Fréttaannáll 2023
Ár hamfara og eldsumbrota
Árið 2023 fer í sögubækurnar sem ár hamfara og eldsumbrota á Reykjanesskaga. Tvö eldgos urðu á árinu. Það hefur ekki gerst á Íslandi síðan 1981, þegar tvö gos urðu í Kröflueldum. Annað gosið á árinu varð við Litla-Hrút og hófst 10. júlí. Það stóð til 5. ágúst. Hitt gosið varð á næstum fjögurra kílómetra langri sprungu við Sundhnúkagígaröðina, norðan Grindavíkur, og hófst að kvöldi 18. desember. Það hófst með miklum krafti og var langöflugasta gosbyrjun af þeim fjórum eldgosum sem orðið hafa á Reykjanesskaganum síðan 2021. Jafn kröftuglega og það hófst, var gosið yfirstaðið um 50 klukkustundum síðar. Atburðarásinni er ekki lokið, því landris hófst strax eftir gos og þegar þetta er skrifað á öðrum degi ársins 2024 er búist við eldgosi sem getur hafist fyrirvaralaust með upptök á svipuðum slóðum og gosið sem hófst 18. desember.
Hér er farið yfir helstu fréttir ársins 2023 á Suðurnesjum. Það verður að viðurkennast að flestar falla þær þó í skugga þeirra atburða sem orðið hafa í náttúrunni í og við Grindavík á síðustu vikum nýliðins árs.
Fjölga nýjum hjúkrunarrýmum úr 60 í 80
Drög að viðauka við samning milli heilbrigðisráðuneytis og Reykjanesbæjar um byggingu hjúkrunarheimilis á Nesvöllum í Reykjanesbæ voru lögð fram á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar í ársbyrjun. Viðaukinn felur meðal annars í sér fjölgun hjúkrunarrýma úr 60 í 80.
Aukin umsvif á alþjóðaflugvellinum í Suðurnesjabæ
„Eftir samdráttartíma frá falli WOW Air 2019 og síðan heimsfaraldur Covid-19 sem hófst í ársbyrjun 2020, sem olli samdrætti í atvinnustarfsemi og miklu atvinnuleysi á svæðinu þá hefur á örstuttum tíma orðið alger viðsnúningur. Eftir að öll höft voru aflögð og alþjóðaflug fór aftur á flug, hafa umsvif á alþjóðaflugvellinum í Suðurnesjabæ aukist mjög mikið með jákvæðum áhrifum á ýmsa afleidda atvinnustarfsemi og m.a. leitt til fjölgunar starfa. Gert er ráð fyrir að mikil aukning verði á umsvifum á og við flugvöllinn í nánustu framtíð, en nú standa yfir miklar framkvæmdir við stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til að mæta þeim auknu umsvifum sem fyrirsjáanlegt er að verði,“ sagði Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, í áramótapistli.
Þriðji hver íbúi af erlendum uppruna
Hlutfall íbúa af erlendum uppruna í Reykjanesbæ hefur hækkað og er nú orðið 29%. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, kom inn á mikla íbúafjölgun í bæjarfélaginu á síðustu átta árum í nýársræðu sinni en hún nemur 46%. Því fylgi miklar áskoranir og heimamenn þurfi einnig að aðlagast að nýjum íbúum og þeirra siðum, annars sé hætta á menningarlegum átökum og samfélagið skiptist í hópa og fylkingar.
Sigga Palla er Suðurnesjamaður ársins 2022
„Ég á bara ekki til orð. Vá, hvað ég er glöð,“ sagði Sigríður Pálína Arnardóttir, lyfjafræðingur og eigandi Reykjanesapóteks, sem Víkurfréttir hafa valið Suðurnesjamann ársins 2022. Víkurfréttir hafa í rúma þrjá áratugi staðið fyrir vali á Suðurnesjamanni ársins. Fyrstur til að hljóta nafnbótina var útgerðarmaðurinn Dagbjartur Einarsson úr Grindavík en hann var Suðurnesjamaður ársins 1990. Sigríður Pálína, eða Sigga Palla, hefur rekið Reykjanesapótek frá árinu 2017 og getið sér gott orð á meðal Suðurnesjafólks fyrir einstaka þjónustulund.
