Freyjur flauta til málverkasýningar
Elinrós gefur 50 málverk. Lionessuklúbbur Keflavíkur var síðasti Lionessuklúbbur Íslands.
Lionsklúbburinn Freyja samanstendur af 38 konum úr Reykjanesbæ. Klúbburinn var stofnaður sem Lionessuklúbbur árið 1982 en breyttist í Lionsklúbb árið 2020. Myndlistarkonan Elinrós Eyjólfsdóttir bættist í hópinn fyrir nokkrum árum og hún ætlar að gefa 50 málverk, sem verða til sýnis á málverkasýningunni Freyju - flautur í Fisherhúsinu á Ljósanótt, frá 31. ágúst til 3. september. Söluandvirðið mun allt renna í Líknarsjóð Freyju en þetta er í annað sinn sem Elinrós gefur málverk til Lions, hún gerði það líka árið 2012 og eftir það gekk hún í félagið.
Lionshreyfingin varð til árið 1917 í Bandaríkjunum og ruddi sér til rúms hér á Íslandi árið 1951. Í dag starfa yfir 1,4 milljónir fólks í um 46 þúsund Lionsklúbbum í 206 löndum. Lions er óháð stjórnmálaflokkum og trúfélögum, tilgangur félagsins er líknarstarf, að leggja þeim lið sem minna mega sín og þá kannski helst að hjálpa í sínu nærumhverfi. Þegar hamfarir eiga sér stað úti í heimi, er Lions alltaf með þeim fyrstu til að rétta fram hjálparhönd.
Í dag eru fjórir Lionsklúbbar í Reykjanesbæ, Lionsklúbbar Keflavíkur og Njarðvíkur eru skipaðir karlmönnum og svo Lionsklúbbarnir Æsa og Freyja sem eru báðir skipaðir konum.
Hildur Ellertsdóttir er núverandi formaður Freyju, hún fór yfir sögu klúbbsins og hvernig starfseminni er háttað. „Lionessuklúbbur Keflavíkur var stofnaður 26. maí árið 1982, þetta voru eiginkonur félaga í Lionsklúbbi Keflavíkur. Svo fóru aðrar konur að ganga í klúbbinn sem óx fiskur um hrygg því konurnar sáu að þær gátu alveg gert sömu hluti og karlarnir. Lög Lions á heimsvísu voru samt þannig að Lionessuklúbbar höfðu hvorki tillögu- né atkvæðisrétt á þingum og þegar reglur breyttust innan Lionshreyfingarinnar, fóru Lionessuklúbbar á Íslandi að breyta sínum klúbbum í Lionsklúbba. Félagskonur í Freyju voru samt lengi vel andvígar því, þar sem almenn ánægja var innan klúbbsins með starfið en svo kom að því árið 2020 að við létum til leiðast, lögðum Lionessuklúbbinn niður og stofnuðum Lionsklúbbinn Freyju. Við viljum gjarnan fá fleiri konur í Freyju og ef karlmaður myndi sækja um að ganga í klúbbinn yrði það skoðað.
Okkar helsta fjáröflun á hverju ári er sala á sælgætishringjum fyrir jólin, þá hittast félagskonur í október og nóvember og hnýta sælgætishringi og selja til fyrirtækja og einstaklinga. Svo koma alltaf upp hinar og þessar fjáraflanir, t.d. þessi frábæra fjáröflun sem Elinrós á frumkvæði að núna fyrir Ljósanótt.
Við styrkjum ýmis samtök og einstaklinga, t.d. Sjúkrahúsið, Nesvelli, Þroskahjálp, Björgunarsveit Suðurnesja, Skátana, Rauða krossinn, Velferðarsjóð og Hjálparsjóð kirkjunnar.
Lionsstarfið byggist á vináttu og við Freyjur leggjum mikið upp úr skemmtilegri samveru. Yfir vetrarmánuðina fundum við alltaf annan þriðjudag í mánuði. Hittumst, borðum saman og eigum ánægjustund. Í vetur ætlum við reyndar að hafa aukahitting í hverjum mánuði þar sem við gerum eitthvað skemmtilegt saman. Heyrst hefur að skemmtinefndin ætli að standa fyrir utanlandsferð næsta vor.“
Elinrós Eyjólfsdóttir er rúmlega áttræð, málar heima hjá sér og finnst gaman að geta látið gott af sér leiða. „Þegar ég var fertug og var búin að eignast börnin mín, ákvað ég að læra að mála en ég hafði alltaf haft áhuga á því. Ég fór í Lista- og handíðaskóla Íslands í fjögur ár en þar áður hafði ég verið að kenna að mála á postulín. Eftir námið fór ég svo í mastersnám til Bandaríkjanna og var í sex sumur. Ég hef síðan farið út um allan heima og heimsótt listamenn sem ég hef dálæti á og hef lært af, var einmitt í Englandi í sumar að læra að mála rósir. Ég byrjaði á námskeiði fyrir þremur árum hjá bandarískri konu en þar sem COVID var í gangi var bara kennt á ZOOM, því var gaman að geta farið til Englands í sumar og hitta þessa listakonu. Ég lærði nýja litafræði og hef getað nýtt mér hana við að mála rósir, sem ég rækta líka sjálf.
Ég man það eins og hafi gerst í gær, þegar Eydís systir mín og Drífa vinkona komu til mín í heimsókn á sínum tíma, þær voru að fara afhenda sjónvarp til fjölskyldu fyrir Líknarsjóð Lions. Ég heillaðist af þessu og vildi líka láta gott af mér leiða og ákvað því að gefa fjölda málverka sem voru svo seld á sýningu árið 2012. Eftir þetta gekk ég sjálf í félagið og hef verið virk í starfinu síðan. Svo fæddist hugmynd af því að halda aðra sýningu og ég ákvað að gefa 50 málverk núna. Þetta eru allt frá litlum myndum til stórra málverka og þau hafa orðið til allt frá síðustu sýningu til dagsins í dag. Ég hef verið mjög dugleg að undanförnu og er að vinna í nokkrum myndum en allt verður tilbúið áður en sýningin hefst fimmtudaginn 31. ágúst. Ég hlakka mikið til og vona að sem flestir kíki við og vonandi seljast öll málverkin, söluandvirðið verður í góðum höndum Líknarsjóðs Lionsklúbbsins Freyju,“ sagði Elinrós að lokum.
