Fréttavikan á vf.is
Í fréttum vikunnar á vf.is var þetta helst:
Mánudagur:
16 ára fangelsi fyrir manndráp
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Ellert Sævarsson í 16 ára fangelsi fyrir að verða Hauki Sigurðssyni að bana í Reykjanesbæ í maí síðastliðnum. Ellert, sem er 31 árs, játaði að hafa sparkað í höfuð og líkama Hauks og kastað kantsteini í höfuð hans. Af því hlutust miklir höfuðáverkar sem voru banamein Hauks, samkvæmt krufningsskýrslu. Auk fangelsisdómsins var Ellert dæmdur til að greiða ekkju mannsins, sem hann varð að bana, rúmar 3 milljónir króna í bætur og 2,3 milljónir króna í sakarkostnað.
Dómurinn segir enga ástæðu til að draga sakhæfi Ellerts í efa. Hann hafi ekki getað skýrt með viðhlítandi hætti af hverju hann veittist með svo harkalegum hætti að Hauki og hafi borið við minnisleysi um aðdraganda árásarinnar.
Árás ákærða var ofsafengin og hrottaleg og hlaut ákærða að vera ljóst að slík atlaga myndi leiða þann sem fyrir henni varð til dauða. Þykir háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Við mat á refsingu verður litið til þess að ákærði hafði ásetning til þess að vinna slíkt tjón sem raun varð á og koma því engar refsilækkandi ástæður til álita," segir meðal annars í niðurstöðu dómsins.
Á síðustu dropunum til Keflavíkur
Tveir erlendir flugmenn lendu í mikilli tvísýnu í eins hreyfils Bonanza vél sinni, á leið sinni frá Grænlandi til Íslands í nótt. Þeir náðu til Keflavíkurflugvallar á síðustu bensíndropunum og lentu þar heilu og höldnu. Þeir höfðu hreppt meiri mótvind en þeir bjuggust við og lent í ísingu, þannig að mjög gekk á eldsneytið.
Þriðjudagur:
Beðið mælinga á borholu á Reykjanesi
HS Orka bíður nú lokaniðurstöðu úr tilraunaborun á Reykjanesi, en um næstu mánaðamót ætti að verða ljóst hvort hægt verði að nota borholuna til orkuöflunar fyrir væntanlega stækkun Reykjanesvirkjunar. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra HS orku, er holan á jarðhitasvæðinu. ?„Hitinn er til staðar, en það er spurning hvort hún sker nógu mikið af sprungum til að verða vinnsluhola, en annars verður hún niðurdælingarhola.“
Stækkun Reykjanesvirkjunar er ein forsenda í orkuöflun fyrir væntanlegt álver í Helguvík.
Framleiðsla orku frá Reykjanesvirkjun hófst í maí árið 2006. Virkjunin samanstendur af tveimur 50 MW tvístreymishverflum.
Gosráðstefna Keilis vekur heimsathygli
Ráðstefna Keilis 15. og 16. september sl. um eldgos og flug hefur vakið verulega athygli um heim allan. Tæplega 300 manns sóttu ráðstefnuna sem þótti afar vel heppnuð.
Meginniðurstaðan er í raun tvíþætt: Annars vegar er talið að hin mikla og skaðlega röskun flugs vegna eldgoss í Eyjafjallajökli hafi ekki þurft að verða jafn umfangsmikil og raunin varð. Þekking hafi verið til staðar en hins vegar vantaði mikið á að allir aðilar töluðu saman.
Á óvart kom á ráðstefnunni að allir virtist sammála um svokallaðan Single Sky eða eina yfirstjórn í háloftunum. Er það talin skynsamlegasta leiðin til að bregðast við ástandi sambærilegu því er skapaðist við gos í Eyjafjallajökli.
Jarðvísindamenn greindu frá því að umrætt gos hefði í raun verið lítið í ljósi annarra gosa í jarðsögunni og einhvern tíma mætti búast við miklu stærra gosi.
Alþjóða flugmálastofnun heldur ársfund sinn á næstu dögum og má búast við að meginniðurstöður Keilsráðstefnunnar hafi mikil áhrif þar og á mótum vinnureglna fyrir flug í framtíðinni.