60 milljónir í snjóinn
Óvenju mikið fannfergi hefur sett strik í reikning Reykjanesbæjar að undanförnu en ætla má að kostnaður við snjómokstur og -losun í bænum hafi verið um 60 milljónir króna frá miðjum desember 2023 og fram í miðjan janúar 2023. Um var að ræða mestu snjóþyngsli á Suðurnesjum í um fimmtán ár.
Hrun á innviðum á Suðurnesjum í rafmagnsleysi
Ljóst er að tjón vegna rafmagnsleysisins sem varð á Suðurnesjum um miðjan janúar er verulegt. Þegar rafmagn fór af Suðurnesjum í febrúar 2015 var kostnaður vegna þess metinn á annað hundrað milljónir króna. Líklega er það vanmat og Landsnet telur töluna í lægri kantinum hvað tjón varðar. Kostnaður vegna raforkurofs getur hlaupið á hundruðum milljóna en Suðurnesjalína II myndi draga verulega úr áhættunni, að því er fram kom á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum síðasta haust þar sem rætt var um orkuöryggi á Suðurnesjum og mikilvægi Suðurnesjalínu II. Rafmagnsleysið 2015 varði í um tvær klukkustundir en á mánudag var straumlaust í um tvær og hálfa klukkustund.
Íbúar á Suðurnesjum hafa lýst yfir óánægju sinni á samfélagsmiðlum með ástandið á innviðum og Suðurnesjalína 2 verið til umræðu. Það var ekki bara að rafmagn og hiti færi af Suðurnesjum. Netsamband hrundi einnig og sömu sögu er að setja af farsímakerfum.
Suðurnesja Svakasýn gefur bæjarbúum á baukinn
Margir kunnir bæjarbúar Reykjanesbæjar fá á baukinn og tekið er á mörgum málefnum sem brunnið hafa heitt í samfélaginu á undanförnum árum í nýrri revíu Leikfélags Keflavíkur sem ber heitið Suðurnesja Svakasýn. Miðað við undirtektir á frumsýningu síðasta föstudagskvöld er ekki ólíklegt að bæjarbúar muni leggja leið sína í Frumleikhúsið á næstunni. Hér má sjá leikarahópinn og forsvarsfólk félagsins með Eyvindi Karlssyni, leikstjóra í „sviðsmynd“ Hilmars Braga sem er einn af þeim sem fá á baukinn í revíunni.
Settir verði upp gámar á fjölförnum stöðum þegar sorphirða fer úr skorðum
„Starfsfólk í Kölku sem sinnir símsvörun er að bugast undan dónaskap og djöflagangi vegna þessa ástands. Það er þó líka heilmikið um jákvæð samskipti, t.d. við íbúa sem koma með yfirfallið sitt í Helguvík eða á móttökustöðvar í Grindavík og Vogum. Stór hluti íbúanna á svæðinu sér ekkert athugavert við að sorphirða gangi úr skorðum við aðstæður eins og nú eru. Við sem sinnum samskipunum við verktakann getum ekki séð hvað við hefðum getað gengið lengra í því að þrýsta á um úrbætur,“ segir Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri Kölku í svari til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ en sorphirða á Suðurnesjum var mikið í umræðunni á fyrstu vikum ársins 2023.
Hagkvæmasta landeldisstöð í heimi á Reykjanesi
„Við ætlum að byggja hagkvæmustu landeldisstöð í heimi, búa til framúrskarandi afurð og skapa frábæran vinnustað,“ sagði Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis, en fyrirætlanir fyrirtækisins voru kynntar á fundi á Marriott hótelinu í Reykjanesbæ í lok febrúar. Greint var frá þeim í Víkurfréttum 1. mars.
Gert er ráð fyrir að um 100 starfsmenn vinni fjölbreytt störf við landeldið í eldisgarðinum á Reykjanesi. Heildarkostnaður verður um sextíu milljarðar króna. Undirbúningur hefur staðið yfir í þrjú ár. Stefnt er að því að ljúka fullnaðarhönnun á árinu og fyrsta skóflustunga verði í haust. Framkvæmdir munu hefjast í beinu framhaldi og er áætlað að byggja eldisgarðinn í þremur áföngum og framkvæmdum verði lokið árið 2032. Húsnæði Eldisgarðsins verður á ströndinni nálægt Reykjanesvirkjun.
