Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Framleiða hollan mat á umhverfisvænan hátt
Föstudagur 13. apríl 2012 kl. 12:02

Framleiða hollan mat á umhverfisvænan hátt



Í ágúst 2011 gerðu Stolt Sea Farm (SSF) og HS Orka hf samning um leigu á lóð HS Orku við Reykjanesvirkjun sem og kaup á volgum sjó, rafmagni og grunnvatni frá virkjuninni. Framkvæmdir við uppbyggingu fiskeldisins munu hefjast í næstu viku. „Samningur fyrirtæksins við SSF fellur mjög vel að umhverfisstefnu fyrirtækisins. Okkur er tíðrætt um að minnka áhrif okkar á umhverfið, og hér gefst okkur tækifæri til að koma með gott framlag með því að framleiða á umhverfisvænan og endurnýjanlegan máta hollan mat fyrir fólk,“ segir Júlíus J. Jónsson, forstjóri HS Orku hf.

Fiskeldið verður stærsta fiskeldi í heimi fyrir Senegal flúru (Solea senegalensis). SSF mun reisa háþróað fiskeldi á umræddri lóð. Samkvæmt samningi fyrirtækjanna, mun HS Orka útvega eldinu rafmagn og heitan hreinan sjó, sem nú rennur ónýttur til sjávar frá virkjuninni. Fyrirkomulag þetta sameinar sérstaklega vel markmið fyrirtækjanna er lúta að umhverfisvænni starfssemi. Fiskeldisstöðvar SSF eru viðurkenndar fyrir að vera umhverfisvænar og fyrir góða vistvæna orkunýtingu. HS Orka framleiðir rafafl með því að nota íslenzkar auðlindir á skynsaman og umhverfisvænan hátt.

Pablo Garcia, forstjóri Stolt Sea Farm segir samningur fyrirtæksins við HS Orku vera  fyrirmyndar sönnun þess hvernig unnt er að nýta náttúruauðlindir á sem hagstæðastan og umhverfisvænastan hátt. Kælisjór sem hitnar við að fara í gegnum orkuverið verði héðan í frá notaður til að rækta hreinan næringarríkan matfisk á nýstárlegan og endurnýjanlegan máta.

Rannsóknarteymi Stolt Sea Farms hóf rannsóknir og tilraunir á Senegalflúru árið 1999 og hefur síðan þá tekist að þróa stýrða og örugga ferla, sem gerir fyrirtækinu kleift að auka framleiðslu fisksins frá 300 tonnum á ári upp í 2.000 tonn á ári í einni og sömu fiskeldisstöðinni .

Fiskeldið verður byggt í tveimur áföngum á 10 hektara leigulóð. Fyrsti áfangi, sem mun framleiða 500 tonn af flúru á ári, verður lokið í júní 2013. Þegar sú framleiðslueining hefur skilað ásættanlegum árangri, verður hafist við byggingu á næsta áfanga, 1.500 tonna ársframleiðslu, en með henni yrði heildarframleiðsla eldisins 2.000 tonn á ári. Gert er ráð fyrir að 30 störf skapist á framkvæmdatíma fyrsta áfanga. Áætlað er að 33 starfsmenn munu starfa við eldið í fyrsta áfanga, en 74 þegar öðrum áfanga er lokið.

Reykjanesvirkjun HS Orku hf er 100 MWe jarðvarmavirkjun, sem er sérstök á margan hátt m.a. vegna þess að hún er sjókæld. Í um 100 m fjarlægð frá strönd eru um 50 m djúpar sjónámsholur, sem sjá virkjuninni fyrir um 3500 l/s af 8 °C kælisjó. Sjórinn sem borholudælurnar draga til sín um 100 m langan veg gljúpra hraunlaga er afar hreinn, því hraunlögin sía burt allan sjávargróður og sjávardýr. Á vegi sínum frá borholudælu að, í gegnum og frá virkjun kemst sjórinn einungis í snertingu við glertrefja- og titanrör, sem gefa ekki frá sér nein efni í sjóinn. Frá orkuverinu fær fiskeldið því um 35 °C afar hreinan sjó, sem er eldinu dýrmætt. Með tilkomu fiskeldisins framleiðir og selur orkuverið varma auk rafmagns og verður þar með svipaðrar gerðar og það í Svartsengi. Með tilkomu fiskeldisins og fiskþurrkunarfyrirtækjanna Háteigs og Haustaks er lagður grunnur að nýstárlegum Auðlindagarði/Matvælagarði, sem í er framleiddur hreinn, hollur og næringarríkur matur fyrir fólk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024