Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fréttavikan á VF: Atvinnumálin og HSS í brennidepli
Laugardagur 9. október 2010 kl. 09:30

Fréttavikan á VF: Atvinnumálin og HSS í brennidepli

Þetta var helst í fréttum á vf.is í vikunni:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Mánudagur:


Tekur fjármálaráðherra á orðinu

„Ég vil trúa því að það sé einlægur vilji hjá fjármálaráðherra að vinna nú með okkur að leiðum til að byggja upp á Suðurnesjum. Orð hans nú í kvöld á Alþingi í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra voru ósk um að menn hætti hnútukasti og leiti saman að lausnum,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ í kjölfar umræðu á Alþingi nú í kvöld um stefnuræðu forsætisráðherra.

„Ég hef átt samtal við fjármálaráðherra um þetta og trúi að þetta sé hans vilji. Því mun ég óska eftir frekari fundi með honum strax á morgun til að ræða lausnir fyrir þær þúsundir einstaklinga sem hafa búið við langvarandi atvinnuleysi, eru að missa heimili sín og nú síðast sjálfsagða heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir.

Geimsteinn ræður ríkjum á Rás 2

Brotið var blað í sögu Geimsteins um helgina þegar vinsældalisti Rásar 2 var kynntur. Í þremur efstu sætunum voru lög frá hljómplötuútgáfunni sem hefur starfað sleitulaust frá 1976 og lætur engan bilbug á sér finna. Í efsta sæti er nýtt lag með Lifun sem heiti Ein stök ást, í öðru sæti er Bjartmar og bergrisarnir með Negril og Klassart er í því þriðja með Gamla grafreitinn. Fyrsta stóra plata Lifunar er væntanleg í næstu viku og í kjölfarið kemur út plata með nýrri hljómsveit sem kallast Valdimar og á einnig lag á vinsældalista Rásar 2.



Þriðjudagur:


Ragnarsseli lokað um áramót – 12 starfsmönnum sagt upp

Ragnarsseli verður lokað um næstu áramót verði óvissu um framtíðarrekstur þess ekki eytt fyrir þann tíma. Tólf starfsmönnum Ragnarssels var sagt upp núna um mánaðamótin. Sextán einstaklingar njóta dagvistar á Ragnarsseli á vegum Þroskahjálpar á Suðurnesjum. Þjónustan við þá er í mikilli óvissu og brýnt að henni verði eytt sem fyrst, segir formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum.

„Við vitum ekki hvort og hvernig bæjarfélögin ætla að sjá um þennan málaflokk eftir að hann færist yfir til þeirra um næstu áramót. Við höfum verið með þjónustusamning við ríkið, fengið styrk frá SSS og svo hefur Þroskahjálp á Suðurnesjum greitt þann mismun sem upp á vantar í reksturinn. Núna er staðan orðin þannig að Þroskahjálp á ekki fé til að greiða þennan mismun, við erum ekki með samning við ríkið eftir áramót og vitum ekki hvað bæjarfélögin vilja eða ætla að gera. Þetta er allt í óvissu og því þurftum við að grípa til þessara ráðstafana,“ sagði Sigurður Ingi Kristófersson, formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum, í samtali við VF.

Á Ragnarsseli eru að staðaldri sextán börn upp að 16 ára aldri. Fleiri börn njóta þjónustunnar yfir sumartímann þegar bæjarfélögin hafa lagt til viðbótarstarfsmenn. Tólf starfsmenn Ragnarssels fengu uppsagnarbréf nú um mánaðamótin og segir Sigurður brýnt að fá þessi mál á hreint sem fyrst til að eyða óvissunni. Hún sé afar óþægileg fyrir alla, skjólstæðinga, foreldra þeirra og starfsmenn.
Aðspurður segir Sigurður þetta ekki þýða endalok Ragnarssels. „Mér heyrist að menn vilji leysa þetta sem fyrst þannig að þetta er ekki vonlaust mál. Við höldum áfram að vinna í því.“



Olíuslóð frá Innri -Njarðvík til Keflavíkur og fimm bíla árekstur

Olía lak af strætisvagni á föstudaginn. Það nú kannski ekki frásögu færandi nema fyrir það að lekinn náði alla leið frá Innri-Njarðvík upp að Reykjaneshöll!

