Framkvæmdir við Sundmiðstöðina taka fjóra mánuði
Framkvæmdir við útisvæði Sundmiðstöðvar í Keflavík eru að fara af stað. Verkinu verður skipt í þrjá áfanga. Í fyrsta áfanga verður rennibraut og steypt áhorfendasvæði rifin. Byggðir verða tveir nýir heitir pottar og einn kaldur pottur. Í áfanga tvö verður gufubað og útiklefi rifið. Byggðir tveir útiklefar, ný sauna og ný blautgufa. Í áfanga þrjú er svo komið að því að setja upp nýjar rennibrautir. Reykjanesbær hefur samið við Framkvæmdafélagið Arnarhvol um framkvæmdina.
Rennibrautirnar koma frá Polin í Tyrklandi en framleiðandi rennibrautar hefur umsjón með uppsetningu á rennibrautinni. Verktími er áætlaður fjórir mánuðir og stefnt er að því að sundlaugargestir geti byrjað að nota nýja aðstöðu föstudaginn 30. október nk.
Ekki stendur til að loka sundlauginni meðan á framkvæmdum stendur og eru gestir beðnir velvirðingar á því ónæði sem framkvæmdin getur valdið.