Fréttaskýring: Mýmörg tækifæri þrátt fyrir bágt atvinnuástand á Suðurnesjum
Um 150 íslenskum starfsmönnum hefur verið sagt upp störfum hjá varnarliðinu frá því í október í fyrra. Þá var um 105 starfsmönnum sagt upp störfum í einu. Með reglulegu millibili hefur fleiri verið sagt upp störfum. Greint var frá því í vikunni að 21 einum starfsmanni yrði sagt upp um næstu mánaðarmót.
Þungt hljóð er í Suðurnesjamönnum vegna þessara uppsagna og einnig vegna atvinnuástandsins á svæðinu en atvinnulausir á Suðurnesjum eru um 300 talsins. Konur eru í miklum meirihluta atvinnulausra eða tæplega 200 og rúmlega 100 karlar. Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun hefur atvinnuleysi á Suðurnesjum aukist mikið frá árinu 2002 en í janúar það ár voru tæplega 200 manns atvinnulausir á Suðurnesjum. Í janúar á þessu ári voru atvinnulausir alls tæplega 400 og hefur atvinnuleysi á Suðurnesjum því tvöfaldast á tveimur árum sé miðað við janúarmánuð. Mest atvinnuleysi mælist á Suðurnesjum á landinu öllu eða um 3,7%.
Varnarliðið skipt miklu í gegnum árin
Vera Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hefur síðustu áratugina skipt Suðurnesjamenn miklu máli í atvinnulegu tilliti. Hundruð Suðurnesjamanna starfa í þjónustu við varnarliðið og hefur vera varnarliðsins á svæðinu átt stærstan þátt í uppbyggingu á svæðinu síðustu áratugina.
Í kjölfar Íraksstríðsins var varnarliðinu gert að spara í rekstri herstöðvarinnar vegna kostnaðar bandaríkjahers við stríðið í Írak. Frá árinu 2001 hefur ekki tekist að ná samningum um það hvernig starfsemi varnarliðsins skuli háttað. Árið 2001 rann úr gildi samkomulag frá árinu 1996 sem kvað á um lágmarks viðveru hersins hér á landi. Heimildir Víkurfrétta herma að enn frekari niðurskurður sé boðaður innan margra deilda varnarliðsins þegar nýtt fjárhagsár tekur gildi þann 1. október á þessu ári. Gert er ráð fyrir 10-40% niðurskurði innan vissra deilda.
Funduðu með utanríkisráðherra
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur átt fund með Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra vegna málsins, en ljóst er að samningar við Bandaríkjastjórn munu ekki liggja á borðinu næstu mánuðina. Hefur utanríkisráðherra látið hafa það eftir sér að eiginlegar viðræður við Bandaríkjastjórn muni ekki hefjast fyrr en á næsta ári. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur óskað eftir fundi með Davíð Oddssyni forsætisráðherra vegna málsins.
Þrátt fyrir þá erfiðleika sem nú steðjar að í atvinnumálum á Suðurnesjum er mikil uppbygging á svæðinu. Uppbygging Reykjanesvirkjunar er hafin og fjármögnun Stálpípuverksmiðju í Helguvík er á lokastigi. Það er ljóst að á byggingartíma virkjunarinnar skapast upp undir eitt hundrað störf og um 200 störf skapast ef Stálpípuverksmiðjan verður að veruleika.
Stigminnkandi atvinnuleysi
Að sögn Ketils Jósefssonar forstöðumanns svæðisvinnuvinnumiðlunar Suðurnesja fer atvinnuleysi stigminnkandi þegar líður á sumarið. Sumarafleysingar hjá stofnunum og fyrirtækjum eigi þar stóran þátt, en einnig að sveitarfélög á svæðinu hafi verið öflug í að sækja um átaksverkefni sem geri það að verkum að allt skólafólk fái vinnu. „Samstarfsverkefni atvinnuleysistryggingasjóðs og sveitarfélaganna á svæðinu hafa miðað í þá átt að gera nánasta umhverfi okkar vistvænna og aðgengilegra,“ segir Ketill en hvað sér hann fyrir sér að hægt verði að gera varðandi bágt atvinnuástand? „Svona eru breytingarnar örar. Þetta svæði var mikið framleiðslusvæði á árum áður, en nú gengur allt út á þjónustu. Mín trú er að fyrir hvert starf sem tapast á vellinum ættum við að geta margfaldað, því við eigum að geta séð möguleikana sem eru hér fyrir hendi.“
Fjölmörg tækifæri
Þrátt fyrir þungt hljóð í íbúum Suðurnesja vegna atvinnuástandsins horfa margir bjartsýnum augum til þeirra möguleika sem til staðar eru og öðrum sem unnið er að. Talað er um Helguvík sem eitt helsta framtíðarsvæði iðnaðar á landinu og eru nokkur stór erlend fyrirtæki að skoða möguleika á uppbyggingu þar. Lega landsins hentar alþjóðlegum framleiðslufyrirtækjum vel þar sem stutt er til Evrópu og Ameríku. Flugvöllurinn mun áfram verða ein helsta stoð atvinnulífsins á svæðinu og á næstu árum mun störfum þar fjölga í takti við aukinn ferðamannastraum til landsins. Rætt hefur verið um mikla möguleika svæðisins hvað varðar ferðaþjónustu og eru nú þegar uppi ýmsar hugmyndir sem miða að því að draga erlenda ferðamenn á svæðið þegar þeir eru á leið til eða frá Keflavíkurflugvelli. Uppbygging íþróttaakademíu í Reykjanesbæ er á teikniborðinu þar sem gert er ráð fyrir íþróttaháskóla. Ef þær hugmyndir ná fram að ganga er ljóst að tækifærin liggja víða á þeim vettvangi. Með þeim stórframkvæmdum sem Hitaveita Suðurnesja er nú að hefja með byggingu Reykjanesvirkjunar styrkir fyrirtækið sig enn frekar í sessi. Miklar væntingar eru gerðar til fyrirtækisins um að það stuðli að enn frekari atvinnuuppbyggingu í samstarfi við önnur fyrirtæki á svæðinu.