Lögreglan fór fyrst á vettvang. Þegar að hún var að athuga aðstæður við Hjallaveg/Njarðarbraut  vildi svo illa til að úr varð fimm bíla árekstur. Starfsmenn Brunavarna Suðurnesja fóru fyrst á fyrrgreind gatnamót til þess að þrífa upp olíulekann og þegar því var lokið þurftu þeir að ná í stærri tæki eða tankbílinn til þess að halda verkinu áfram.  Byrjað var við Fitjarnar og Njarðarbrautin þrifin langleiðina að Ytri-Njarðvíkum  Því næst var farið að Reykjaneshöllinni og planið þrifið. Strætisvagninn var þá orðinn olíulaus.  Verkið tók á aðra klukkustund og urðu lítilsháttar umferðartafir á meðan. Ökumenn sýndu mikla þolinmæði og voru kurteisir í alla staði á meðan verkið var unnið, segir á vef Brunavarna Suðurnesja.



Miðvikudagur:

Bæjarstjórn mótmælir harðlega niðurskurði á HSS

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mótmælir harðlega fyrirhuguðum tillögum um niðurskurð á grunnþjónustu í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Allir bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar skrifuðu undir ályktun þessa efnis sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi í gær.

Í ályktuninni segir að niðurskurður í heilbrigðisþjónustu sé þungt högg fyrir þær þúsundir einstaklinga sem lifað hafi í skugga langvarandi atvinnuleysis og séu að missa heimili sín. Fjárlagatillögurnar séu ávísun á frekara atvinnuleysi 60 -100 manna þar sem heilbirgðisstarfsmönnum verði bætt í raðir atvinnulausra eða vísað úr landi.

Í álkytuninni segir ennfremur:
„Grunnþjónusta við íbúa verður stórlega skert ef fram fer sem horfir. Fæðingardeild og sjúkradeild leggjast af. Heimahjúkrun riðar til falls. Þessar þrjár stoðir og stolt í starfsemi HSS eru að bresta.

Benda má á að framlög ríkisins til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í samanburði við aðrar heilbrigðisstofnanir hafa hlutfallslega verið -og eru enn- lægri en til annarra heilbrigðisstofnana miðað við íbúafjölda og enn hefur ekki verið tekið mið af nærveru stofnunarinnar við Keflavíkurflugvöll í fjárveitingum til hennar.

Engin sparnaðarrök mæla með því að flytja nærþjónustu við aldraða sjúka, fæðandi konur, hjartasjúklinga, krabbameinssjúklinga, líknandi meðferð deyjandi sjúklinga, lungnasjúklinga, sjúklinga í endurhæfingu og aðra sjúka og langveikra af svæðinu, þegar sýnt hefur verið að þessir þættir eru hagkvæmar reknir á HSS en LSH.

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi voru skýrð orð um að vilji stjórnvalda standi til að starfa með íbúum Suðurnesja að lausnum á fjölþættum vanda af efnahagskreppu og atvinnuleysis. Hér er tækifæri til að athafnir fylgi orðum.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á þingmenn Suðurkjördæmis, þingheim allan og Ríkisstjórn Íslands að koma í veg fyrir að niðurskurðartillögur þessar verði að veruleika.“

Undir ályktunina skrifuðu allir bæjafulltrúar Reykjanebæjar eins og áður segir.





