Framtíð sparisjóða rædd á eftir
Stjórnendur sparisjóðanna munu nú á eftir eiga fund með viðskiptaráðherra og mun staða þeirra og framtíð væntanlega skýrast þar. Þykir ekki ólíklegt að talað verði um sameiningu sparisjóðanna.
Undanfarna daga hefur verið unnið í því af ýmsum hagsmunaaðilum að halda Sparisjóði Keflavíkur á floti í þeim mikla ólgusjó sem nú ríkir í efnahagskerfinu. Lausafjárstaða Spkef er mjög erfið. Hefur m.a. verið rætt um að ýmsir lífeyrissjóðir komi að málinu, m.a. Lífeyrirsjóður verslunarmanna. Guðbrandur Einarssonar, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, staðfestir að þetta sé eitt af því sem nú sé verið að skoða.
„Það er reyndar fólk út um allt að vinna í málinu og finna leiðir til að styrkja stöðu Sparisjóðsins, bæði hagsmunaaðilar, félagasamtök, einstaklingar og sveitarfélög,“ segir Guðbrandur.