Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fréttavikan: Bikarmeistarar, íþróttir, tómatar og íbúðahreinsanir
Laugardagur 26. febrúar 2011 kl. 12:19

Fréttavikan: Bikarmeistarar, íþróttir, tómatar og íbúðahreinsanir

Íþróttir einkenndu fréttir vikunnar á Suðurnesjum sl. viku. Keflavík unnu bikarkeppni kvenna í körfubolta, Nick Bradford snýr aftur til Íslands og Jósef Kristinn á leið til Búlgaríu. Þá fannst ræktun á kannabisplöntum í blokk og verðmætt þýfi. Skoðum nokkrar fréttir vikunnar hér á vf.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Pólverji ræktaði kannabis á 3. hæð í blokk og með verðmætt þýfi

Pólskur karlmaður um þrítugt hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því á þriðjudag í síðustu viku að beiðni lögreglunnar á Suðurnesjum. Maðurinn var handtekinn og grunaður um ræktun á kannabisplöntum.

Við húsleitir fundust 200 plöntur á ýmsum stigum ræktunnar. Plönturnar voru haldlagðar í tveimur stöðum í Reykjanesbæ. Annar staðurinn var íbúð á þriðju hæð í fjölbýli.

Við húsleitir fannst einnig ætlað þýfi og að sögn Gunnars Schram hjá lögreglunni á Suðurnesjum er verðmæti þess talsvert eða á aðra milljón króna. Meðal annars fannst mikið af dýrum iðnaðarverkfærum. Lögreglan lýsir nú eftir eigendum verkfæranna.

Maðurinn er einnig grunaður um skjalafals en hann hafði persónuskilríki á tveimur mismunandi nöfnum.

Gæsluvarðhaldið yfir manninum mun renna út á morgun. Ekki var vitað nú áðan hvort farið yrði fram á framlengingu. Að sögn lögreglu er þetta ekki í fyrsta sinn sem höfð eru afskipti af þessum einstaklingi.

Við rannsókn málsins kom lögreglan upp um ræktun kannabisplantna í þriðju íbúðinni í Reykjanesbæ. Sú ræktun er óviðkomandi þessum aðila.

Leigjendur halda íbúðunum tímabundið áfram

Leigjendur í fjörutíu og átta leiguíbúðum Fjárfestinga- og umsýslufélagsins Norðurklappar sem áður hét Novos, og voru slegnar á uppboði Sýslumannsins í Keflavík í vikunni sem leið, halda leigusamningum sínum tímabundið.

Norðurklöpp hefur frest til 11. mars nk. til að ganga frá sínum málum svo það missi ekki íbúðirnar sem voru alls 48, flestar að Hringbraut 128 í Keflavík en einnig við Mávabraut 9.

Kröfuhafar sem höfðu farið fram á uppboð voru Íbúðalánasjóður í flestum tilfellum en einnig voru Tryggingamiðstöðin, Íslandsbanki og Landsbanki meðal gerðarbeiðenda. Íbúðalánasjóður veitti lán vegna íbúðanna árið 2007.

Nokkrir íbúanna hafa haft samband við VF og lýst yfir áhyggjum sínum hvort þeir haldi íbúðum sínum áfram. Að sögn Ágústs Kr. Björnsson, sviðsstjóra hjá Íbúðalánasjóði býður sjóðurinn leigjendum áfrramhaldandi tímabundna leigusamninga á kjörum sem taka mið af meðalleigu eigna á viðkomandi svæði.
Ekki fengust svör við því hjá Íls hvernig staðið verði að innheimtu leigu um næstu mánaðarmót.

Samkvæmt heimildum VF þá dugðu leigutekjur sem Norðurklöpp fékk ekki til þess að standa undir lánunum og því er þessi staða komin upp. Þau hafa hækkað um þriðjung á sama tíma og leiguverð hefur lækkað. Þá hafði það án efa áhrif á rekstur leigusalans að margir leigjendanna sem voru útlendingar hurfu af landi brott fljótlega eftir bankahrun en samkvæmt upplýsingum VF voru þó flestar íbúðirnar komnar aftur í leigu.