Álversbyggingu breytt í grænan iðngarð
Nýverið var gengið frá kaupum Reykjanesklasans ehf. á byggingum Norðuráls í Helguvík. Húsnæðið sem er um 25 þúsund fermetrar að grunnfleti hefur staðið autt um árabil. Ætlunin er að húsnæðið verði um 35 þúsund fermetrar þegar umbreytingu þess er lokið. Reykjanesklasinn fyrirhugar að koma þar upp „Græna iðngarðinum“ sem hýst getur innlend og erlend fyrirtæki sem þurfa rými fyrir sprotastarf, rannsóknar- og tilraunastarfsemi, þróun, framleiðslu og samsetningu á vörum eða aðstöðu fyrir fiskeldi og ræktun, svo eitthvað sé nefnt. Stofnendur Reykjanesklasans eru Keflvíkingurinn Kjartan Eiríksson og Þór Sigfússon, sagði í frétt í Víkurfréttum í mars.
Holtaskóla lokað og kennslu dreift um Reykjanesbæ
Tekin var ákvörðu á dögunum um að loka Holtaskóla vegna loftgæða og byggingarframkvæmda. Kennsla í 1.–3. bekk er í íþróttahúsi Keflavíkur og kálfum við Holtaskóla. Í Hljómahöll og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru 4.–7. bekkur. Þá er skólastarf í 8.–10. bekk í Keili á Ásbrú. Byggingarnefnd vegna rakaskemmda í stofnunum Reykjanesbæjar fundar stíft um þessar mundir en bregðast þarf við myglu og rakaskemmdum í nokkrum skólastofnunum í bæjarfélaginu, sagði í frétt um miðjan mars.
Leikskólinn fylltist af snjó í óveðri
Almannavarnarástand skapaðist í Suðurnesjabæ í snjóþyngslum í desember. Suðurnesjabær var einangraður í fjóra sólarhringa. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri samantekt sem Almannavarnir Suðurnesja utan Grindavíkur hafa unnið. Ein af birtingamyndum snjóþyngslana í Suðurnesjabæ eru aðstæður sem sköpuðust við leikskóla sem er í byggingu við Byggðaveg í Sandgerði. „Leikskólinn fylltist af snjó,“ segir Bragi Guðmundsson, húsasmíðameistari, sem byggir leikskólann. „Það eru stórir gluggar að norðan- og austanverðu og við settum mótaflekana aftur fyrir þá til að verjast áhlaupinu. Þá kom bara snjórinn af heiðinni og fyllti að húsinu. Það myndaðist fimm metra hár skafl og snjórinn fór yfir þakið og sogaðist inn í húsið að framanverðu. Það fylltist það mikið að snjórinn náði upp undir loftaplötu,“ sagði í frétt af ástandinu í mars.
Mikið eignatjón í eldsvoða
Sextán slökkviliðsmenn börðust við eld í einbýlishúsi í Garði á föstudaginn langa. Tilkynning barst til Neyðarlínunnar kl. 16:37 þar sem tilkynnt var um mikinn svartan reyk frá íbúðarhúsi við Valbraut í Garði. Það voru nágrannar sem tilkynntu um eldinn. Bílar frá Brunavörnum Suðurnesja og lögreglunni á Suðurnesjum voru þegar send á staðinn.
Þegar slökkvilið kom á staðinn var mikill hiti í húsinu. Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að ljóst væri að þarna hafi eldur náð að loga lengi áður en hans varð vart.
Sameinast um keppnisvöll í Reykjanesbæ
Stjórnir Knattspyrnudeilda UMFN og Keflavíkur hafa tekið vel í erindi starfshóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja og svæða í Reykjanesbæ sem gerir ráð fyrir sameiginlegum keppnisvelli félaganna. Viðræður milli félaganna og starfshópsins um uppbygginguna eru hafnar. Þá hefur starfshópnum borist yfirlýsing frá báðum deildum þar sem þær styðja tillögu starfshóps um sameiginlegan keppnisvöll. Þetta kemur fram í skýrslu starfshópsins sem kynnt var fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar og greint var frá í Víkurfréttum síðla aprílmánaðar.