Í haust mun án efa fjölga á atvinnuleysisskránni á Suðurnesjum því þá dregur úr sumarvinnu fólks og sýnir reynslan að þá bætist verulega við skrána. Tíminn verður að leiða það í ljós hvort frekari uppsagnir verði hjá varnarliðinu á næstu mánuðum. Í hugum vel flestra Suðurnesjamanna er nauðsynlegt að bregðast við auknu atvinnuleysi á Suðurnesjum af hörku.
Víkurfréttir leituðu til nokkurra aðila á Suðurnesjum og spurðu: Hvað þarf að gera að þínu mati?
Guðbrandur Einarsson bæjarfulltrúi Samfylkingar og formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja
„Er það ekki orðið augljóst að herinn sé að fara? Verðum við Íslendingar ekki að fara að krefjast þess að fá að koma að því máli? Einfaldlega til þess að koma í veg fyrir þann stórkostlega skaða sem starfsmenn verða fyrir með þeim hætti sem allt útlit er fyrir. Það þarf að finna ný verkefni og vekja upp nýja hugsunarhátt. Við erum alltaf að velta því fyrir okkur hvort herinn verði eða fari. Við eigum að krefjast þess að fá skýrar línur í þessi mál þó að það þjóni ekki endilega stundarhagsmunum okkar.“
Hjálmar Árnason alþingismaður í Suðurkjördæmi
„Við þurfum að horfa með bjartsýni á þau tækifæri sem hér eru. Hér þarf að leggja fram þolinmótt áhættufjármagn vegna nýsköpunar og gefa fyrirtækjum og nýsköpunarsprotum tækifæri til að blómstra hér. Í fyrra kallaði ég saman fyrrverandi nemendur mína úr FS og fleiri aðila þar sem við fórum af stað með hugflæði um hvað hægt væri að gera á svæðinu. Þær hugmyndir sendum við Stjórn sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og til verkalýðsfélaga hér. Ég hef nú ekki orðið mikið var við að eitthvað hafi verið gert við þessar hugmyndir.
Hér er margt jákvætt að gerast. Hjá Flugstöð Leifs Eiríkssonar vinna hátt í 900 manns. Störfum í kringum Flugstöðina mun enn fjölga á næstu árum.
Það þarf að setja bandaríkjamönnum úrslitakosti um hvað þeir ætli að gera þannig að Suðurnesjamenn geti þá lagað sig að þeim aðstæðum, hvort sem að hér verði varnarstöð áfram eða ekki. Það þarf að ákveða með hvaða hætti eigi að nýta þá aðstöðu sem hér er. Í lokin vil ég segja að ég vil innanlandsflugið hingað.“
Þorsteinn Erlingsson formaður atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar
„Herinn er að draga saman, það sjá nú allir, en ég tel ekki að hann sé á förum eins og talsmaður Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill. Ég hef áhyggjur af því að það sé að draga saman hjá verktakafyrirtækjum sem þjóna hernum og þjónustufyrirtækjum. Við þurfum að fá stóra vinnustaði á svæðið sem yrðu til staðar vonandi til frambúðar og þar nefni ég t.d. álver. Það er alveg ljóst að ríkið þarf að koma að málum hér á svæðinu með margvíslegum hætti. Til dæmis gætu þeir selt okkur hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja á viðráðanlegu verði og að fjármagnið færi í verkefni hér á svæðinu. Um leið myndi félagsmálaráðherra láta reyna á sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum, eins og hann hefur á stefnuskrá sinni. Það myndi styrkja svæðið mikið.“
Myndir: Frá borun á Reykjanesi fyrir Reykjanesvirkjun. VF-ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson.
Skipulagsmynd af svæðinu sem Íþróttaakademían á að rísa. Mynd af lóð IPT í Helguvík sem er tilbúin. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.
Texti: Jóhannes Kr. Kristjánsson