Framlög til Voga skerðast um 27 milljónir króna
- bæjarráð Sveitarfélagsins Voga ályktar um Jöfnunarsjóð
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur nýlega vakið athygli á því að ríkisstjórnin áformar frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á næstu tveimur árum. Samkvæmt úttekt sem framkvæmd hefur verið á vegum Hag- og upplýsingasviðs Sambandsins hefur þessi frysting framlaganna þau áhrif að útgjaldajöfnunarframlag og framlag vegna jöfnunar fasteignaskatta munu skerðast.
Í úttektinni má sjá að framlög til Sveitarfélagsins Voga muni skerðast um rúmlega 27 m.kr. að óbreyttu, á þeim tveimur árum sem frystingin nær til. Sé sú tala sett í samengi við rekstur sveitarsjóðs þá er áætlaður rekstrarafgangur á þessu ári áætlaður um 24 m.kr., þannig að glöggt má sjá að skerðing sem þessi hefur veruleg áhrif á rekstur bæjarsjóðs okkar, segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum í vikulegum pistli sem hann skrifar.
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga samþykkti sérstaka bókun vegna þessara áforma á fundi sínum í vikunni, þar sem áformuðum skerðingunum er mótmælt.