Reykjanesbær leiti aðstoðar vegna slæmrar fjárhagsstöðu


„Ef í ljós kemur að ekki tekst að endurfjármagna rekstur Reykjanesbæjar með hefðbundnum hætti er ljóst að að leita verður óhefðbundinna  leiða við fjármögnun,“ segja bæjarfulltrúar Samfylkingar í bókun sem þeir lögðu fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Í henni segir að þegar sveitarfélög geti ekki lengur staðið í skilum skuli leita aðstoðar sveitarstjórnarráðuneytis sem geti heimilað jöfnunarsjóði að veita viðkomandi sveitarfélagi styrk eða lán. Telja fulltrúar Samfylkingar slíka aðstoð geta nýst Reykjanesbæ vel, að því er fram kemur í bókun þeirra.

„Öllum er ljóst að fjárhagsstaða Reykjanesbæjar er afar slæm um þessar mundir, langvarandi rekstrarhalli sveitarfélagsins kemur nú illa niður á íbúum og við því verður að bregðast. Ekki gengur lengur að kenna öðrum um okkar stöðu, við þurfum sjálf að koma okkur á réttan kjöl.
Sveitarfélagið hefur ekki staðið í skilum við sína lánadrottna og fyrirsjáanlegt er að fram- undan séu erfiðir tímar sem munu reyna enn frekar á þolrif bæjarsjóðs.
Bæjarfulltrúum öllum ber skylda til að skoða allar leiðir til úrlausnar og leita að heildstæðri lausn á fjárhagsstöðu bæjarsjóðs. Við þurfum að sýna ábyrgð og þor í okkar ákvörðunum í því skyni að bæta hag íbúa Reykjanesbæjar.
Skýrt kemur fram í lögum að þegar sveitarfélög geta ekki lengur staðið í skilum skuli leita aðstoðar Sveitastjórnarráðuneytisins sem getur heimilað jöfnunarsjóði sveitarfélaga að veita bæjarsjóði styrk eða lán.
Slík aðstoð myndi nýtast Reykjanesbæ vel og gefa bæjarstjórn ráðrúm til þess að ráðast í gagngera heildarendurskoðun og uppstokkun í fjármálum sveitarfélagsins á yfrvegaðan hátt,“ segir í bókun Samfylkingarinnar.
Fimmtudagur:


Slor af Suðurnesjum heim til útrásarvíkinga og ráðamanna

Fiskúrgangur af Suðurnesjum hefur verið keyrður í bílförmum heim til útrásarvíkinga og ráðamanna þjóðarinnar. Þannig greinir dv.is frá því að þeir Björgólfur Thor Björgólfsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Karl wernersson hafi fengið 100 kíló af slori hver send heim að dyrum.

Sigurjón Árnason, fyrrum Landsbankastjóri, fékk einnig Suðurnesjaslor og þá fékk SP-fjármögnun 300 kíló af fiskúrgangi.

Ráðamenn þjóðarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, hafa einnig fengið sendingu af Suðurnesjum en slori var komið fyrir utan við heimili þeirra.

Ekki fylgir sögunni hvort það séu Suðurnesjamenn sem standa á bakvið slorsendinguna.



Fimmtudagur:

Húsfyllir á borgarafundi í Stapa um atvinnumál: Starfsmenn HSS með blóðrauð blys

Húsfyllir var á opnum borgarafundi Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi í Stapa sem lauk á sjöunda tímanum í kvöld. Í ályktun fundarins sem var samþykkt samhljóða er krafist samstöðu ríkisstjórnar, sveitastjórna og atvinnurekenda um hnökralausa atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi.

Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja stóðu eftir fundinn í röð á miðri Njarðarbrautinni og lýstu upp svæðið með rauðum blysum en sem kunnugt er af fréttum er framundan tæplega 25% niðurskurður þar á bæ sem mun þýða að stofnunin mun lamast og 60-80 manns munu missa atvinnuna.

Ályktun Borgarafundar Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi
í Stapa, Reykjanesbæ, 7. október 2010

Borgarafundur í Stapa og Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi senda út ÁKALL UM SAMSTÖÐU!

