Fréttavikan: Óveður, sportið og fjárhagsáætlun
Margt bar á góma í fréttum vikunnar á vf.is þar sem þetta var helst:
Óveður yfir landinu
Liðsmenn Björgunarsveitarinnar Suðurnes hafa farið í á annan tug útkalla í morgun vegna óveðursins. Víða hafa losnað þakplötur og fleira.
Þakskyggni í Innri Njarðvík, gert úr þykkri járnplötu var við það að losna þegar Björgvunarsveit Suðurnesja kom á svæðið og náði að losa það af húsinu áður en það olli skemmdum.
Mikið brim skellur á varnargörðum við Ægisgötu í Keflavík og hefur lögreglan lokað part af þeim vegi vegna sjógangs.
Þessar myndir voru teknar af björgunarsveitarmönnum við Austurgötu í Keflavík í morgun. Björgunarsveitin Ægir í Garði er í viðbragsstöðu og mun koma Suðurnesi til aðstoðar ef þarf.
Ásta Birna Grindvíkingur ársins 2010
Ásta Birna Ólafsdóttir þroskaþjálfi og sérkennari hefur verið valinn Grindvíkingur ársins 2010 fyrir ótrúlega eljusemi og dugnað við að búa syni sínum Arnóri Frey Arnarsyni betra líf en hann er einhverfur.
Ásta Birna fór ásamt syni sínum Arnóri Frey Arnarsyni til Texas í upphafi síðasta árs við nám í skóla hinnar indversku Somu Mukhopadhyay. Hún hefur þróað svokallaða RPM aðferð við meðferð á einhverfu sem örvar einhverf börn þannig að þau fara að svara áreiti og læra að tjá sig smám saman sem hefur skilað góðum árangri hjá Arnóri Frey. Ásta Birna var lærlingur hjá Somu á meðan Arnór Freyr var nemandi við skólann.
Víðsvegar í Bandaríkjunum og víðar í heiminum hefur fólk farið þess á leit við að fá að læra hjá Somu sem er einstök kona sem náð hefur ótrúlegum framförum með nemendur sem eru með einhverfu og skyldar þroskaraskanir. En hún hefur aðeins einu sinni samþykkt að hafa hjá sér lærling. Það var því einstakt tækifæri og mikill heiður Ástu Birnu að Soma skyldi samþykkja að hún yrði lærlingur hennar í 6 mánuði og öðlast þannig rétt til þess að kenna öðrum aðferðina og miðla af þekkingunni á Íslandi fyrir son sinn og fólk með einhverfu og skyldar raskanir á öllum aldri. Ásta Birna er sérkenni við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og miðlar þar af þekkingu sinni.
Ásta Birna og Arnór Freyr voru í hálft ár í Bandaríkjunum ásamt systur Ástu Birnu sem var þeim til aðstoðar en eiginmaður Ástur Birnu, Örn Eyjólfsson og dóttir þeirra, urðu eftir á Íslandi á meðan. Eins og nærri má geta reyndist þetta einnig mjög kostnaðarsamt fyrir fjölskylduna.
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar samþykkt
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2011 var samþykkt í bæjarstjórn með 7 atkvæðum meirihlutans en 4 fulltrúar minnihlutans sátu hjá. Miklar umræður urðu á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi. Minnihlutinn sakaði sjálfstæðismenn um óráðsíu og yfirkeyrslu í rekstri undanfarin tvö kjörtímabil. Meirihlutinn var ósammála og sagði mikið og nauðsynlegt uppbyggingarstarf hafa átt sér stað og væri undirbúningur fyrir framtíðar atvinnutækifæri í Reykjanesbæ sem mörg bíða þess að komast í gang.
Í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ kemur fram að Fjárhagsáætlun 2011 hafi verið unnin af öllum ráðum og nefndum bæjarins, með tillögum frá starfsmönnum og íbúum. Lagt hefur verið kapp á að fulltrúar allra stjórnmálaafla í bæjarstjórn hafi haft aðkomu að áætlunarvinnunni.
Reynt er að skerða ekki grunnþjónustu við bæjarbúa árið 2011, og er haft að leiðarljósi að hlúa að börnum og unglingum. Gjaldskráhækkunum er stillt í hóf og er enn frítt í sund fyrir börn og eldri borgara sem og frítt í strætó. Leikskólagjöld er með þeim lægstu í samanburði við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan Reykjavík. Einnig er máltíð fyrir börn í grunnskólum lægst hjá Reykjanesbæ ef miðað er við höfuðborgarsvæðið. Talsverð hagræðing hefur náðst í stjórnsýslu bæjarins. Kostnaður vegna nefnda hefur lækkað vegna launalækkunar og fækkun funda. Talsverðar starfshlutfallsskerðingar hafa verið í stjórnsýslunni. Reynt er að ráða ekki í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til. Hagrætt er í leiðarkerfi strætó.