Frá því ráðstefnunni lauk hefur mikið verið fjallað um hana í fjölmiðlum víða um heim – gjarna skreytt með íslenskum náttúrlífsmyndum. Segja má að ráðstefna þessa sé fyrsta stóra, alþjóðlega ráðstefnan á Ásbrú þar sem nýtt er hin frábæra aðstaða til ráðstefnuhalds. Keilir stefnir að fleiri ráðstefnum á næstu misserum.
Miðvikudagur:
Vonbrigði ef sóknarfærið verður ekki nýtt
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, segir það vonbrigði að strandveiðiverkefni það sem kynnt var á síðasta ári hafi ekki fengið það brautargengi sem vonast var eftir hér á Suðurnesjum.
„Það vantar áhugasama einstaklinga til að koma inn í þetta og klára dæmið. Víða um land, þar sem þetta var kynnt, var nokkur áhugi og menn fóru ágætlega af stað með þetta. Hér virðist hins vegar ekki vera jafn mikill áhugi og það er merkilegt vegna þess að útlendingarnir sem voru að vinna í þessu með okkur segja að hér við Faxaflóann, frá Vogum og suðurúr, sé langbesti staðurinn til að stunda þetta,“ sagði Ásmundur í samtali við VF.
En hvað vantar upp á?
„Vantar ekki bara orðið eldmóðinn í fólk? Það er einhvern veginn slegið á allar hendur,“ svaraði Ásmundur.
Hann segir hugmyndina hafa gengið út á að inn í verkefnið kæmu einstaklingar með þekkingu og aðgang að veiðisvæðum og færu í samstarf við ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Markaðurinn sé gríðarlega stór og því séu það vonbrigði ef menn ætli ekki að nýta betur þetta spennandi sóknarfæri. Ásmundur telur góðar líkur á því að áhugasamir aðilar geti fengið opinbera styrki til að koma verkefninu af stað.
Í dag er talið að um 10 milljónir manna í Evrópu stundi strandveiðar sem fara fram annað hvort af bryggjum eða með strandlengjunni. Sveitarfélagið Garður lét vinna forkönnun og verkefnaáætlun vegna strandveiða á Suðurnesjum og kynnti verkefnið fyrir hagsmunaaðilum á síðasta ári. Virtist áhugi vera nokkur en lítið hefur gerst í framhaldi.
Runólfur í verkefnastjórn hjá SSS
Runólfur Ágústsson hefur verið ráðinn verkefnisstjóri hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Runólfi hefur verið falið það verkefni að vinna að framgangi álvers í Helguvík með því að fá aðila málsins að borðinu og leysa úr þeim vanda sem verkefnið hefur ratað í.
Hugmyndin um að fá Runólf að verkefninu vaknaði í kjölfar fundar iðnaðarráðherra á dögunum um álverið í Helguvík. Hann sátu forsvarsmenn Norðuráls, orkufyrirtækja, Orkustofnunar, sveitarfélaga á Suðurnesjum og forystumenn ASÍ og Samtaka atvinnulífsins auk Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, sagði Runólf vera ráðinn til verkefnisins í þrjá mánuði. Hann sé fenginn til verksins, þar sem henn þekki bæði vel til mála á Suðurnesjum og eins innan ráðuneyta sem koma að málinu.
Fimmudagur:
Hrina nauðungaruppboða framundan
Lokasölur á tæplega 100 fasteignum eru framundan hjá embætti Sýslumannsins í Keflavík í næstu viku. Það er svipaður fjöldi fasteigna og seldur var nauðungarsölu allt síðasta ár.
Uppboð á hvern íbúa á Suðurnesjum eru margfalt fleiri en hjá umdæmi sýslumannsins í Reykjavík.
Í byrjun september höfðu alls um 220 fasteignir á Suðurnesjum verið seldar á nauðungaruppboði frá síðustu áramótum. Aukningin er gríðarleg frá árinu 2007 þegar 28 eignir voru seldar á nauðungaruppboði. Hún er einnig mikil á milli ára því allt árið í fyrra voru 94 eignir á Suðurnesjum seldar nauðungarsölu samkvæmt upplýsingum frá embætti Sýslumannsins í Keflavík. Fyrir árið 2008 voru árlega seldar um 10 - 50 eignir á uppboði hér á Suðurnesjum.
Endurbótum á Hólmsteini lokið
Hægt er að hefja útgerð á Hólmsteini GK 20 eftir gagngerar endurbætur sem staðið hafa yfir á bátnum í allt sumar. Ekki verður þó gert út til sjós, enda stendur báturinn á þurru, heldur stendur til að róa á mið menningar og ferðamennsku.
