Framkvæmdum við Gerðaskóla haldið áfram
Í fjárhagsáætlun Garðs fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að framkvæmdum við Gerðaskóla verður haldið áfram en nú þegar er hafin uppsteypa á 8 kennslustofum.
„Framkvæmdin er mannfrek sem er kostur í ríkjandi atvinnuástandi en einnig er löngu tímabært að bæta námsumhverfi nemenda skólans. Í beinu framhaldi af uppsteypunni er gert ráð fyrir að fullbúnar verði 4 kennslustofur. Samkomusalur verði kláraður og nauðsynlegar aðgerðir framkvæmdar innanhúss sem tengir eldra húsnæði við það nýja,“ segir í greinargerð með fjáhagsáætluninni sem lögð var fyrir til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í gær.
Þá er gert ráð fyrir endurnýjun fráveitukerfis bæjarins, í áföngum. Áfangar ársins 2009 eru fráveitulagnir sem tengja hverfi í mið-Garði ofan Garðbrautar, við sverari lögn til sjávar.
Þau verkefni sem gert er ráð fyrir og geta talist til meiriháttar viðhalds á fasteignum bæjarins eru lagfæring á Samkomuhúsinu en skipta þarf um þak hússins og klæðningu á útveggjum til að verja húsið frekari skemmdum. Einnig er gert ráð fyrir viðgerð á félagslegum íbúðum og á gólfi og veggjum á sal og sturtuklefum Íþróttamiðstöðvarinnar.
Gert er ráð fyrir að ásamt skatttekjum séu útgjöld ársins 2009 fjármögnuð með hluta af vaxtatekjum Framtíðarsjóðs bæjarins árið 2008 og öllum vaxtatekjum ársins 2009.
Sjá nánar um fjárhagsáætlunina hér