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur bæjarsjóðs nemi um 121,4 m.kr. og afgangur samstæðu verði um 396,4 m.kr. Rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði, að teknu tilliti til reiknaðra liða nemur um 201,4 m.kr. Eignir pr. íbúa eru áætlaðar 2.494 þús.kr. og skuldir pr. íbúa 2.034 þús.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað um 881,3 m.kr. fyrir bæjarsjóð og um 2.401,2 m.kr. fyrir samstæðu.
Met ár hjá Þorbirni hf.
Á árinu 2010 lönduðu skip Þorbjarnar hf. 27.434 tonnum. Aflaverðmætið var rétt um sex og hálfur milljarður. Til samanburðar komu tæp 23 þúsund tonn á land 2009 og aflaverðmætið var 5,2 milljarðar. Afli frystitogara á síðasta ári var 17.325 tonn og afli línubáta var 10.109 tonn.
Í töflu hér að neðan má sjá afla og verðmæti hvers skips síðustu 2 árin:
Kristján Pétursson látinn
Kristján Pétursson fv. deildarstjóri Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli andaðist á Landspítalanum 4. janúar sl. 80 ára að aldri.
Kristján fæddist l7. maí l930 að Steini á Reykjaströnd í Skagafjarðarsýslu. Hann var sonur hjónanna Péturs Lárussonar, bónda, d. 1986 og Kristínar Danivalsdóttur, húsmóður, d.1997. Kristján fluttist 16 ára gamall til Keflavíkur með foreldrum sínum og bjó þar um árabil, hin seinni ár bjó hann í Garðabæ. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Ríkey Lúðvíksdóttur, og 6 börn, Vilhjálm (1954), Kristínu (1955), Brynju (1956), Hildi (1958), Þór (1964) og Arnar (1980).
Kristján stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og Lögregluskóla ríkisins og sótti auk þess fjölda námsskeiða um öryggismál og fíkniefnamál í Evrópu og Bandaríkjunum. Hann starfaði hjá lögreglustjóraembættinu á Keflavíkurflugvelli frá árinu 1950 til ársins 1960 þegar hann tók við stöðu ráðningastjóra varnarmálaskrifstofu utanríkismálaráðuneytisins. Árið l967 var hann skipaður í starf deildarstjóra tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli þar sem hann lauk starfsæfinni árið l990. Þekktastur var Kristján fyrir brautryðjandastörf við rannsóknir og kynningar á fíkniefnamálum um og eftir l970, auk þess var hann þekktur fyrir uppljóstrun ýmissa stórra sakamála.
Kristján skrifaði margar greinar í dagblöð og tímarit um fjölbreytileg málefni. Þá skrifaði hann tvær bækur, Margir vildu hann feigan (1990) og Þögnin rofin (1994).
Kristján var alla tíð jafnaðarmaður og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn. Hann var fyrsti formaður ungra jafnaðarmanna í Keflavík þá aðeins l9 ára gamall. Þá var hann kosningastjóri flokksins við alþingiskosningar, formaður fulltrúaráðs og sat í ýmsum nefndum og stjórnum á vegum flokksins.
Kristján var einn af frumkvöðlum að stofnun Golfklúbbs Suðurnesja og sat í fyrstu stjórn félagsins, þá var hann einnig í fyrstu stjórn KFK. Kristján var alla tíð mikill unnandi íslenskrar náttúru og naut sín best í faðmi hennar.
Keflavík á fjóra fulltrúa í úrvalsliðum Iceland Express deildanna
Nú í dag voru veitt verðlaun fyrir fyrri hluta keppnistímabils í Iceland Express deild karla og kvenna. Keflvíkingar áttu fjóra fulltrúa í liðunum, tvo úr karlaflokk og tvo úr kvennaflokk. Grindvíkingar áttu einnig fulltrúa í kjörinu og Njarðvíkingar áttu besta dómarann.
Keflvíkingarnir Hörður Axel Vilhjálmsson og Lazar Trifunovic komust í úrvalslið karlanna og svo var Grindvíkingurinn Ryan Pettinella valinn dugnaðarforkurinn eða besti varnarmaðurinn.
Hjá konunum voru þær Keflavíkurmeyjar Bryndís Guðmundsdóttit og Pálína Gunnlaugsdóttir í úrvalsliðinu og auk þess var liðsfélagi þeirra Jaquline Adamshick kjörin dugnaðarforkurinn eða besti varnarmaður. Njarðvíkingurinn Margrét Kara Sturludóttir var einnig í úrvalsliðinu en hún leikur með KR.
