Framsóknarmenn í Reykjanesbæ harma höfuðborgarstefnu flokksþings
Stjórn fulltrúráðs Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ harmar í ályktun niðurstöðu höfuðborgarstefnu flokksþings Framsóknarflokksins sem haldið var nú um helgina. Þar segir m.a. að “Miðstöð innanlandsflugsins verði áfram rekin í Reykjavík”. Þessari málalyktan geta Framsóknarmenn á Suðurnesjum ekki við unað, en samkvæmt núverandi skipulagi borgarstjórnvalda er ljóst að flugvöllurinn þarf að flytjast úr Vatnsmýrinni fyrir árið 2024. Stjórnin telur að ný miðstöð innanlandsflugs eigi að vera á Keflavíkurflugvelli. Ekki komi til greina að byggja nýjan flugvöll í Reykjavík. Óhætt er að fullyrða að miklir fjármunir sparist fyrir þjóðarbúið við að flytja miðstöð innanlandsflugs til Keflavíkur. Þá fjármuni má nýta til annarra mikilvægra og nauðsynlegra verkefna á landsbyggðinni sem lúta að því að stuðla að jafnvægi milli landshluta. Að þessu munu Framsóknarmenn í Reykjanesbæ vinna innan Framsóknarflokksins, segir í ályktun frá stjórn fulltrúaráðs Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ frá því í gærkvöldi.