Leggja 750.000 krónur í tómata - geta skapað allt að 70 störf

Bæjarráð Grindavíkur hefur samþykkt að leggja fram 750.000 krónur í undirbúningsvinnu vegna ylræktarvers fyrir tómata í Grindavík. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Fjárfestingastofa og Eignarhaldsfélag Suðurnesja leggja einnig fram framlög til verkefnisins.

Með þessu skrefi er stigið fyrsta skref í átt að verkefni sem gæti skapað 50-70 störf, segir í bæjarráði Grindavíkur.

Sextán vildu starf verkefnisstjóra við Sandgerðishöfn

Sextán umsóknir bárust Sandgerðisbæ um starf verkefnisstjóra við Sandgerðishöfn. Tveir drógu umsóknir til baka og ein barst of seint. Farið var yfir umsóknirnar á fundi í atvinnu- og hafnarráði þann 31. janúar sl. og tekin voru viðtöl við umsækjendur. Í framhaldi af því var lagt til að Grétar Sigurbjörnsson yrði ráðinn til starfsins

Játuðu fyrir dómi að hafa hreinsað út úr íbúð

Tvær konur játuðu í gær fyrir Héraðsdómi Reykjaness að hafa hreinsað allt innbú út úr íbúð áður hún var sett á uppboð. Íbúðin var veðsett fyrir 30 milljónir. Tvö mál voru þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær þar sem ákært er fyrir sömu sakir. Frá þessu er greint á fréttavef Vísis.

Konurnar, sem bjuggu í Garði, voru ákærðar fyrir skilasvik. Málið kom upp í nóvember 2008. Í ákærunni, sem gefin er út af lögreglustjóranum á Suðurnesjum, segir að konurnar hafi fjarlægt allar innihurðir ásamt körmum úr íbúðinni. Baðinnréttingar og eldhúsinnréttingar hafi verið teknar auk þess sem rafmagnstenglar hafi verið fjarlægðir. Þetta mun hafa verið gert án heimildar veðhafans sem í þessu tilviki var Landsbanki Íslands.

Íbúðin var veðsett fyrir ríflega 31 milljón krónur og taldi bankinn verðmæti þeirra hluta sem fjarlægðir voru úr íbúðinni nema um fimm og hálfri milljón. Eignin var seld nauðungarsölu þann 5. nóvember 2008 og var bankinn kaupandi hennar.

Konurnar tvær játuðu sök fyrir dómi og verður því ekki aðalmeðferð í málinu. Annað mál af sama toga var hins vegar einnig tekið fyrir í gær. Það mál kom einnig upp á Suðurnesjum. Ungt par í Sandgerði var ákært fyrir að hafa fjarlægt ofn úr stofu, sjö ofnkrana, baðinnréttingar, 150 fermetra hellulögn, sólpall og heitan pott, áður en eignin var sett á uppboð. Parið neitar sök og segist hafa staðið í endurbótum á húsinu og mun því málið fara í aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Íslandsbanki telur andvirði þess sem parið fjarlægði úr eigninni nema um 5 milljónum. Bankinn keypti eignina á nauðungarsölu í apríl 2010.

Yacine Si Salem til Grindavíkur

Franski leikmaðurinn Yacine Si Salem hefur skrifað undir tveggja ára samning við Grindavík. Salem, sem er fæddur í Alsír, er 23ja ára og spilar sem framliggjandi miðjumaður eða framherji. Frá þessu er greint á vef Ungmennafélags Grindavíkur.

Hann ólst upp hjá Le Havre í Frakklandi en var í tvö ár, 2008-2010, hjá Thrasyvoulos Filis í Grikklandi í 1. og 2. deild en fékk samningnum rift vegna fjárhagsörðugleika félagsins. Hann hefur æft og leikið að undanförnu í Frakklandi með neðri deildarliðinu Oissel.

Salem kom til Grindavíkur á eigin vegum og stóð sig það vel á reynslutímanum að honum var boðinn samningur hjá félaginu. Hann er sjötti leikmaðurinn sem gengur til liðs við Grindavíkurliðið fyrir sumarið. Hinir eru Jamie McCunnie og Magnús Björgvinsson frá Haukum, Paul McShane frá Fram, Einar Helgi Helgason frá Njarðvík og tékkneski framherjinn Michal Pospisil. Farnir eru Grétar Hjartarson, Auðun Helgason, Rúnar Daníelsson, og Gilles Mbang Ondo.

