Fréttavikan á VF: Körfuboltinn, íþróttamenn í atvinnumennsku, HSS, Eldriborgarar og pólitík
Í vikunni var þetta helst í fréttum á vf.is:
Íþróttamaður Grindavíkur á reynslu í Búlgaríu
Jósef Kr. Jósefsson, íþróttamaður Grindavíkur 2010, er þessa dagana á reynslu hjá búlgarska liðininu PSFC Chernomorets Burgas en þessu er greint frá á umfg.is.
Burgas eða hákarlarnir eins og liðið er oft kallað er í 4. sæti í efstu deild en búlgarska deildin er nú í vetrarfríi. Jósef mun æfa með liðinu í viku og samkvæmt heimasíðu liðsins stóðs hann allar læknisskoðanir og höfðu þeir orð á því að ástand hans væri mjög gott.
Fróðlegt verður að fylgjast með áframhaldinu en það er kappsmál hjá Jósefi að komast í sem allra besta leikform til að keppa um sæti í U-21 liðinu sem tekur þátt í úrslitakeppni EM í sumar.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja rekin með 35 milljóna tekjuafgangi
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var á árinu 2010 gert að spara um 86,5 milljónir. Það tókst og gott betur með samstilltu átaki starfsmanna því samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu er 35 milljóna tekjuafgangur, sem er tæplega 2% af heildarveltu síðasta árs.
Heildarvelta ársins 2010 var 1.852 milljónir og þar af nam rekstrarframlag ríkisins 1.713 milljónum eða 92,5%.
Stærsti kostnaðarliðurinn var sem fyrr launakostnaður. Hann nam á árinu 1.389 milljónum, sem er um 47 milljónum lægri upphæð en árið 2009.
Annar rekstrarkostnaður nam um 407 milljónum og lækkaði um 56 milljónir frá árinu 2009.
Þorrablótið í Grindavík blásið af
Ákveðið hefur verið að blása af þorrablót knattspyrnudeildar og körfuknattleiksdeildar Grindavíkur þar sem ekkert hentugt húsnæði er fyrir hendi en til stóð að halda það þann 5. febrúar nk. Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar.
Íþróttahúsið er upptekið þessa helgi og þá er Lavasalur Bláa lónsins of dýr að sögn undirbúningsnefndar. Stefnt er að því að halda þorrablótið að ári og það verði glæsilegra en nokkru sinni. Þeir sem vilja komast á þorrablót nú um helgina geta nálgast síðustu miðana á þorrablót Björgunarsveitarinnar Ægis og Knattspyrnufélagsins Víðis í Garði með því að hafa samband við Þorstein Jóhannsson í síma 896 7706, en örfáir miðar eru eftir á það þorrrablót.
Keflavík með sigur í Garðabænum – Sanders eykur stigin
Keflavík sótti Stjörnuna heim í Iceland Express deild karla í kvöld og fór með sigur af hólmi. Keflavík situr því enn í 3. sæti deildarinnar með 20 stig en jafnir Keflavík eru KR sem fóru einnig með sigur í kvöld.
Keflavík byrjaði brösulega en náði sér aftur upp í öðrum leikhluta og leiddu með einu stigi 41-42. Strax í byrjun seinni hálfleiks fór hraðlestin í gang hjá Keflavík og stakk Stjörnuna af. Það munaði alls 17 stigum þegar 34 mínútur voru liðnar af leiknum en þá sóttu Garðbæingar að Keflavík og náðu að minnka muninn en það dugði ekki til. Leikurinn endaði 92-102 fyrir Keflavík en Justin Shouse gat ekki séð loka mínúturnar vegna tveggja ásetninga sem þýddi að hann var rekinn úr húsi.
Magnús Gunnarsson, oft kallaður Maggi „Gun“ er kominn heim má segja. Hann var sjóðandi heitur fyrir utan þriggjastiga línuna og setti 7 þrista og var með 26 stig í lok leiks. Thomas Sanders fór mikinn í leiknum eins og áður og setti 32 stig fyrir Keflavík en hann er alltaf að auka stigafjölda með hverjum leik sem hann spilar.
Stigahæstir í liði Keflavíkur voru Thomas Sanders með 32 stig, Magnús Gunnarsson með 26 stig, Hörður Axel Vilhjálmsson með 16 stig en hann var einnig með flestu fráköstin í sínu liði eða 9 stk.
Stigahæstir í liði Stjörnunnar voru Jovan Zdravevski með 24 stig og Renato Lindmets með 23 stig en hann var einnig með 9 fráköst.
Tölvukennsla á Nesvöllum fyrir eldriborgara
Félag eldriborgara á Suðurnesjum er vel starfandi þessa dagana. Á hverjum fimmtudegi frá kl. 14 til 16 býður félagið upp á tölvukennslu á Nesvöllum þar sem jafningjar koma saman og hjálpast að við tölvunotkun. Þrjár tölvur eru á staðnu fyrir þá sem ekki eiga tölvu en vilja læra grunnin við tölvunoktun. Hildur Harðardóttir, Kristján Einarsson og Garðar Sigurðsson eru á staðnum og hjálpast að við að leiðbeina fólki í gegnum grunn atriði en þetta kostar fólk ekki neitt og er um að gera að láta sjá sig.
