Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Frekari niðurskurður boðaður hjá Varnarliðinu
Þriðjudagur 28. október 2003 kl. 17:40

Frekari niðurskurður boðaður hjá Varnarliðinu

Meðal sparnaðaraðgerða sem flotastöð Varnarliðsins mun ráðast í á næstunni eru að ekki verður ráðið í stöður sem þegar eru lausar, þjónustu- og verksamningar verða endurskoðaðir og dregið verður úr birgðakaupum, en þetta kemur fram í tilkynningu frá Varnarliðinu.

„Fjárveitingar til Flotastöðvar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafa líkt og fjárveitingar til annarra bækistöðva Bandaríkjaflota um heim allan verið skertar á nýhöfnu fjárhagsári. Skerðingin er liður í tilfærslu fjármuna til endurnýjunar skipa og flugvélaflotans á komandi árum sem að hluta til verður á kostnað bækistöðva flotans. Flotastöðin er um tveir þriðju hlutar varnarliðsins og annast alla þjónustu við aðrar deildir þess, þ.m.t. rekstur flugvallarmannvirkja. Stjórnendur Flotastöðvarinnar hafa leitað leiða til að mæta ofangreindum niðurskurði, sem nemur um 18% af rekstrafé stöðvarinnar, án þess að það bitni á hlutverki varnarliðsins, rekstri Keflavíkurflugvallar, öryggi eða að grípa þurfi til uppsagna eins og kostur er. 74% rekstrarkostnaðar flotastöðvarinnar er þó launakostnaður vegna borgaralegra starfsmanna og reynist því óhjákvæmilegt að grípa til uppsagna 90 starfsmanna sem koma til framkvæmda á næstu mánuðum. Starfsemi varnarliðsins hefur dregist verulega saman undanfarin 10 ár. Íslenskir starfsmenn Flotastöðvarinnar voru 808 að tölu árið 1993. Nú eru 703 íslendingar við störf hjá flotastöðinni og 891 hjá öllum rekstrareiningum Varnarliðsins. Lágt gengi Bandaríkjadollars að undanförnu hefur haft mjög óhagstæð áhrif á greiðslujöfnuð varnarliðsins innanlands. Uppsagnir ná ekki til starfsmanna annarra deilda rekstrareininga varnarliðsins sem hafa samtals um 188 manns á launaskrá, en breytingar verða á hlunnindagreiðslum starfsmanna í öllum deildum varnarliðsins. Frestun á umræddum aðgerðum hefði óhjákvæmilega haft fleiri uppsagnir í förmeð sér. Niðurskurður í rekstri flotastöðvarinnar hefur engin áhrif á varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, og er í engum tengslum við umræður um framtíð varnarliðsins né endurskoðun á viðbúnaði Bandaríkjahers á heimsvísu sem nú eru til athugunar,“ segir í tilkynningu frá Varnarliðinu.

Í tilkynningunni kemur fram að umræddar sparnaðaraðgerðir hafi verið kynntar íslenskum stjórnvöldum og stéttarfélögum starfsmanna. „Af þeim sem sagt er upp störfum eru 69 manns af Suðurnesjum og 21 af höfuðborgarsvæðinu. 67 karlar og 23 konur. Í heild eru um 70% starfsmanna varnarliðsins af Suðurnesjum. Hlunnindagreiðslur sem lækka eða falla niður eru fargjöld sem allir starfsmenn utan Keflavíkur og Ytri-Njarðvíkur njóta , en þar er boðið upp á ferðir á vinnustað .Bifreiðastyrkur til u.þ.b. 270 starfsmanna fellur niður. Fargjöld til rúmlega 80 starfsmanna sem búsettir eru á Suðurnesjasvæði, utan Keflavíkur og Ytri-Njarðvíkur, falla niður. Ferðatími af höfuðborgarsvæðinu lækkar og verður sá sami og til Suðurnesjamanna. Hér er um að ræða u.þ.b. 260 manns. Aðrar sparnaðaraðgerðir sem flotastöðin mun ráðast í eru m.a. að ekki verður ráðið í stöður sem þegar eru lausar eða eru óþarfar eftir atvikum, ýmsir þjónustu og smærri verksamningar verða endurskoðaðir, dregið verður úr birgðakaupum og dregið úr ferðakostnaði og þjálfun eftir því sem tök eru á.“

 

VF-ljósmynd/HBB.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024