Einn maður lést í eldsvoða í skipi
Einn maður lést þegar eldur kom upp í fiskiskipinu Grímsnesi GK í Njarðvíkurhöfn í apríl. Sjö voru um borð í skipinu þegar eldurinn kom upp en fjórir komust strax af sjálfsdáðum frá borði. Tveir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun
Suðurnesja, HSS. Endurlífgunartilraunir á þeim þriðja á vettvangi báru ekki árangur. Hann var einnig fluttur á HSS þar sem hann var úrskurðaður látinn. Hinn látni er pólskur karlmaður á fimmtugsaldri. Hann lætur eftir sig eiginkonu og börn í Póllandi. Einn var svo fluttur frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á Landspítalann. Ástand hans var alvarlegt við komuna á Landspítala og honum er haldið sofandi.
Eitt eldsneytisskip á mánuði fyrir Keflavíkurflugvöll
Yfir sumarmánuðina eru skipakomur eldsneytisflutningaskipa til Helguvíkurhafnar tíðari en aðra mánuði ársins. Í júnímánuði var skipið Al Adailiah frá Kúveit með fullfermi af flugvélaeldsneyti í Helguvík. Skipið er 183 metrar að lengd, rúmir 32 að breidd og ristir átta metra. Það getur flutt ríflega 48.500 tonn.
Skipafloti Landhelgisgæslunnar verður í Njarðvíkurhöfn
Viljayfirlýsing um uppbyggingu á framtíðaraðstöðu fyrir skipaflota Landhelgisgæslunnar í Njarðvíkurhöfn var undirrituð af dómsmálaráðherra, fulltrúa Landhelgisgæslunnar og Reykjaneshafnar á Marriott hótelinu í Reykjanesbæ í lok maí. Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, sagði að um sé að ræða framtíðarlausn fyrir skipaflota gæslunnar og að eftir um það bil tvö til þrjú ár verði skipaútgerð Landhelgisgæslunnar alfarið flutt í Njarðvíkurhöfn en gæslan fagnar aldarafmæli í júní 2026. Mikill áhugi er hjá bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ að gera Reykjaneshöfn að heimahöfn Landhelgisgæsluskipa. Aðstaðan er hentug að mörgu leyti; einungis 6-7 mínútna aksturfjarlægð frá aðstöðu Landhelgisgæslu Íslands á Keflavíkurflugvelli og gott samgöngunet við höfuðborgarsvæðið.
100 ára Gunnar umvafinn ást
Gunnar Jónsson fagnaði 100 ára afmæli í byrjun maí. Í frétt á forsíðu Víkurfrétta í maí sagði að hann er einn sex núlifandi Suðurnesjamanna sem eru 100 ára eða eldri og það má fullyrða hér að sú staða hafi ekki komið upp áður hér suður með sjó. Breytingar urðu á þeim hópi á árinu en um áramót voru hópur 100 ára og eldri kominn í fjóra einstaklinga. Á myndinni að ofan er Gunnar með dætrum sínum í afmælisfagnaðinum sem fram fór á Nesvöllum. Á myndinni eru f.v.: Kolbrún Jenný, Sigríður, Hulda Sigurbjörg, Gunnar, Jóhanna Helga og Lovísa Steinunn.
Mikið magn fíkniefna í skútu í Sandgerði
Mikið magn fíkniefna fannst um borð í skútu undan suðurströnd Íslands undir lok júní. Komið hefur fram að það hafi verið tugir kílóa af hassi. Tveir voru handteknir um borð í skútunni og sá þriðji í landi.
Landsnet og Sveitarfélagið Vogar semja
Sveitarfélagið Vogar og Landsnet hafa komist að samkomulagi um lagningu á Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu og að samhliða verði unnið að undirbúningi þess að leggja Suðurnesjalínu 1 í jörðu. Þegar Suðurnesjalína 2 verður komin í rekstur verður ráðist í fyrsta áfanga þess verkefnis sem felur í sér að Suðurnesjalína 1 verði lögð í jörðu á um fimm kílómetra kafla á milli Grindavíkurvegar og Vogaafleggjara. Strengframkvæmdin er jafnframt fyrsti áfanginn í að styrkja tengingu Sveitarfélagsins Voga vegna mögulegrar tenginga stærri notenda við flutningskerfið í sveitarfélaginu.