Fundurinn krefst samstöðu ríkisstjórnar, sveitastjórna og atvinnurekenda um hnökralausa atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi. Gerð er krafa til samstöðu þvert á mörk sveitarfélaga, stjórnmálaflokka og atvinnugreina. Búseta og vinna er grundvöllur samfélagsins - við viljum og þurfum nauðsynlega vel launuð störf í sem flestum atvinnugreinum! Velferð er ekki sjálfgefin – hún byggir á grunni heilbrigðs atvinnulífs.

Reyknesingar hafa fengið sig fullsadda af óeiningu ráðamanna, atvinnuleysi, gjaldþrotum, nauðungarsölum, endalausum töfum og aðgerðarleysi. Nú þarf að hafa skýra sýn og taka á málum með festu. Nauðsynlegt er að greiða leið ákveðinna atvinnusköpunarverkefna í stjórnkerfinu svo Reyknesingar og landsmenn allir fái notið þrotlausrar atvinnuuppbyggingar síðustu ára. Það er lágmarkskrafa að stjórnvöld og hagsmunaaðilar styðji við þá gríðarlegu vinnu sem lögð hefur verið í uppbyggingu atvinnuverkefna á svæðinu.  Það verða allir að leggjast á eitt við að koma hjólum atvinnulífsins af stað! Það er ekki einkamál Reyknesinga.

SAR leggur til að hið opinbera reyni eins og frekast er unnt að vernda grunnþjónustuna. Betra er að niðurskurður fari fram í opinberri stjórnsýslu sem vaxið hefur um helming á áratug.

Reyknesingar eru að eiga við risavaxið vandamál.  Atvinnuleysi á Reykjanesi hefur verið það mesta á landinu og hér hafa flest nauðungaruppboð átt sér stað. Reyknesingar eru ekki einungis að eiga við hrunið sjálft heldur einnig fortíðarvandann frá 2006 þegar herinn fór og á annað þúsund störf gufuðu upp. Af svæðinu hafa milljarðar runnið í ríkiskassann annarsvegar frá sölu eigna á varnarliðssvæðinu og hinsvegar frá sölunni á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja á sama tíma og atvinnuleysi hefur stigmagnast.

SAR beinir því til stjórnvalda að tekið verði á skuldavanda heimilanna þegar í stað. Fyrsta skrefið er að stöðva nauðungarsölur og gjaldþrotameðferðir þar sem því verður við komið. Fara heldur þá leið að gera skuldir upp með veðsettum eignum og afskrifa afganginn, skuldurum verði síðan boðið að leigja eignirnar jafnvel með föstum kauprétt. Tómar byggingar út um allt hjálpa engum. Fjölskyldur og einstaklingar sem losnað hafa undan skuldaklafa eru líklegri til að skapa verðmæti og stuðla að betra efnahagslífi svo ekki sé talað um mannúðarsjónarmið.

Fyrir þessu munu Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi berjast í framtíðinni og veita aðilum bæði aðstoð og aðhald.

Fyrst og síðast er þess krafist að atvinnurekendur og hið opinbera gangi í þessi mál og klári þau þegar í stað. Ef engin hreyfing kemst á hlutina innan þriggja vikna mun verða gripið til róttækari aðgerða.

STÖNDUM SAMAN!

Samþykkt á fundi í Stapa, Reykjanesbæ 7. október 2010



Föstudagur:

Fjölmenni mótmælti niðurskurði á HSS

Fjölmenni var í skrúðgarðinum við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í gærkvöldi þegar fólk safnaðist þar saman til þögulla mótmæla gegn tillögum um niðurskurð á fjárframlögum ríkisins til HSS. Í hópnum mátti sjá íbúa úr öllum byggðalögum Suðurnesja

Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Félag eldri borgara á Suðurnesjum og Starfsmannafélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja efndu til mótmælanna.

