Framtíðarhugsunina vantar í aðgerðir ríkisstjórnarinnar
Oddný hefur áhyggjur af fjárframlögum til Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Oddný Harðardóttir svaraði spurningum Víkurfrétta á dögunum en þar kom m.a. fram að Oddný telur að alvarleg staða muni koma upp ef ekki verði gerð leiðrétting á fjárlögum ársins 2014 til HSS. Verði ekki brugðist við á viðunandi hátt muni það leiða til skertrar þjónustu og fjölda uppsagna heilbrigðisstarfsfólks. Oddný sagði einnig að áherslur núverandi ríkisstjórnar væru henni ekki að skapi, en hún sat sjálf í ríkisstjórn og gegndi embætti fjármálaráherra á síðasta kjörtímabili. Hún lýsir yfir áhyggjum sínum af fjárframlögum til Fjölbrautaskóla Suðurnesja og óttast að jafnvel verði að vísa nemendum þar frá.
„Það þarf ekki að koma neinum á óvart að áherslur ríkisstjórnarinnar eru ekki að mínu skapi. Stefna hennar sem sett er fram með fjárlagafrumvarpinu er afskaplega gamaldags, sama hvort heldur er í byggðamálum, menntamálum eða atvinnumálum. Það sýnir, t.d. ekki mikinn skilning á stöðu ríkissjóðs að gefa útgerðum stórkostlegan afslátt af veiðigjaldi eða að gefa erlendum ferðamönnum afslátt af neysluskatti og boða um leið niðurskurð í ríkisrekstri. Það er ekki trúverðugt eða líklegt til að auka skilning á skertri þjónustu stofnana, erfiðum uppsögnum ríkisstarfsmanna eða frestun á mikilvægum verkefnum,“ segir Oddný sem hefur áhyggjur af lykilstofnunum Suðurnesjamanna.
„Við Suðurnesjamenn þurfum að berjast fyrir okkar lykilstofnunum eins og HSS og Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS). Framlög til framhaldsskóla eru skorin niður líkt og til heilbrigðisstofnana. Framlög til þróunarstarfs í skólum er skorið harkalega niður sem kemur helst niður á skólum sem hafa tekið ríkan þátt í slíku starfi eins og FS hefur gert. Framlag til að greiða fyrir aðgengi ungs fólks í framhaldsskóla og til að stuðla að fjölbreyttara námsframboði er skorið niður og Þróunarsjóður fyrir starfsnám er lagður af. Framtíðarhugsunina vantar algerlega í aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það verður að stefna að fjölbreyttara námsframboði og enn betra skólastarfi.“
Oddný telur að ef ekki komi til breytinga á fjárframlögum til FS sé hættan sú að skólinn verði að vísa frá nemendum. „Það væri mjög alvarleg staða og til þess fallin að draga ungt fólk niður sem jafnvel fær ekki heldur störf við sitt hæfi. Markmiðið ætti að vera að styðja við unga fólkið okkar og tryggja virkni þeirra hvort sem er í námi eða starfi. Skortur á slíkum stuðningi felur í sér áhættu á að slæmar aukaverkanir setji mark á líf ungmennanna fram eftir ævi. Ríkisstjórnin talar fjálglega um mikilvægi hagvaxtar til framtíðar en lítur fram hjá því að ef auka á þann hagvöxt sem hver einstaklingur skapar, er nauðsynlegt að raða menntun framar og tryggja gott aðgengi að námi á framhaldsskólastigi.“
Í vetur ætlum við hjá Víkurfréttum að fylgjast vel með störfum þingmanna okkar og spyrja þá reglulega út í málefni sem tengjast Suðurnesjum á einn eða annan hátt. Við viljum einnig gefa lesendum kost á að senda inn spurningar sem við vinnum úr og berum undir þingmenn svæðisins. Spurningar má senda á [email protected]