Framsóknarmenn vilja sameina sveitarfélögin á Suðurnesjum
Félagsfundur í Framsóknarfélagi Reykjanesbæjar haldinn 24. september í félagsheimili Framsóknarmanna í Reykjanesbæ ályktar að það sé samfélaginu, íbúum og fyrirtækjum á Suðurnesjum til hagsbóta að bæjarfélögin fimm á Suðurnesjum sameinist í eitt sveitarfélag.
Hagsmunum íbúa á Suðurnesjum er best borgið með einu öflugu sveitarfélagi. Rekstur sameinaðs sveitarfélags verður skilvirkari en þeirra fimm sem starfa í dag. Framsóknarfélag Reykjanesbæjar leggur til að sett verði á laggirnar samstarfsnefnd innan S.S.S., skipuð fulltrúum úr meiri- og minnihluta allra bæjarfélaganna. Nefndin mun síðan ræða og leggja fram tillögur með hvaða hætti best verðir staðið að sameiningu sveitarfélaganna.
Í ljósi nýsamþykktra sveitarstjórnarlaga og áforma ríkisvaldsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitastjórnarstigsins gefst nú tækifæri á að sveitarfélögin sameinist undir eina stjórn. Með því næst fram sparnaður, hagræðing og meiri skilvirkni í rekstri.
Markmið sveitarfélaga er að skapa sterkt samfélag, auka velferð og þjónustu íbúa samfara því að skila góðum árangri í rekstri. Með sameiningu allra sveitarfélaga á Suðurnesjum telja Framsóknarmenn í Reykjanesbæ að þessi markmið náist.
Framsóknarfélag Reykjanesbæjar mun tala og beita sér fyrir sameiningu sveitarfélaga á Reykjanesi með upplýstri umræðu, gagnaöflun og rannsóknum á kostum og göllum sameiningar og leggja áherslu á hinn félagslega þátt, segir í frétt frá Framsókn.