Í tilkynningu frá hópnum segir að fyrirhugaður niðurskurður skapi óöryggi og óvissu fyrir sjúklinga og fæðandi konur. Ekki hafi verið sýnt fram á að flutningur á sjúklingum og fæðandi konum til Reykjavíkur dragi úr kostnaði ríkisins. Þá sé víst að segja verði upp fjölda starfsmanna hjá HSS sem ekki sé á bætandi þar sem atvinnuleysi á Suðurnesjum sé hvað mest á landinu. Þá segir ennfremur í tilkynningunni að framlög ríkisins til HSS í samanburði við önnur sjúkrahús hafi verið lægst og séu enn lægst - og ekki hafi verið tekið mið af nærveru sjúkrahússins við Keflavíkurflugvöll.



Bæjarstjórn Sandgerðis mótmælir niðurskurði á heilbrigðisþjónustu

Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar mótmælir eindregið fyrirhuguðum tillögum um niðurskurð á heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum sem fram koma í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Bókun þessa efnis var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í Sandgerði í gær en hana undirrita allir bæjarfulltrúarnir

Bókunin er svohljóðandi:

„Niðurskurður í heilbrigðisþjónustu er þungt högg fyrir þær þúsundir einstaklinga á Suðurnesjum sem lifað hafa í skugga langvarandi atvinnuleysis og eru að missa heimili sín. Fjárlagatillögurnar eru ávísun á frekara atvinnuleysi 60 -100 manna þar sem heilbirgðisstarfsmönnum verður bætt í raðir atvinnulausra og hætta er á því að mannauður hverfi úr landi.

Heilbrigðisþjónusta við íbúa verður stórlega skert ef fram fer sem horfir. Fæðingardeild og sjúkradeild leggjast af. Heimahjúkrun riðar til falls. Þessar þrjár mikilvægu stoðir í heilbrigðisþjónustu við íbúa Suðurnesja eru að bresta.
Þessar aðgerðir koma í kjölfar umdeildra lokana heilsugæslustöðva í Sandgerðisbæ, Sveitarfélaginu Garði og Sveitarfélaginu Vogum.

Benda má á að framlög ríkisins til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í samanburði við aðrar heilbrigðisstofnanir hafa hlutfallslega verið og eru ennþá lægri en til annarra heilbrigðisstofnana miðað við íbúafjölda og enn hefur ekki verið tekið mið af nærveru stofnunarinnar við Keflavíkurflugvöll í fjárveitingum til hennar.

Engin sparnaðarrök mæla með því að flytja nærþjónustu við aldraða sjúka, fæðandi konur, hjartasjúklinga, krabbameinssjúklinga, líknandi meðferð deyjandi sjúklinga, lungnasjúklinga, sjúklinga í endurhæfingu og aðra sjúka og langveika af svæðinu, þegar sýnt hefur verið fram á að þessir þættir eru hagkvæmar reknir á HSS en LSH.
Það er einnig vandséð hvaða þjóðhagfræðilegu rök hníga að því að hagkvæmara geti verið að flytja slíka þjónustu fjær notendum og ætla þeim og ættingjum þeirra 100 km akstur í hverri heimsókn.

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra voru höfð skýr orð um að vilji stjórnvalda standi til að starfa með íbúum Suðurnesja að lausnum á fjölþættum vanda af völdum efnahagskreppu og atvinnuleysis. Hér er tækifæri til að athafnir fylgi orðum.

Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar skorar á þingmenn Suðurkjördæmis, þingheim allan og Ríkisstjórn Íslands að koma í veg fyrir að niðurskurðartillögur þessar verði að veruleika.

Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar, sign.
Sigursveinn B. Jónsson, sign.
Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, sign.
Guðmundur Skúlason, sign.
Magnús S. Magnússon, sign.
Guðrún Arthúrsdóttir, sign.
Þjóðbjörg Gunnarsdóttir, sign.
Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri, sign.“