Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 3. nóvember 2000 kl. 11:33

Freyja sigraði örugglega

Freyja Sigurðardóttir úr Sandgerði sigraði í kvennaflokki í keppninni Galaxy Fitness Íslandsmeistaramót 2000 sem fram fór um síðustu helgi í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík. Kristján Ársælsson sigraði í karlaflokki en bæði hann og Freyja urðu einnig Íslandsmeistarar í fyrra. Keppt var í hraðaþraut og samanburði í kvennaflokki. Freyja var í þriðja sæti í samanburðinum en hún stakk hina keppendurnar gersamlega af í hraðaþrautinni og hreppti þar með fyrsta sætið. Ellen Elsa Sigurðardóttir varð í öðru sæti, Sigurlína Guðjónsdóttir í því þriðja og Sunneva Sigurðardóttir úr Keflavík í fjórða sæti. Keppnin í karlaflokki var hörð og geysilega spennandi en karlarnir kepptu í upphýfingum og dýfum, hraðaþraut og samanburði. Kristján Ársælsson var vel að sigrinum kominn því hann sigraði alla þætti keppninnar með glæsibrag. Að hraðaþraut lokinni, þegar flestir voru alveg uppgefnir, tók Kristján sig til og tók eitt nett heljarstökk. Kappinn átti greinilega nóg eftir. Í öðru sæti var Kjartan Guðbrandsson, Jósep Valur Guðlaugsson í þriðja, Garðar Sigvaldason í fjórða og Arnar Hafsteinsson í fimmta sæti, en fimm efstu keppendurnir í karlaflokki og fjórir efstu í kvennaflokki, taka þátt í alþjóðlegu fitness móti sem haldið verður í Laugardagshöll næstu helgi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024