Eldur og eimyrja
Eldgosið við Litla-Hrút var í sviðsljósinu í júlí, enda einstakt sjónarspil sem hófst á Reykjanesskaganum þann 10. júlí. Náttúruöflin láta krafta sína berlega í ljós og hafa slökkviliðsmenn unnið hörðum höndum við að slökkva gróðurelda við gosstöðvarnar – einhverja þá mestu í manna minnum. Ljósmynd/Jón Þorkell Jónasson
Fjögurþúsund í Suðurnesjabæ
Suðurnesjabær er ört vaxandi sveitarfélag og íbúum fjölgar jafnt og þétt. Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár er íbúafjöldi í Suðurnesjabæ kominn yfir 4.000, nánar tiltekið alls 4.005 um mánaðamót ágúst og september. Þegar Suðurnesjabær varð til við sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs fyrir fimm árum var íbúafjöldinn um 3.400. Íbúum hefur því fjölgað um 600 manns á þessum árum, eða um 17,5%.
Ný einkarekin heilsugæsla opnar við Aðaltorg
„Við erum nýtt blóð í heilsugæsluþjónustu á Suðurnesjum og horfum á opnun nýrrar einkarekinnar heilsugæslu sem langtímaverkefni á svæði sem er í miklum vexti og uppgangi,“ segja þeir Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri, og Þórarinn Ingólfsson, yfirlæknir Heilsugæslunnar Höfða Suðurnesjum, sem opnaði 11. september.
Sextugur Klemenz hljóp tuttugu ferðir upp Þorbjörn
Klemenz Sæmundsson, sem varð sextugur 4. september, stóð við stóru orðin og fór tuttugu ferðir á hið þekkta grindvíska fell Þorbjörn. Hver ferð upp og niður er þrír kílómetrar og tuttugu ferðir því 60 kílómetrar.
Merki um landris á Reykjanesskaga
Merki um landris er farið að sjást á Reykjanesskaga eftir að eldgosinu við Litla-Hrút lauk í byrjun ágúst. Sérfræðingar á Veðurstofunni segja að þeim sýnist á GPS-mælum að landrisið sé á svipuðum slóðum og fyrir síðasta gos í sumar. Þó er aflögun ennþá of lítill til að hún sjáist á gervitunglamyndum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands seint í september.
Reykjanesbær tekur vel í sameiningaráhuga Voga
Sveitarfélagið Vogar segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð frá Reykjanesbæ varðandi hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna en Vogar hafa sent öllum sveitarfélögunum erindi þar sem óskað er eftir viðræðum.
Handtekinn eftir hnífstungu
Lögreglan á Suðurnesjum naut aðstoðar sérsveitarmanna þegar tilkynnt var um hnífstunguárás í húsnæði hælisleitenda við Lindarbraut á Ásbrú í Reykjanesbæ í október. Fjölmennt lið lögreglu var sent á vettvang ásamt sérsveitarmönnum og sjúkraflutningamönnum.
Konur fylltu Krossmóa í kvennaverkfalli
Konur og kvár fjölmenntu í Krossmóa í Reykjanebæ í hádeginu á þriðjudag í upphitunarviðburð fyrir dagskrá sem fram fór á Arnarhóli í Reykjavík. Hundruð tóku þátt í viðburðinum í Krossmóa og var anddyrið fyrir framan verslanir í húsinu þéttskipað.
Bylting í aðbúnaði fyrir sjúklinga og starfsfólk á nýjum deildum HSS
Ný slysa- og bráðamóttaka hefur formlega verið tekin í notkun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við sama tækifæri opnaði einnig ný nítján rýma sjúkradeild á stofnuninni. Bylting hefur orðið á slysa- og bráðamóttöku HSS með opnun móttökunnar á jarðhæð D-álmunnar. Starfssemin fer úr um 90 fermetra rými sem var orðið barn síns tíma og yfir í um 300 fermetra rými. Þar eru rúmgóðar bráða- og slysastofur auk einangrunarherbergja, góðrar biðstofu fyrir sjúklinga og góðrar starfsmannaaðstöðu. Á sjúkradeildinni eru nítján rúmgóðar stofur eða herbergi með stórum baðherbergjum. Hver einkastofa er útbúin með sérstakri lyftu sem auðveldar rúmliggjandi sjúklingum að komast inn á baðherbergin. Þá verða settir upp margmiðlunarskjáir við öll rúm. Þar geta sjúklingar horft á sjónvarp eða vafrað um netheima.
