Framkvæmdir við Íþróttaakademíu ganga vel
Framkvæmdir við Íþróttaakademíu í Reykjanesbæ ganga vel og nú þegar er komin mynd á bygginguna sem tekin verður í notkun næsta haust.
Árni Sigfússon bæjarstjóri brá sér í heimsókn á byggingarsvæðið í gær ásamt Stefáni Bjarkasyni framkvæmdastjóra MÍT sviðs og samkvæmt vefsíðu Reykjanesbæjar, bauð Árni starfsmönnum upp á harðfisk um leið og hann kannaði framgang mála. Búið er að steypa grunn byggingarinnar og uppsteypa á útveggjum er langt komin.
Húsið er alls 2.700 m2 og er áætlaður byggingarkostnaður um 450 milljónir króna.
Þess má geta að íþróttasalur akademíunnar er 20x40 á stærð og rúmar því löglegan handboltavöll en lögleg keppnisstærð í körfubolta er 18x33.
Skólastarf mun hefjast í akademíunni í september 2005 og er gert ráð fyrir að nemendur á fyrsta ári skólans verði um 30 talsins en þeim mun fjölga ört á næstu árum.
Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. byggir húsið en framkvæmdir eru í höndum Íslenskra Aðalverktaka. Skóflustunga var tekin að byggingunni þann 13. nóvember sl. og má því segja að byggingin rísi hratt.
Fengið af vef Reykjanesnbæjar www.rnb.is