Fjórir menn hafa unnið að framkvæmdunum í sumar. Opnað var á milli lúkars, lestar og vélasalarins, þannig að nú er komið vistlegt rými sem getur tekið 30 manns í sæti. Að sögn Ásgeirs Hjálmarssonar, safnvarðar á byggðasafninu, er hægt að nýta rýmið til að taka á móti ferðamannahópum. Einnig væri hægt að hafa þar ýmsar menningaruppákomur eins og sagnakvöld og fleira í þeim dúr.
Sveitarfélagið Garður eignaðist bátinn að gjöf fyrir tveimur árum en hann var gerður út frá Garði í áratugi þangað sem hann kom frá Hafnarfirði árið 1958.
Báturinn varð fyrir skakkaföllum áður en hann komst í skjól á Garðskaga en fyrir um ári síðan sökk hann í Sandgerðishöfn eftir að siglt var á hann. Óhætt er að segja að endurbæturnar hafa tekist vel.
Föstudagur:
Kiwanisklúbburinn Keilir 40 ára
Kiwanisklúbburinn Keilir í Keflavík fagnaði 40 ára afmæli í gær en hann var stofnaður 30. september 1970. Í tilefni dagsins var blásið til afmælisveislu í húsakynnum klúbbsins að Iðavöllum 3 þar sem hann hefur haft aðsetur frá árinu 1991. Fjöldi gesta var mættur til afmælisveislunnar í gær þar sem klúbbnum voru færðar góðar gjafir.
Kiwanisklúbburinn Keilir hefur í gegnum árin stutt við bakið á þeim sem minna mega sín eða lenda illa í baráttu sinni við sjúkdóma og önnur áföll. Þá hefur klúbburinn verið öflugur bakhjarl Þroskahjálpar á Suðurnesjum. Helsta fjáröflunarleið klúbbsins í þessu skyni hefur verið árviss jólatréssala allt frá stofnun hans og hefur hún ávallt hlotið góðar undirtektir bæjarbúa.
Klúbburinn hefur einnig aflað fjár með árlegu Lundakvöldi og þá má nefna Kiwanisklukkuna sem stendur á hringtorginu á mótum Hafnargötu og Aðalgötu og aflar tekna af auglýsingum. Á þessum 40 árum hefur klúbburinn styrkt ýmis verkefni fyrir um 50 milljónir króna. Í tilefni afmælisins í gær var tveimur félögum færður styrkur upp á 250 þúsund krónur hvor en það voru Íþróttafélagið Nes og Þroskahjálp á Suðurnesjum.
Stofnfélagar klúbbsins voru 16 fyrir fjörtíu árum en félagsmenn eru vel á fjórða tuginn í dag. Einn af stofnfélögum klúbbsins er enn starfandi í honum en það er Karl Taylor.
Blóðugur niðurskurður hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja – lokanir deilda og miklar uppsagnir
Um 25% skerðing verður á fjárframlagi til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á næsta ári samkvæmt nýjum fjárlögum sem verða til umfjöllunar á Alþingi næstu daga og eru lögð fram í dag. Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSS segir þetta gríðarlegt áfall því undanfarin ár hefði verið unnið mikið starf í hagræðingu innan stofnunarinnar vegna skertra framlaga. Framundan blasi því við lokun deilda og uppsagnir fjölda starfsmanna.
Það er óhætt að segja að þetta sé blóðugur niðurskurður því framlag til HSS lækkar um 400 milljónir króna en það var 1700 m.kr. fyrir árið 2010. Afleiðingarnar verða gríðarlega alvarlegar. Um 60 stöðugildi tapast og fyrir liggur að loka deildum á sjúkrahúsinu.
Sigríður sagði við Víkurfréttir nú rétt fyrir starfsmannafund, sem hún boðaði til á stofnuninni þar sem þessi tíðindi yrðu kynnt, að þessi niðurskurður kæmi sér mjög illa við sjúklinga og aðstandendur þeirra og ljóst væri að þjónusta HSS yrði stórlega skert til viðbótar við það sem þegar hefur verið gert. Þá væri það líka mjög alvarlegt að þurfa horfa upp á það að segja upp 60 til 100 manns og það væri ekki á bætandi á svæði þar sem atvinnuleysi væri mest á landinu.