysatryggingu.
Þá átti sparisjóðurinn fasteign á Akureyri, sem Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri, réð einn yfir og lágu engin gögn fyrir um hvernig hún var notuð. Þá er einnig tekið fram að sparisjóðurinn hafi í árslok 2009 yfirtekið íbúð í Kópavogi og leigt hana síðan syni eins starfsmanns sjóðsins á verði sem virtist vel undir markaðsvirði.
Í skýrslunni er gerð athugasemd við að einu hlunnindin sem gefin voru upp til skatts voru bílahlunnindi. Tryggingarnar og afnotin af húsinu á Akureyri hefði átt að gefa upp til skatts, en það var ekki gert, segir í RÚV.