Framtíð Wilson Muuga ræðst í Hafnarfirði í dag
Flutningaskipið Wilson Muuga er kominn til hafnar í Hafnarfirði og mun að líkindum fara í slipp þar, annað hvort til viðgerðar eða niðurrifs. Björgun skipsins af strandstað í Hvalsnesfjöru gekk eins og í lygasögu en skipið var laust af strandstað örfáum mínútum eftir að byrjað var að toga í það síðdegis í gær. Þegar skipslúðrarnir blésu var ennþá klukkustund í háflóð, en mjög stórstreymt var í gær.
Í dag verður svo skoðað hvað verður um Wilson Muuga. Árni Kópsson og hans menn höfðu unnið við það frá 1. apríl að þétta skipið í samvinnu við útgerðarfélag skipsins, Nesskip. Alls var dælt um 1800 tonnum af sjó úr skipinu til að létta það nægilega áður en það var dregið á flot.
Mynd: Wilson Muuga kemur til Hafnarfjarðar í gærkvöldi. VF-mynd: Hilmir/Víkurfréttir Hafnarfirði
.