Besti dómarinn var svo Njarðvíkingurinn Sigmundur Már Herbertsson en hann var kjörinn af öllum þjálfurum úr Iceland Express deildum karla og kvenna.
Grindavíkurstúlkur með sannfærandi sigur í Röstinni
Grindavíkurstúlkur sýndu ótrúlegan karakter og náðu í sinn annan sigur á leiktíðinni þegar þær sigruðu Njarðvík í Iceland Express deildinni í körfubolta í Grindavík í kvöld. Sannfærandi sigur Grindavíkur og lokatölur urðu 88-80.
Grindavík byrjaði af miklum krafti og eftir fyrsta leikhluta leiddu þær leikinn 35-15. Njarðvíkurstúlkur komu þó til baka og var staðan í hálfleik 49-40, Grindavík í vil. Í öðrum leikhluta kom upp óvenjulegt atvik en dómararnir gleymdu bónus Njarðvíkinga. Þeir gátu þó leiðrétt mistökin þar sem boltinn var ekki kominn í leik í annað skipti eftir mistökin og fengu Njarðvíkurstúlkur vítin sín tvö. „Við getum leiðrétt mistök svo lengi sem boltinn fer ekki tvisvar í leik eftir mistökin og við gerðum það. Það má leiðrétta mistök ef um þrjá liði er að ræða og er þetta einn af þeim,“ sagði Georg Andersen, annar dómara leiksins.
Grindavíkurstúlkur héldu forskotinu út í seinni hálfleik þó Njarðvík hafi sótt verulega að þeim og unnu þær sannfærandi sigur. Stigahæst hjá Grindavík var Crystal Ann Boyd með 28 stig en næst á eftir henni var Agnija Reke með 16 stig. Shayla Fields var stigahæst hjá Keflavík með 25 stig en hún spilaði rúmar 39 mínútur.
Kaninn kemur ekki til Grindavíkur
Bandaríski körfuleikmaðurinn Brock Gillespie sem var búinn að semja við Grindavík um að leika með karlaliði liðsins í Iceland Express deildinni hefur rift samningi við félagið. Brock sagðist hafa fengið betra tilboð í öðru landi og kæmi því ekki.
Þetta er mikið áfall fyrir Grindavík en leit að nýjum leikmanni stendur yfir. Gillespie átti að leysa Jeremy Kelly af hólmi sem meiddist og verður ekki meira með. Grindavík mætir Njarðvík í kvöld í Röstinni, að því er kemur frá á umfg.is.
Njarðvík lá fyrir Grindavík á seinustu mínútu
Grindavík sigruðu Njarðvík í Iceland Express deild karla í Grindavík í kvöld en leikurinn var æsispennandi fram á loka mínútu og endaði 86-78, heimamönnum í vil. Með sigrinum komust Grindvíkingar tveim stigum á eftir Snæfell sem er á toppi deildarinnar með 22 stig en Njarðvík situr í tíunda sæti með 8 stig.
Grindavík hafði frumkvæðið í upphafi leiksins og hélt því alveg þangað til í stöðunni 36-23. Þá tóku Njarðvíkingar sig taki og minnkuðu muninn all verulega en heimamenn leiddu leikinn með einu stigi í hálfleik, 43-42.
Bæði lið mættu grimmari en áður í seinni hálfleik og áttu dómararnir, Kristinn og Einar Þór í erfiðum með að dæma leikinn. Oft þurftu þeir að dæma uppkast þar sem þeir gátu hvorugur dæmt hvort liðið ætti innkast og færði það hita í leikmenn. Snemma í fjórða leikhluta var æsingurinn orðinn mikill en Njarðvíkingar fengu dæmdan á sig ásetning og áður en leikurinn gat hafist aftur fengu þeir annan ásetning og tæknivillu en Kristinn Óskarsson, dómari var ekki í neinum vafa um dóminn. Þessi dómur fór illa í Njarðvíkinga og skoruðu þeir ekki stig á seinustu mínútunni frá stöðunni 78-78 meðan Grindavík skorði 8 stig og tryggðu Grindvíkingar sér þannig sætan sigur. Ólafur Ólafsson, troðslu meistari, tróð boltanum fyrir áhorfendur í lok leiksins á meðan einn Njarðvíkinga hélt í hendina á honum og skemmti það áhorfendum mjög svo þakið ætlaði að rifna af Röstinni. Lokatölur urðu þannig 86-78.
Christopher Smith fór mikinn í liði Njarðvíkinga en hann skoraði 24 stig og 6 fráköst en hann var stigahæstur allra í leiknum. Í liði Grindavíkur var Páll Axel Vilbergsson stigahæstur með 21 stig, 3 fráköst og aðeins eina villu.