Á myndinni er Salem ásamt Ólafi Erni Bjarnason, þjálfara Grindavíkur.

Nick Bradford til Grindavíkur

Nick Bradford er á leiðinni til Grindavíkur samkvæmt heimildum Víkurfrétta. Hann verður mikill styrkur fyrir Grindvíkinga í komandi úrslitakeppni í körfuknattleik.

Bradford er ekki ókunnur á Suðurnesjum en hann hefur leikið með öllum Suðurnesjaliðunum, Keflavík, Njarðvík og Grindavík í körfuknattleik.

Nick Bradford kemur til landsins um næstu helgi.

Keflavík bikarmeistari!

Keflvíkingar eru Poweradebikarmeistarar árið 2011 eftir sigur á KR fyrir skömmu lokatölur, 72 - 62. Birna Valgarðsdóttir var valin maður leiksins. Tafir urðu á leik vegna bilunar í skotklukku og leikur hófst því um 20 mínútum á eftir áætlun. Keflvíkingar byrjuðu gríðarlega ákveðið og komust fljótlega í 12 - 2 og KR-ingar tóku leikhlé. Birna Valgarðsdóttir strax komin með 5 stig og útlitið gott hjá Keflavíkurstúlkum. KR-ingar voru ekki á því að hleypa Keflvíkingum fram úr sér og settu 6 stig í röð strax eftir leikhlé. Jafnræði var orðið með liðunum og staðan var 19 - 16 fyrir Keflavík að loknum fyrsta leikhluta. Annar leikhluti var jafn og leikmenn virtust losna við taugaspennu sem einkenndi leikinn í upphafi. Staðan í hálfleik var svo 30 - 33 KR-ingum í vil, atkvæðamestar í hálfleik voru þær Jacquline Adamshick með 11 stig og 7 fráköst og Bryndís Guðmundsdóttir með 6 stig. Chazny Morris var drjúg fyrir KR með 11 stig og 6 fráköst.

Seinni hálfleikur hófst með sama jafnræði og þeim fyrri lauk með og staðan 35 - 35 eftir rúmar 2 mínútur og allt útlit fyrir spennandi leik. Í þriðja leikhluta komust Keflvíkingar svo á skrið og gerðu nánast út um leikinn en ekkert virtist ganga upp hjá KR-ingum og staðan 54 - 44 fyrir Keflvíkinga fyrir lokaleikhlutann. Áfram héldu Keflvíkingar að auka forystuna og Ingibjörg Jakobsdóttir setti risa þrist á mikilvægu augnabliki og kom Keflavík í 63 - 50. Þegar 5 mínútur voru eftir var forystan orðin 14 stig 68- 54 en næstu fjórar mínútur skoruðu Keflvíkingar aðeins 1 stig en KR-ingar náðu alls ekki að færa sér það í nyt enda var lánleysi þeirra algert og ekkert vildi ofaní hjá þeim röndóttu. Lokakaflinn var ekki ýkja spennandi og Keflvíkingar lönduðu sínum fyrsta bikarmeistaratitli 72 - 62 undir stjórn Jóns Halldórs Eðvaldssonar eftir að hafa tapað síðustu tveimur bikarúrslitaleikjum sínum.

Til hamingju Keflavík með bikarmeistaratitilinn 2011!

Atkvæðamestar í dag: Jacquline Adamshick, 19 stig/14 frk, Birna Valgarðsdóttir 14 stig, Bryndís Guðmundsdóttir 12 stig/10 frk/6 stoðs, Pálína Gunnlaugsdóttir 9 stig og Ingibjörg Jakobsdóttir 8 stig.

Jósef Kristinn til Búlgaríu

Jósef Kristinn Jósefsson, leikmaður Grindvíkur, fór í morgun til Búlgaríu til þess að semja við liðið PSFC Chernomorets Burgas en hann var á reynslu hjá liðinu í síðasta mánuði.