Lögreglustöðinni lokað vegna raka og myglu
Lögreglan á Suðurnesjum hefur lokað lögreglustöðinni við Hringbraut í Keflavík vegna raka og myglu. Lögreglustöðinni var skellt í lás í um miðjan október. Reyna á að nota hluta húsnæðisins við Hringbraut áfram, t.a.m. fangageymslur. Þar þarf að tryggja góð loftgæði og aðstöðu fyrir lögregluvakt á meðan fangar eru í húsinu.
Land rís og jörð skelfur í óvissuástandi við Grindavík
Öflug jarðskjálftahrina hófst aðfaranótt miðvikudagsins 25. október skammt norðan við Grindavík. Yfir eitt þúsund jarðskjálftar mældust á fyrstu klukkustundum hrinunnar en stærsti skjálftinn upp á M4,5 varð að morgni miðvikudagsins.
Útiloka ekki að kvika nái upp
Jarðskjálftahrina við Þorbjörn sem hófst að morgni 31. október og stóð yfir í tæpa tvo klukkutíma sýndi öra virkni. Stærsti skjálftinn í hrinunni mældist M3,7. Miðja hrinunnar var rétt austan við miðju landrissins sem mælst hafði og hófst seint í október. Skýrt merki var um kvikuhlaup, þ.e.a.s. að kvika sé á hreyfingu. GPS mælingar styðja þá túlkun að um kvikuhlaup hafi verið að ræða.
Kröftugri atburður en við höfum áður séð á þessu svæði
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir að það sé túlkun Veðurstofunnar að umbrotin við Grindavík séu kröftugri atburður en vísindamenn hafi áður séð á þessu svæði. Almannavarnir héldu upplýsingafund í fyrstu viku nóvember þar sem farið var yfir stöðu mála vegna þeirra jarðhræringa sem nú eru í gangi á Reykjanesskaganum. Hrina hófst með landrisi við Þorbjörn 25. október síðastliðinn.
Miklar hamfarir í Grindavík og neyðarstigi lýst yfir
Neyðarstigi var lýst yfir í Grindavík að kvöldi föstudagsins 10. nóvember og bærinn var rýmdur. Klukkustundirnar á undan höfðu miklar hamfarir gengið yfir Grindavík. Öflug og nær óstöðvandi jarðskjálftahrina hafði gengið yfir, þannig að íbúum var varla vært í bænum. Af þeim sökum höfðu margir yfirgefið Grindavík og farið í það sem heimamenn hafa kallað skjálftafrí. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, sagði á þessum tímapunkti að ekki sé hægt að útiloka að kvikugangur nái að Grindavík. Raunin varð sú að fimmtán kílómetra langur kvikugangur myndaðist og náði úr sjó í suðvestri og til norðausturs í gegnum Sundhnúkagígaröðina. Rýmingu bæjarins var lokið á einni og hálfri klukkustund. Á næstu dögum komu í ljós miklar skemmdir á innviðum í Grindavík. Stórar sprungur voru víða í bænum og fjölmargar fasteignir voru skemmdar.
Löng bið eftir eldgosi
Frá því Grindavík var rýmd þann 10. nóvember var löng og mikil bið eftir því sem verða vildi. Búist var við eldgosi á næstu dögum og land hélt áfram að rísa í Svartsengi og á nálægum mælistöðvum. Þegar mönnum var að bresta þolinmæðin í biðinni eftir eldgosi og jafnvel var talið að atburðurinn væri að lognast útaf, braust út eldgos mánudagskvöldið 18. desember. Upphaf gossins var gríðarstórt. Eldveggurinn var næstum fjórir kílómetrar að lengd og gosið var ægifagurt en á sama tíma ógnvekjandi. Gosið stóð í um 50 klukkustundir og lognaðist þá útaf. Landris var hafið að nýju og nú er þess beðið sem verða vill.