„Ég hef verið að vinna við ritvinnslu en ekki náð að koma mér inn í netheiminn svo ég mæti hérna til að ná mér í smá kunnáttu til að getað notað netið,“ sagði Vilhjálmur Þórhallsson, eldriborgari í dag. Axel Friðriksson var þar við hlið hans að læra á forritð Picasa til að halda utan um myndirnar sínar og myndbönd. „Ég á svo mikið af myndum og þarf að hafa þetta vel skipulagt er þetta gott forrit í það,“ sagði Axel.
Um 1800 eldriborgarar eru í félaginu og er fólk hvatt til að mæta þó það sé ekki nema bara til að læra að slökkva og kveikja á tölvunni sinni. Farið er í gegnum helstu grunn þekkingu eins og músina, skjáborðið, hvað er í tölvunni og fyrstu skrefin við tölvuna.
Ökumaðurinn gaf sig fram
Ökumaðurinn sem ók á dreng við Lyngholt í Keflavík í morgun og lýst var eftir hér á vf.is hefur gefið sig fram við lögregluna.
Maðurinn varð fyrir því óhappi í morgun að aka á ungan dreng á leið í skólann. Ökumaðurinn gaf sig á tal við drenginn og taldi hann ómeiddan og yfirgaf því vettvang. Hins vegar kom í ljós að drengurinn hlaut áverka í slysinu og í framhaldi af því var lýst eftir ökumanninum.
Samfylkingin ekki með í yfirlýsingu um sölu á landi og auðlindum til ríkisins
„Þetta eru fljótfærnisleg og slæm vinnubrögð og við erum þess vegna ekki með í þessari yfirlýsingu. Hún er dæmi um vinnubrögð meirihluta Reykjanesbæjar sem við höfum gagnrýnt,“ sagði Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar á bæjarstjórnarfundi í fyrradag í umræðu um yfirlýsingu um sölu á landi og auðlindum til ríkisins. Árni Sigfússon, bæjarstjóri, lagði fram yfirlýsinguna frá meirihlutanum og fulltrúa Framsóknar og vildi fá fulltrúa Samfylkingarinnar til að vera með í.
Í yfirlýsingunni er lagt til að Reykjanesbær bjóði ríkinu að kaupa land og jarðauðlindir sem Reykjanesbær keypti af HS Orku til að auðlindin yrði í samfélagslegri eign. Þannig færðist hún úr sveitarfélagseign og yrði þjóðareign.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri sagði eftir fundinn í samtali við VF að ef svo færi að samningar tækjust við ríkið myndi það taka yfir skuldbindingarnar varðandi landakaupin og fengi land og auðlind í hendur.
„Þegar við ákváðum að gera þetta skipti máli að koma þessum eignum í eigu sveitarfélagsins og við skiljum ekki af hverju svona margir sem skrifuðu á undirskriftalistann telja það ekki nægilegt að sveitarfélag eigi land og auðlind. Í okkar samningi við HS Orku erum við að fá afnotagjald fyrir auðlindina, um 40 til 70 milljónir kr. árlega og það er líklega eitt hæsta auðlindagjald sem er tekið á Íslandi“.
Ungur markvörður hjá Keflavík á leið til Rangers
Bergsteinn Magnússon er á leið til reynslu hjá skoska stórliðinu Glasgow Rangers. Bergsteinn er 16 gamall markvörður og var fyrirliði U-17 ára landsliðs Íslands á síðasta ári. Hann leikur með 2. flokki Keflavíkur og var varamarkvörður í nokkrum leikjum Keflavíkur í Pepsi-deildinni í sumar. Bergsteinn verður hjá Rangers 23.-28. janúar en þessu er greint frá á keflavik.is.
Íslandspóstur og Landsbankinn hefja samstarf í Grindavík
Fimmtudaginn 20. janúar mun pósthúsið í Grindavík loka og hefst samstarfið við Landsbankann föstudaginn 21. janúar kl. 9:15 í afgreiðslu Landsbankans að Víkurbraut 56. „Þetta er hluti af hagræðingu hjá Íslandspósti, við höfum nú þegar lokið uppbyggingu á húsnæði okkar í Keflavík en þar er nú miðstöð dreifingar á Reykjanessvæðinu, þ.e. þar er pósturinn fyrir svæðið unninn og keyrður út þaðan, Það hjálpar okkur að hagræða með því að byggja upp á kjarnasvæðum á landinu sem geta þá betur stutt við staðina í kring.
Ágústa Hrund segir að gott samstarf hafi verið við Landsbankann á þeim 6 stöðum sem eru núna í samstarfi og höfum við trú á því að þetta eigi eftir að ganga vel í Grindavík.
Sérsveitin æfir á skotsvæði Keflavíkur við erfiðar aðstæður
Sérsveit ríkislögreglustjóra æfir þessa dagana á skotsvæði Keflavíkur. Sveitin mætir í nokkrum hópum þar sem pláss er lítið á svæðinu. Sveitin æfir nokkra daga í janúar og seinustu æfingar eru í byrjun febrúar en æfingarnar fara fram með þeim hætti að þeir skjóta á mislöng skotmörk út á velli.
Veðrið lék ekki við skotmennina í dag þegar ljósmyndari Víkurfrétta kíkti á þá en mjög ströng gæsla er á svæðinu og óviðkomandi aðgangur bannaður. „Vindurinn tekur hrikalega mikið í kúluna. Þetta er að verða óskothæft,“ sagði einn sveitarmanna. Mikil leynd er yfir sérsveitinni og ekki má birta neinar andlitsmyndir né nöfn af meðlimum.