Framsækið skólastarf í Akurskóla
Skólar voru settir víðast hvar á Suðurnesjum í dag. Í Grindavík verður skóli þó settur á morgun.
Skólasetningar fóru fram með hefðbundnum hætti víðast hvar, en í dag var Akurskóli í Reykjanesbæ settur í fyrsta skipti. Jónína Ágústsdóttir, skólastjóri setti skólann og kynnti tilvonandi nemendur og foreldra þeirra fyrir kennurum og starfinu.
Eiríkur Hermannsson, fræðslufulltrúi Reykjanesbæjar, segist bera miklar vonir til starfsins í Akurskóla en þar verður skipulag ekki með hefðbundnum hætti. 100 nemendur eru skráðir í upphafi skólaárs, á aldrinum 6-12 ára, en í stað þess að vera kennt í bekkjum 1-6 verða fimm hópar. Þar verður unnið í þematengdum verkefnum, fyrst um umhverfið þar sem þau kynnast hvort öðru og nánasta umhverfi skólans.
„Rauði þráðurinn í þeirri hugmyndafræði sem unnið er eftir er Samvinna og fjölbreytni,“ segir Eiríkur. „Ég er spenntur að sjá hvernig til tekst og hef fulla trú á því starfsfólki sem við höfum fengið til okkar.“
Í ár er nemendum í fyrsta sinn leyft að sækja skóla utan síns skólahverfis og segir Eiríkur að eitthvað hafi verið um að börn hafi skipt um skóla en í langflestum tilfellum hafi krakkarnir haldið áfram í sínum skóla.