Grindavík og búlgarska félagið eru langt komin með að semja um kaupverðið, segir á heimasíðu Grindavíkur.

Nýr Njarðvíkurkani kláraði Keflavík í frábærum nágrannaslag

„Þetta var alvöru nágrannaslagur og frábært hjá okkur að innbyrða sigur því þetta gat lent beggja megin,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, annar tveggja þjálfara Njarðvíkinga eftir sigur á nágrönnunum úr Keflavík í æsispennandi og skemmtilegum leik í Iceland Express deildinni í körfubolta í Ljónagryfjunni í kvöld. Framlengingu þurfti til og í lokin munaði aðeins tveimur stigum, 104-102 fyrir heimamenn.

Keflvíkingar skoruðu fimm fyrstu stigin í framlengingunni og keflvískir áhorfendur fögnuðu innilega. Heimamenn voru þó ekki á því að gefast upp og minnkuðu muninn en þegar hálf mínúta var til leiksloka var brotið á Giordan Watson, besta manni vallarins. Hann skoraði úr tveimur vítaskotum og kom Njarðvík yfir en þegar um 5 sekúndur voru til leiksloka unnu Keflvíkingar boltann þegar Njarðvík hóf sókn en Magnús Gunnarsson sem átti stórleik hjá Keflavík náði ekki að skora úr erfiðu færi og heimamenn unnu boltann aftur þegar um sekúnda var eftir. Þeir bættu við einu stigi frá vítalínunni og fögnuðu mikilvægum sigri 104-102.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu góðu forskoti í upphafi en heimamenn hristu af sér slenið og minnkuðu muninn. Keflavík var tvö stig yfir eftir fyrsta leikhluta og leiddu með 43-45 í hálfleik. Í þriðja leikhluta var forysta fimm stig en þegar fimm mínútur voru eftir leiddu þeir með átta stigum 74-82. Njarðvíkingar gáfust ekki upp og voru betri á lokamínútunum og þegar flautan gall í lokin var jafnt með liðunum 93-93.

Njarðvíkingar voru undir megnið af leiknum og Keflvíkingar virtust allan tímann vera að fara að innbyrða sigur en heimamenn sýndu ljónseðlið í lokin og voru hungraðari. Þeir voru einnig með mann leiksins innanborðs, hinn nýja Bandaríkjamann í liðinu, Giordan Watson. Þessi snaggaralegi, smái en ótrúlega knái leikmaður skoraði 40 stig sem gerir nærri því annað hvert stig UMFN í leiknum. Keflvíkingar náðu ekki að verjast honum og fundu ekki rétta varnarleið. Hann náði hvað eftir annað að keyra sjálfur í gegnum miðja vörn Keflavíkur og skora. „Jú, hann var frábær og við erum mjög ánægðir með kappann. Hann verður okkur mikilvægur í lokabaráttunni og vonandi í úrslitakeppninni. Við stefnum þangað“ sagði Einar þjálfari.
Hörður Vilhjálmsson var þungur á brún og sagði leiðinlegt að tapa leiknum á þennan hátt. „Það er alltaf leiðinlegt að tapa en enn leiðinlegra að tapa gegn Njarðvík. Þeir voru betri í mikilvægu skotunum í lokin og því fór sem fór“.

Magnús Gunnarsson átti eins og fyrr segir stórleik hjá Keflavík og skoraði 30 stig. Hann er kominn í sitt besta form, léttari og lipari. Hörður Axel var líka góður og skoraði 22 stig og Andriia Ciric skoraði 17 stig. Þá skilaði Thomas Sanders 15 stigum en það var vont fyrir Keflvíkinga að missa hann útaf fyrir framlenginguna með fimm villur. Keflavík saknaði Gunnars Einarssonar sem var meiddur og Njarðvíkingar voru einnig án hins sterka Jonathan Moore vegna meiðsla. Watson títtnefndur var frábær og á án efa eftir að verða þeim dýrmætur í næstu leikjum en þetta var hans fyrsti leikur með liðinu. Guðmundur Jónsson var honum næstur með 24 stig og þá skoraði Nenad Tomasevic 13 stig. Aðrir voru undir tíu stigum.