Fresta ber staðfestingu deiliskipulagsbreytingarinnar
-segir Pétur Ármannsson arkitekt og sviðstjóri hjá Minjastofnun Íslands. - Verður Sundhöll Keflavíkur rifinn?
Sundhöll Keflavíkur hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarnar vikur. Fyrir umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar liggur tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir að húsið verði rifið. Stór hópur áhugamanna um verndun Sundhallarinnar berst nú gegn niðurrifi hússins og hvetur bæjaryfirvöld til þess að staldra við og hafna deiliskipulagsbreytingunni. Ragnheiður Elín Árnadóttir, Keflvíkingur og fyrrverandi ráðherra hefur stofnað hóp á Facebook sem telur þegar þetta er skrifað rúmlega tvö þúsund manns. Hópurinn stendur fyrir opnum fundi á fimmtudaginn þar sem m.a. stendur til að undirbúa stofnun Hollvinasamtaka um verndun Sundhallarinnar. Einn frummælenda á fundinum verður Pétur Ármannsson, arkitekt og helsti sérfræðingur landsins í verkum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins sem teiknaði Sundhöllina á sínum tíma. Pétur vinnur nú að bók um Guðjón og verk hans og lék Víkurfréttum forvitni á að heyra í Pétri um Sundhöllina og þá stöðu sem málið er í.
Í umræðum um örlög gömlu Sundhallar Keflavíkur hér á svæðinu hafa ýmsir dregið það í efa að hún sé í raun eftir Guðjón Samúelsson. Hvert er þitt mat?
Teikningin af Sundhöll Keflavíkur var undirrituð af Guðjóni Samúelssyni og Bárði Ísleifssyni árið 1947. Guðjón Samúelsson var skipaður húsameistari ríkisins árið 1920 og gegndi embættinu til dauðadags árið 1950. Hann bar faglega og listræna ábyrgð á öllum þeim verkefnum sem embættinu var falið að hanna á þessu 30 ára tímabili. Guðjón er höfundur allra þeirra bygginga sem frá embættinu komu í hans embættistíð og undirskrift hans staðfestir það. Venjan var að þeir starfsmenn embættisins sem komu að hönnun eða teiknivinnu við einstakrar byggingar rituðu nöfn sín á teikningar ásamt húsameistara. Bárður Ísleifsson vann að hönnun Sundhallarinnar sem starfsmaður húsameistara ríkisins og á því ekki tilkall til sjálfstæðs höfundarréttar af byggingunni. Öðru máli hefði gengt ef Bárður hefði komið að verkefninu sem sjálfstætt starfandi arkitekt.
Hringlaga gluggar sem eru á Sundhöllinni eru þar nefndir til sem rök í málinu?
Hringgluggar voru algengir á göngum og votrýmum bygginga á þeim árum sem Sundhöll Keflavíkur var byggð. Vafasamt er að draga of miklar ályktanir um listrænt framlag arkitekta út frá einu tilteknu atriði í útliti þeirra.
Guðjón Samúelsson var afkastamikill arkitekt og má víða um land finna byggingar eftir hann.Við þekkjum öll frægustu byggingarnar, Landspítalann, aðalbyggingu Háskóla Íslands, Hallgrímskirkju, Sundöll Reykjavíkur, en færri vita að í Reykjanesbæ eru þrjár byggingar eftir Guðjón, Sjúkrahús Keflavíkur, Myllubakkaskóli auk Sundhallarinnar. Nú ert þú að skrifa bók um Guðjón og taka saman heildaryfirlit yfir verk hans - hversu mikilvægar eru þessar byggingar í þeirri heildarsögu?
Í mörgum bæjum landsins er að finna eina eða fleiri opinberar byggingar sem embætti húsameistara ríkisins teiknaði í tíð Guðjóns: skóla, kirkjur, sjúkrahús, embættisbústaði og íþróttamannvirki. Flestar þessara bygginga falla ekki undir friðunarákvæði laga um menningarminjar þar sem þær eru ekki orðnar 100 ára gamlar. Engu að síður hafa þær varðveislugildi vegna byggingarlistar og sem hluti af sögu viðkomandi byggðarlags. Dæmi eru um að varðveisla þeirra hafi verið staðfest með hverfisverndarákvæðum í skipulagi. Sú var raunin t.d. með Húsmæðraskólann á Akureyri sem er frá svipuðum tíma og byggingarnar þrjár í Keflavík. Nýlega var haldin samkeppni um endurbætur og stækkun á Sundhöll Ísafjarðar þar sem sérstakt tillit var tekið til verndargildis hússins. Sundhöll Reykjavíkur er friðlýst bygging og húsafriðunarnefnd hefur veiti styrki til endurbóta á Sundhöll Seyðisfjarðar, sem Guðjón teiknaði. Ofangreindar þrjár laugar eru enn í fullri notkun sem og Sundhöll Hafnarfjarðar.
Nú liggur fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi þar sem farið er fram á niðurrif Sundhallarinnar - hver er þín skoðun á því, telur þú bygginguna varðveisluverða? Telur þú að bygging af þessu tagi geti með endurbótum þjónað almenningi?
Í umsögn Minjastofnunar Íslands um gömlu Sundhöllina í Keflavík frá 25. október 2016 kemur fram að stofnunin telur mannvirkið hafa varðveislugildi, bæði frá sjónarhóli byggingarsögu og menningarsögu sem vitnisburður um bað- og sundmenningu Íslendinga og Keflvíkinga um miðbik 20. aldar. Byggingin er hönnuð til að þjóna almenningi og ýmsir möguleikar eru á aðlögun hennar að breyttu hlutverki.
Mikil andstaða hefur komið fram á síðustu dögum og vikum við þessi áform meðal íbúa Reykjanesbæjar og farið er fram á að bæjaryfirvöld hafni deiliskipulagsbreytingunni. Telur þú að sú andstaða sé kannski of seint fram komin?
Minjastofnun Íslands fagnar þeim áhuga sem fram er komin á varðveislu laugarinnar meðal íbúa Reykjanesbæjar. Að okkar mati ber að fresta staðfestingu deiliskipulagsbreytingarinnar svo tími vinnist til að kanna hvort unnt sé að varðveita húsið og finna því verðugt hlutverk. Slíkt getur tekið einhvern tíma og því þurfa yfirvöld að sýna skilning.
Hvað með skaðabótaskyldu bæjarins?
Í gildandi skipulagi er ekki gert ráð fyrir að sundhöllin víki og því enginn forsenda fyrir kröfu um skaðabætur á hendur bæjarins svo lengi sem deiliskipulagsbreyting sem heimilar niðurrif sundhallarinnar verður ekki samþykkt.