FRESTUM FJÖLNOTA ÍÞRÓTTAHÚSI
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar endurflutti minnihlutinn tillögu, sem felld hafði verið í bæjarráði, þar sem lagt er til að byggingu fjölnota íþróttahúss verði frestað um ótilgreindan tíma og gerð verði könnun á því hvaða áhrif það hafi á greiðslugetu bæjarins varðandi önnur stórverkefni og a.m.k. þar til 3 ára framkvæmdaáætlun liggi fyrir.Í greinargerð sem fylgir henni er bent á það svigrúm sem myndast hefur vegna óska allra verktakanna, sem taka þátt í útboðinu, um frest til að skila tilboðum. Einnig leggur minnihlutinn áherslu á að metin verði áhrif þessarar framkvæmdar á fjárhag bæjarins í framtíðinni. Að gefnu tilefni bentu þeir á áhyggjur fjármálaráðherra í ræðu sem hann flutti nýlega á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármál sveitarfélaganna. Þar sagði hann m.a.:Með einkaframkvæmd gefst kostur á því að dreifa stofnkostnaði á mun lengri tíma en áður hefur tíðkast hjá hinu opinbera. Þessu fylgir margvíslegt hagræði, en einnig sú hætta að slakað sé á kröfu um arðsemi eða að los komist á forgangsröðun verkefna. Einstaka aðilar kunna með öðrum orðum að líta svo á að með einkaframkvæmd og einkafjármögnun sé hægt að flýta framkvæmdum og jafnvel að ráðast í framkvæmdir sem ella kæmu ekki til álita vegna mikils kostnaðar og lágrar arðsemi.”Ekki virtust þessi orð bíta neitt á meirihlutann því tillagan var felld og útboðsfrestur til að skila tilboðum var lengdur til 4. janúar n.k.