Frekari niðurskurður til skoðunar hjá Reykjanesbæ
- Fjárhagsstjórn líklega skipuð náist ekki samningar um niðurfellingu skulda.
Tvísýnt er með fjárhag Reykjanesbæjar þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað og útsvarstekjur aukist. Þetta er meðal þess sem fram kom í viðtali við Kjartan Má Kjartansson, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, á mbl.is í gær. Frekari hagræðing og auknar tekur þurfa að koma til eigi að takast að greiða niður skuldir.
Skuldir Reykjanesbæjar voru um 41 milljarður í lok síðasta árs og hafa ekki lækkað í ár. Takist ekki að semja um niðurfellingu skulda er sá möguleiki fyrir hendi að skipuð verði fjárhagsstjórn yfir sveitarfélagið, skattar hækkaðir meira og þjónusta skert af hálfu þeirrar fjárhagsstjórnar. Í viðtalinu segir Kjartan að fari svo viti hann ekki hvernig málin þróist né hversu eftirsóknarvert það verði fyrir íbúa sem eru að velja sér framtíðarbúsetu að flytja á svæði sem svo er ástatt um.
Í viðtalinu kemur einnig fram að margt jákvætt sé að að gerast í bæjarfélaginu, atvinnuleysi aðeins 2,9 prósent og íbúum hafi fjölgað um 1.000 frá ársbyrjun 2013. Vegna íbúafjölgunarinnar mun þurfa að opna tvo leikskóla og nýjan grunnskóla fyrir árslok 2019.